Þögn sem fórnar fólki

Skoðun Sara Stef. Hildar 4. feb 2023
Speak no evil (Sundance Institute/Erik Molberg)

Línur hafa verið skýrar í baráttu Eflingar fyrir bættum kjörum hinna verst settu. Stéttabarátta er raunveruleg í samfélaginu – það fer ekki framhjá neinum.

Hægri millistéttin og hin ríku til hægri standa í fremstu víglínu andspænis lægst launaða verkafólki landsins. Hægrið ætlar ekki að láta eftir örðu af lífskjarakökunni.

Þetta kemur engum á óvart.

Svo má sjá mjög stóran meginstraums millistéttarhóp fólks sem býr við þau forréttindi að ná endum saman. Þar er línan líka skýr.

Þar er fólkið sem stendur í þeirri trú að kurteisleg þögnin sé þeirra lóð á vogarskálar togstreitunnar.

Þögnin getur jú verið merki um yfirvegun og ígrundun svo þess vegna sé best að halda friðinn með þögn. Sýna yfirvegun þegar slær á harðbakkann.

Taka enga augljósa afstöðu. Láta ekki ófriðlega. Friðelskandi samfélag er jú það sem við hljótum öll að vinna að?

En ef þögn er sama og samþykki þá er erfitt að ætla annað en að þessi stóri hópur, þögla millistéttin, jafnaðarfólk og feministar, sé að taka afstöðu.

Getur verið að þessi stóri hópur átti sig ekki á þeirri grimmd og þeim mannfórnum sem felast í því að samþykkja, með þögninni, laun fyrir fólk sem vitað er að dugir þeim ekki til framfærslu.

Þögn þessa stóra hóps samþykkir að fólk sé bundið efnahagslegum fjötrum og að börn alist upp við afleiðingar þess því foreldrar þeirra eru bugaðir, andlega og líkamlega. Fátækt fólk er svangt og hrekst um á leigumarkaði. Óvissan er þeirra eina vissa.

Þetta er bara svona.

Og þögnin samþykkir þessi kjör. Samþykkir að sum okkar eigi bara að lifa við skort. Þögnin segir að það sé eðlilegt að börn alist upp við vonbrigði, skömm og stöðugan afkomukvíða. Alveg eins og foreldrar þeirra.

Kurteisin getur nefnilega líka verið eitruð.

Munum bara að brosa – það kostar jú ekkert.

Og sælir eru fátækir. Einmitt.

Eitruð og kurteisleg jákvæðnin – afstöðuleysið- þetta eru merki samfélags sem hefur tapað áttum. Merki um að fólkið hefur tapað áttum. Samfélag er ekki einkamál hvers og eins heldur mótast samfélagið af þeim hugmyndum sem við höfum um hag heildarinnar og það er falskt samfélag sem tekur ekki upphátt afstöðu til kjara þeirra verst settu.

Ætluð kurteisin, þögnin, er því lóð á vogarskálar þeirra sem samþykkja að fórna öðru fólki fyrir eigin velsæld.

Þetta er bara svona.

Hvernig er það annars friðelskandi samfélag sem samþykkir með þögn að fórna öðru fólki?

Ég bara spyr?

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí