Meiðandi yfirlýsingar um fréttamann Sjónvarpsins, Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur hafa vakið furðu og þá ekki síður hafa viðbrögð forráðamanna fréttastofunnar valdið forundran.
Í fáum orðum sagt var aflýst fyrirhugaðri umfjöllun Maríu Sigrúnar í fréttaskýringaþættinum Kveik og látið fylgja með að hún væri ekki lengur hluti af Kveiksteyminu – með öðrum orðum rekin! – því í störfum þar hafi hana skort fagmannlega burði. Hins vegar væri hún afbragðs þulur og átti greinilega að skilja það svo að í því hlutverki ætti María Sigrún að halda sig.
Þar til nú hefur ekki komið fram hvert umfjöllunarefni Maríu Sigrúnar fyrir Kveik var, hvað gat verið svo viðkvæmt að það ætti ekki heima í þessum þætti. Nú hefur DV upplýst að hið viðkvæma mál hafi verið sú ákvörðun forráðamanna Reykjavíkurborgar að gefa olíufélögum dýrmætar lóðir til að braska með og svo einnig áform braskaranna um yfirgengilegt byggingarmagn á þessum lóðum sem íbúar hafi harðlega mótmælt.
Fréttastjóri Sjónvarpsins hafnar vangaveltum um að annarleg sjónarmið hafi ráðið för af hálfu þeirra sem stýra fréttaskýringarþættinum Kveik við brottrekstur Maríu Sigrúnar og sendi hann frá sér eftirfarandi yfirlýsingu sem DV hefur birt:
„Í dag og í gær hafa birst fréttir þess efnis að fréttaskýring sem var í vinnslu fyrir fréttaskýringaþáttinn Kveik og átti að sýna síðasta þriðjudag hafi verið tekin af dagskrá og jafnframt látið að því liggja að annarleg sjónarmið búi að baki. Það á ekki við nein rök að styðjast. Fréttaskýringin, sem hafði verið unnið að um skeið, var ekki fullbúin til sýningar í síðasta þætti Kveiks þennan vetur. Því buðu stjórnendur fréttastofu RÚV að málinu yrði fundinn farvegur í Kastljósi, næðist að klára að vinna það.
Að öðru leyti mun ég ekki tjá mig um þetta starfsmannamál eða vitna í trúnaðarsamtöl.“
Við þetta leyfi ég mér að gera eftirfarandi athugasemdir:
Ef umrædd umfjöllun var ekki tilbúin til útsendingar þá bar Kveik einfaldlega að fresta umfjöllun sinni hávaðalaust í stað þess að reka fréttamanninn á dyr með svívirðingum opinberlega. Í umfjöllun sem nú er að koma fram er svo að skilja að vel hefði mátt klára innslagið ef vilji hefði staðið til þess. En það er aukaatriði.
Varðandi lokasetninguna í yfirlýsingu fréttastjórans um að hann muni ekki tjá sig frekar um þetta “starfsmannamál” þá er það að segja að því fer fjarri að þetta sé fyrst og fremst starfsmannamál. Þvert á móti þarf að fá úr því skorið hvort hér sé á ferðinni tilraun til ritskoðunar og þöggunar. Þetta þarf að fá upplýst.
Hitt er morgunljóst að um er að ræða grófa ærumeiðingu um góða og faglega fréttakonu; að láta það fylgja með sem klapp á kollinn þegar hún er rekin á dyr, að hún lesi fréttirnar vel og eigi ekki að ætla sér meira en hún hafi burði til.
Ef samhengið væri annað væri það að sjálfsögðu hrós að vera sagður góður þulur því starf fréttaþular er krefjandi um margt; hvað varðar persónuleika, áheyrilegan og þægilegan talanda og síðast en ekki síst skilning á máli. Allt þetta hefur María Sigrún vissulega til að bera og er hrósvert. Það breytir því hins vegar ekki að hún hefur auk þess það til að bera að vera góður fréttamaður!
Ég hef ekki hugmynd um það fremur en flestir aðrir frá hvaða sjónarhorni átti að nálgast besnsínlóðamálið. Hinu hefði ég fagnað að umfjöllun yrði hafin í Ríkisútvarpinu og þögnin þar með rofin um augljóst spillingarmál.
Fréttastofunni ber að biðja Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur afsökunar og reyndar einnig okkur sem eigum þessa fréttastofu og höfum þá menn í vinnu sem ekkert segjast vilja við okkur tala.
Sjá umfjöllun DV: https://www.dv.is/frettir/2024/4/27/thetta-er-umfjollunin-sem-maria-sigrun-fekk-ekki-birta-kveik/
Sjá umfjöllun Samstöðvarinnar: https://samstodin.is/2024/04/mariu-baudst-engin-adstod-tho-naer-allir-vaeru-ad-vinna-efni-sem-a-ad-birtast-i-september/
Sjá umfjöllun mbl.is: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/04/27/thetta_thotti_mer_midur/
vísir: https://www.visir.is/g/20242562851d/gefur-litid-fyrir-ut-skyringar-fretta-stjorans