Um eignarrétt skaparans

Skoðun Ögmundur Jónasson 16. sep 2023

Æsku­vin­ur minn, sem hef­ur unnið að því hörðum hönd­um í meira en hálfa öld að reyna að kristna mig, fékk mig á dög­un­um til að taka þátt í röð umræðufunda nokk­urra kenni­manna vest­an hafs og aust­an um um­hverf­is­vána og á hvern hátt siðfræði og trú­ar­brögð gætu komið að gagni í þeirri umræðu.

Sam­ræðan skyldi byggð á er­ind­is­bréfi Páfag­arðs frá 2015, sem ber heitið Laudato Si, Lof sé þér, en þar fjall­ar Frans páfi um al­mættið, mann­inn og nátt­úr­una. Bréfið er all­langt, þaul­hugsað og greini­lega byggt á mik­illi vinnu og yf­ir­veg­un.

Ég skal játa að held­ur var ég treg­ur til að taka þátt í þess­ari sam­ræðu en eft­ir því sem á leið, ég las meira og hlustaði á aðra, breytt­ust viðhorf mín. Enda þótt er­ind­is­bréf páfa séu al­mennt stíluð á kaþólska söfnuði þá er þetta bréf ákall til allra manna, trú­lausra sem trúaðra, að hug­leiða til­tek­in gildi sem páfi tel­ur að verði að liggja til grund­vall­ar í aðgerðum til varn­ar nátt­úr­unni. All­ir þurfi að ræðast við, kirkj­an eigi þannig er­indi við vís­ind­in og eng­ir séu þeir varn­ar­múr­ar sem nokk­ur maður eigi að geta skýlt sér á bak við til að firra sig ábyrgð; ef það sé eitt­hvað sem ekki megi alþjóðavæða þá sé það af­skipta­leysið.

Bréf páfa set­ur um­hverf­is­mál­in í sam­hengi sem er miklu gagn­rýnna og rót­tæk­ara en ég hafði bú­ist við. Á rúm­um sjö­tíu blaðsíðum er hamrað á því að um­hverf­is­bar­átt­an hljóti að vera samof­in bar­áttu fyr­ir jöfnuði og fé­lags­legu rétt­læti. Hér kveður við ann­an tón en þann sem heyr­ist frá auðkýf­ing­un­um sem ár­lega safn­ast sam­an í Dav­os ásamt stjórn­mála­mönn­um þeim hand­gengn­um sem vilja markaðsvæða all­ar lausn­ir í um­hverf­is­mál­um þannig að hagnaðar­von­in verði helsti afl­gjafi þeirr­ar bar­áttu. Í Laudato Si seg­ir á hinn bóg­inn: „Þegar litið er á nátt­úr­una ein­vörðungu sem upp­sprettu auðs og gróða, þá hef­ur það al­var­leg­ar fé­lags­leg­ar af­leiðing­ar. Þessi afstaða, „ég á þetta, ég má þetta“ („mig­ht is right“) hef­ur haft í för með sér gríðarlegt mis­rétti, rang­læti og of­beldi sem bitnað hef­ur á meiri­hluta mann­skyns því að auðlind­ir jarðar­inn­ar hafna þá á end­an­um hjá þeim sem hafa sterk­asta stöðu; sig­ur­veg­ar­inn fær tök á öllu. Í full­kom­inni and­stöðu við þetta er boðskap­ur Jesú um sam­kennd, rétt­læti, bræðralag og frið.“

En svo er það eign­ar­rétt­ur­inn. Á hon­um hef­ur kristn­in alltaf haft fyr­ir­vara, seg­ir Frans páfi. Sá sem skapi eitt­hvað öðlist vissu­lega þar með rétt til þess sem hann hef­ur skapað þótt jafn­an skuli spurt um fé­lags­legt sam­hengi, á hvern hátt þessi rétt­ur sé nýtt­ur. En hvað varðar eign­ar­rétt á sjálfu sköp­un­ar­verk­inu, jörðinni og auðlind­um henn­ar, séu eng­ir fyr­ir­var­ar, nátt­úr­an sé al­mætt­is­ins, Skap­ar­ans, sam­eig­in­leg öllu mann­kyni, eng­inn geti öðlast rétt um­fram ann­an til gæða móður jarðar. Um þenn­an skiln­ing ætt­um við öll að geta sam­ein­ast, hin trúuðu og hin trú­lausu, klykk­ir páfi út með.

Vand­ast nú málið fyr­ir þá sem segja sjáv­ar­auðlind­ina vera sína, fall­vötn­in og guf­una að sama skapi, að ógleymd­um vind­in­um og vatn­inu aust­ur í Ölfusi og víðar. Sam­kvæmt út­legg­ingu páfa eiga þeir ekki neitt í neinu þessu, enda skópu þeir ekk­ert sjálf­ir.

Eðli­legt þykir með öðrum orðum að sá sem skap­ar eitt­hvað öðlist þar með eign­ar­rétt á sköp­un­ar­verki sínu. En síðan verður það að sölu­vöru og þá koma fleiri skapend­ur til sög­unn­ar í fram­leiðslu- og sölu­ferl­um og síðan heilt sam­fé­lag sem skap­ar fram­leiðslunni um­gjörð. Að lok­um hafn­ar „eign­in“ í kaup­höll­inni. Þar eru eng­ir skapend­ur á ferli held­ur aðeins mar­grómaðir fjár­fest­ar, sem ekk­ert skapa sjálf­ir en vilja ávaxta fé sitt. Þar með má ætla að eign­ar­rétt­ur­inn hafi vatn­ast út. En vel að merkja, þetta eru mín orð en ekki páfans!

Svo er það jörðin og öll henn­ar gæði, sem stefna hraðbyri ofan í vasa ágengra fjár­festa.

Ég fæ ekki bet­ur séð en að sam­kvæmt Laudato Si og sí­fellt há­vær­ari rödd­um um ver­öld víða muni hinir stór­tæk­ari „eigna­menn“ þurfa að hafa sig alla við, nú vilji menn nefni­lega fá að vita hver hafi verið skap­ari meintra eigna þeirra og þá hvort sá skap­ari sé með litl­um staf eða stór­um.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí