„Við erum löngu hætt að gera ráð fyrir réttlæti hjá íslenskum dómstólum,“ segir menntamálaráðherra í viðtali. Það er algjörlega óásættanlegt að ráðherra í ríkisstjórn, sem ber ábyrgð á framkvæmdavaldi landsins, tali með þessum hætti um íslenska dómstóla. Það er ekki aðeins óábyrgt heldur beinlínis hættulegt.
Þetta eru skrif Áslaugar Örnu Sigubjörnsdóttur. Hún skrifaði meira.
„Þessi ummæli grafa undan trausti almennings á réttarkerfinu og sýna lítilsvirðingu fyrir sjálfstæði dómsvaldsins – einu af þremur meginstoðum lýðræðisins.
Ef ráðherrar ríkisstjórnarinnar sjálfir hafa misst trú á réttlæti íslenskra dómstóla, hvernig eigum við þá að ætlast til þess að borgararnir geri það?
Auðvitað er eðlilegt að einstaklingar verði ósáttir við niðurstöður dómstóla eða telji þær rangar. Gagnrýni byggð á rökum og með vísun í lögin á fullt erindi í lýðræðislegri umræðu.
En að ráðherra, sem sjálfur er hluti af framkvæmdavaldinu, ráðist á dómsvaldið með svona alhæfingum er aftur á móti algjörlega óásættanlegt. Það dregur úr trúverðugleika réttarkerfisins og vegur að grunnstoðum lýðræðisins.
Annaðhvort er þetta alvarlegur dómgreindarbrestur eða meðvituð atlaga að sjálfstæði dómsvaldsins. Hvorugt er ásættanlegt.“