Styður Ísland stríðsglæpi eða mannúðarlög? 

Skoðun Helen Ólafsdóttir 30. okt 2023

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, lýsti því yfir að Ísland hefði skýra stefnu varðandi ástandið á Gaza og setti fram kröfu um mannúðarvopnahlé. Utanríkisstefna Íslands skolaðist eitthvað til því sama kvöld sat Ísland hins vegar hjá þegar kosið var um ályktun sem var sett fram af 45 ríkjum á neyðarfundi Allsherjarþingsins sem fól í sér í meginatriðum þrennt: vopnahlé, óhefta mannúðaraðstoð inn á Gaza og að þvingaðir fólksflutningar yrðu stöðvaðir en Ísrael hefur krafist þess að yfir milljón manns yfirgefi heimili sín og leiti sér skjóls í suðurhluta Gaza.

Fjórum sinnum hefur Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna mistekist að ná samkomulagi um átökin á milli Ísrael og Hamas þar sem Bandaríkjamenn og Rússar beita neitunarvaldi á víxl. Öryggisráðið er lamað. Ályktunin í Allsherjarþinginu er fyrst og fremst táknræn og tekur púlsinn á því hvar heimurinn stendur í þessum átökum. Hjáseta Íslands var einkennileg í ljósi þess að Ísland hefur viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki og á í stjórnmálasambandi við Palestínu. Íslenskir ráðamenn hafa auk þess sett út margar yfirlýsingar nýverið þar sem þeir halda á lofti mannréttindum, sjálfsákvörðunarrétti þjóða, alþjóðalögum og mannúðarlögum. Þessar yfirlýsingar hafa verið látnar falla í tengslum við stríðið í Úkraínu en einhverra hluta vegna þegar kemur að Palestínu þá gilda greinilega ekki sömu lögmál.  

Ísland útskýrði hjásetuna á þann veg að ekki hefði náðst samstaða um orðalag ályktunarinnar. Þetta er einfaldlega ekki rétt. 121 ríki samþykktu ályktunina sem er yfirgnæfandi meirihluti. 44 lönd sátu hjá en 14 kusu á móti. Það sem yfirlýsing utanríkisráðuneytisins vísar í er að það náðist ekki sátt um breytingartillögu sem Kanada lagði fram en þar var farið fram á að Hamassamtökin yrðu fordæmd og að sérstaklega væri vísað í gíslana frá Ísrael. Breytingartillagan var ekki samþykkt og því var upprunalega ályktunin lögð fram óbreytt.

Ályktunin var sett fram á þeim forsendum að hún snéri eingöngu að mannúðarmálum. Breytingartillaga Kanada hefði því í raun skapað ójafnvægi. Það var viljandi gert að nefna ekki stríðandi fylkingar á nafn né fordæma til að koma í veg fyrir pólariseringu þar sem ályktunin snéri eingöngu að mannúðarhliðinni. Ef breytingatillaga Kanda hefði verið samþykkt þá hefðu önnur ríki krafist þess að aðgerðir Ísraelshersa yrðu sömuleiðis fordæmdar. Aðalmarkmið ályktunarinnar var að sögn þeirra ríkja sem lögðu hana fram að stöðva stríðið á Gaza. Ástæðan fyrir því að ályktunin talaði ekki sérstaklega um ísraelska gísla heldur kallaði almennt eftir því að allir saklausir borgarar yrðu leystir úr haldi er vegna þess að talið er að yfir sex þúsund Palestínumenn séu í haldi án dóms og laga í Ísrael auk þess sem ekki er vitað um afdrif yfir 18 þúsund manna sem koma fram Gaza sem unnu í suðurhluta Ísrael. Það þótti því meira jafnvægi í því að krefjast þess að allir saklausir borgarar sem eru í haldi gegn vilja sínum yrði tafarlaust leystir úr haldi.

Belgía, Frakkland, Írland, Noregur, Portúgal, Spánn, Sviss og fleiri í Evrópuríki kusu með tillögunni. Öll fordæmdu þau Hamas og flest kusu um með breytingartillögu Kanada en þessi ríki tóku engu að síður þá afstöðu að ástandið á Gaza væri svo slæmt að þau gætu ekki annað en stutt ályktunina. Ísland hefði getað tekið í sama streng sérstaklega í ljósi þess hvernig átökin eru að stigmagnast og mannúðarkrísan versnar dag frá degi.

Sameinuðu Þjóðirnar fordæmdu hryðjuverk Hamas, um það er ekki deilt. En Aðalritari Sameinuðu Þjóðanna sagði líka að árás Hamas kom ekki úr tómarúmi. Hernám Ísraels í Palestínu, stöðugt ólöglegt landnám, niðurlæging og mannréttindabrot hefur þrengt að Palestínumönnum. Ekkert réttlætir árásir á almenna borgara en það sem er nú að gerast á Gaza er langt umfram einhverja eðlilega sjálfsvörn. Aðgerðir Ísraelshers eru ekki bara óhóflegar heldur gerast nú stjórnvöld í Ísrael sek um umsvifamikla stríðsglæpi með því að neita fólki um mat, vatn og lyf og m.a. með kröfum um umsvifamikla fólksflutninga. Allt brýtur þetta gegn ákvæðum Genfarsáttmálans því Gaza er í lagalegum skilningi hernumið svæði af Ísrael. Þá hafa Sameinuðu Þjóðirnar sakað Ísrael um árásir á óbreytta borgara. Sprengjunum rignir niður og 8000 Palestínumenn, yfir helmingur börn liggja í valnum. Það er vert að spyrja hversu lengi ætla íslensk stjórnvöld að styðja við rétt Ísraels til að verja sig með þeim hætti sem stjórnvöld í Ísrael gera í dag? Hversu mörg börn þurfa að deyja í Palestínu til að hægt sé að svala hefndarþorsta ísraelskra stjórnvalda?

Atkvæðagreiðsla Íslands í Allsherjarþinginu opinberaði veikan hlekk í íslenskri stjórnsýslu og undirstrikar í mínum huga að Alþingi þarf að veita starfsemi okkar á Allsherjarþinginu meiri athygli. Atkvæðagreiðsla okkar á ekki að vera prívat mál eins ráðherra og hans flokks. Eðlilegra hefði verið að ræða málið í ríkisstjórn og í utanríkismálanefnd Alþingis. Hér finnst mér forsætisráðherra hafa brugðist á vaktinni því þetta er sett fram í hennar nafni og á hennar ábyrgð. Það er lágmark að við fáum skýringar á því hver sé raunveruleg stefna íslenskra stjórnvalda þegar kemur að Ísrael og Palestínu. Eins og staðan er í dag er engin skýr stefna og það í mínum huga er óboðlegt.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí