Valkyrjur í vígahug

Skoðun Björn Þorláksson 4. jún 2025
Mynd: Ragnar Visage/Rúv

Það hefur aldrei verið til varnastefna hér á landi, við erum loks nú að setja slíka stefnu.

Eitthvað á þessa leið orðaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra málin í morgunútvarpi Bylgjunnar í morgun.

Iðulega heyrist að við karlar berum ábyrgð á mestöllum ófriði alheimsins í aldanna rás. Langflest stríð eru sögð okkur að kenna. Segir sagan. Við karlar nauðgum og við karlar drepum. Við karlar notum hnefana til að hafa heiminn undir á sama tíma og konur hafa viljað ræða sig að friðsamlegum og farsælum lausnum. Hver kannast ekki við slíka steríótýpísku umræðu í anda tvíhyggjunnar?

Ný narratífa?

En nú ber svo við að konur hafa öll völd innan ríkisstjórnar Íslands. Ef eitthvað væri að marka framangreint (og hefur kannske gleymst í þeirri umræðu að karlar nauðga ekki bara og drepa, þeir koma líka í veg fyrir nauðganir, þeir bjarga mannslífum og fórna iðulega eigin lífi fyrir konur og börn) hefði mátt ætla að Valkyrjurnar þrjár myndu reynast  friðsælli en hrútspungarnir sem hafa gegnt þeirra stöðum áður. Ætla mætti samkvæmt tvíhyggjunni að valkyrjurnar pössuðu sig á að verja sem fæstum krónum í hermál, stríð og varnir, að valkyrjurnar væru ráðdeildarsamari en agressífir karlar. En ber þá svo við að leitun virðist vera að ríkisstjórn sem er eins eyðsluglöð er kemur að hernaðarútgjöldum og sú sem nú  er við lýði.

Stökkbreytt framlög

Auðvitað er engin þjóð að fara að ráðast á Ísland.

Samt ræða valkyrjurnar fimm milljarða króna blóðpeninga, stökkbreyttar upphæðir miðað við fyrri fyrri fjárframlög Íslands, eins og að þær séu að tala um hnefafylli af smarties. Hamrað er á því, jafnt af hálfu forsætisráðherra og utanríkisráðherra, að það gæti kostað Ísland tugi milljarða á hverju einasta ári að gerast loks „þjóð á meðal þjóða“. Við þurfum að vera „áreiðanlegur bandamaður“, við getum ekki staðið hjá þegar önnur lönd eru í krísu, segir Þorgerður Kastrín og á við Úkraínu sem er þó í allt öðrum heimshluta en Ísland.

Það kann að vera rétt hjá ráðherranum.

Enda hefur Ísland klappað úkraínskri þjóð fallega á bakið með margvíslegum stuðningi svo sem með því að taka á móti fjölda fólks frá hinu stríðshrjáða landi. Sá stuðningur hefur vitaskuld haft áhrif á húsnæðismarkaðinn en flestir styðja slíka mannúðarpólitík af hálfu Íslands og eru stoltir af henni.

Hitt er ljóst að Íslendingar hafa ávallt notið þess efnahagslega í samfélagi við aðrar þjóðir að við eru örþjóð sem varla nær máli og fylgja því ýmsir kostir að fólksfjöldi okkar hefur vart talist upp í nös á ketti. Ásamt sérviskunni og hentistefnunni hefur það leitt til þess að alþjóðaumhverfið hefur sjaldnast gert miklar kröfur til okkar – og aldrei í hernaðarlegu tilliti.

Unglingurinn Ísland

Við höfum með öðrum orðum notið þess að heimurinn hefur litið á okkur sem ábyrgðarlausan og kannski svolítið krúttlegan ungling. Hvers vegna ættum við að vilja raska því?

Vegna okkar eigin viðhorfs og viðhorfs annarra þjóða hafa íslenskir milljarðar á milljarða ofan runnið til velferðar og upbyggingar hér á landi í stað þess að drepa fólk. Enginn hefur sagt við okkur að fyrra bragði: Nú þurfið þið að láta af ykkar sakleysi, hlutleysi og herleysi, nú þurfið þið að vera þjóð á meðan þjóða!

Sligaðar þjóðir í kring, sem hafa þurft að verja stórum hluta af eigin ráðstöfunarfé í varnir og hermang, hafa litið til okkar með öfundaraugum. Því fylgja ýmsir gallar að vera  smáþjóð og einkum þegar efnahsgsstefnan er löskuð og mest megnis hliðholl hinum sterkustu líkt og verið hefur um langt skeið. En því ættum við að svipta okkur þeim kostum sem fylgja því að vera fá og smá?

Ríkisstjórnin gerir vel í því að hækka veiðigjöld til að bæta innniði landsins. En varla er hægt að líkja því annað en að ríkisstjórnin muni pissa í skóinn sinn ef hún ætlar að taka ábatann sem felst í aukinni skattheimtu á útgerðarmenn og henda ágóðanum margföldum út um gluggann vegna hugmynda sem sumir kalla herblæti.

Það setur líka mýtuna um hina herskáu karla í sögunnar rás á hvolf.

Drengir í grunnskólum – heimi sem hefur fyllst af kennarakonum á sama tíma og flestir karlmenn eru horfnir úr stétt kennara –  hafa þurft að sitja undir því áratugum saman að heimskan og ofbeldið í heiminum sé körlum að kenna. Nú þarf kannski að túlka þá sögu með nýjum hætti.

Það er ekki ágalli heldur kostur að aldrei hefur verið til nein varnarstefna hér á landi.

Siglum því áfram undir radarn um og njótum þess áfram að vera unglingur á gelgjuskeiði.  Það er engin ástæða til að flýtja því um of að verða fullorðin. Krafa um slíkt virðist aðallega vera í höfðum vakyrjanna þriggja.

Björn Þorláks

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí