Þvagblautir þingmenn – aurar og apar

Skoðun Björn Þorláksson 24. jún 2025

(Skoðanagrein)

Þegar ég skrifaði spillingarsöguna Besti vinur aðal hafði ég sem almennur borgari og blaðamaður áhyggjur af vaxandi ítökum stórútgerðarinnar í íslensku samfélagi.

Og ekki var maður einn um þær áhyggjur.

Tugir viðmælenda lýsa í bókinni, ýmist undir nafni eða í skjóli nafnleysis (það getur reynst bjargræðislegur banabiti í litla landinu okkar að tala upphátt um hlutina eins og þeir eru) hvernig Stórútgerðin hefur síðustu misseri keypt upp stóran hluta af öðru atvinnulífi en í sjávarútvegi. Að óbreyttu eignast stórútgerðin allt áður en yfir lýkur. Hún eignast mjólkina í kúnum og brauðið hjá bakaranum. Og þegar útgerðarkona í Eyjum á allar kaffivélarnar í búðunum munu þeir einir geta drukkið kaffi sem eru í náðinni hjá stórútgerðinni.

Tjáningarfrelsið í hættu

Bókin Besti vinur aðal varar við því að ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða með lagasetningu, gæti útgerðaraðallinn á endanum ekki bara eignast öll fyrirtækin hér innanlands heldur líka alla starfsmennina, sumsé mestalla íslensku þjóðina. Ef stórútgerðin eignast allt atvinnulíf landsins hverfur tjáningarfrelsi almennings endanlega út í buskann, frelsi sem nú þegar er stórlaskað. Sá sem á allt undir auðvaldinu, sá sem starfað hefur hjá auðvaldinu er ólíklegur til að gagnrýna vinnuveitanda sinn. Gjaldið sem hinn almenni Íslendingur myndi greiða fyrir hina bjargræðislegu brauðmola úr lófa valdsins fælist í skilyrðislausri hlýðni, fylgispekt og jafnvel kröfu um lotningu. Við getum kallað það lýðræðislegan banabita.

Táknfrænt frumvarp

Kaldhæðni örlaganna um mjög svo ósanngjarnan ofsagróða mógúlanna í mjög umdeildu kerfi, má rekja til nýtingar þeirra á okkar auðlind. Auðlind íslensks almennings. Og það felast mikil valdaumskipti til hins verra með því að ítök sem áður dreifðust meðal margra, hafa nú runnið saman í einn grjótharðan köggul.

Þess vegna fagnaði íslenska þjóðin hóflegu frumvarpi um hærri veiðigjöld eftir raunveruleg valdaumskipti í kjölfar síðustu þingkosninga. Frumvarpið íþyngir engu fyrirtæki sem ekki skilar hagnaði. Má í raun segja að frumvarpið sé fyrst og fremst táknrænt. Það slær lítillega á ofsagróða mógúlanna en skilar um leið inn peningum fyrir ríkið sem má nýta til innviðabóta eða til að auka lýðræðið hér á landi í stað þess að stúta því.

Táknræn aðgerð

Frumvarpið er fyrst og fremst táknmynd mikilvægra breytinga sem þurfa að eiga sér stað ekki seinna en strax. Það sendir sterk skilaboð til stórútgerðarinnar, ágætis byrjun, mikilvægt upphaf. Köllum frumvarpið vendingu vegna þess að það er til marks um að þótt stórútgerðarfólk hafi haft stjórnmálamenn í vasanum ræður stórútgerðin ekki öllu. Frumvarpið sýnir freka fólkinu (sem dugar ekki að eiga öll fiskimiðin, það vill líka eiga allt landið) fram á að enn stendur einhver hluti af löggjafar- framkvæmda- og dómsvaldinu keikur. Enn er til fólk sem ekki  leggst lafhrætt og hlandblautt upp í kojuna hjá SFS sem daglega puðar út svo illa skrifuðum auglýsingaáróðri að manni verður hugsað til Hávamála – að margur verði af aurum api.  

Það var pungur í frumvarpinu hjá valkyrjunum þremur sem mynduðu nýja ríkisstjórn.

Þær sýndu svo aukið hugrekki þegar þær kynntu og samþykktu annað mál um aukið svigrúm smábátasjómanna, sem minnti arðsamar stórútgerðir á að þær eru ekki einráðar í hafinu.

Látum ekki þvagblauta kvislinga ræna völdum af réttkjörnum meirihluta Alþingis með skemmdarverkum og skækjuskap.

Frelsi okkar er undir.

Björn Þorláksson blaðamaður og rithöfundur

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí