Verður Katrín Jakobsdóttir næsti forseti lýðveldisins?

Skoðun Reynir Böðvarsson 3. apr 2024

Ég skil vel að þeir sem treystu því á sínum tíma að VG færi aldrei í stjórn með Sjálfstæðisflokknum séu henni reiðir fyrir það og eigi þess vegna erfitt með að kjósa hana sem forseta. Ég er einn af þeim sem kaus VG í kosningunum 2017 í þeirri vissu að ekki kæmi til greina að atkvæði mitt yrði notað til þess að viðhalda aðild Sjálfstæðisflokksins að ríkisstjórn. Ég hef náttúrulega ekki kosið flokkinn síðan og mun ekki gera að óbreyttu. Það kemur einfaldleg ekki til greina og ég kem ekki auga á neitt sem gæti orðið til þess að ég breytti þessari afstöðu. Svikin voru einfaldlega þess eðlis að flokkur sem ég einfaldlega lít á sem íslenska útgáfu af mafíu, Sjálfstæðisflokkurinn, gat setið áfram við ríkisstjórnarborðið og haldið áfram sínu sóðalega framkvæmdarvaldsbraski.

Þá er spurningin, get ég hugsað mér að kjósa KJ sem forseta lýðveldisins eftir allt sem á undan er gengið? Ég veit það ekki, ég veit hins vegar að hún er óvenjulega frambærileg persóna í þetta embætti, það höfum við öll séð, hæfileikarík, vinnusöm, sjarmerandi og falleg ef það þá skiptir einhverju máli. Fyrir stjórnarmyndunina 2017 hefði ég tvímælalaust kosið hana til forseta ef hún hefði farið í framboð. Ekki nokkur vafi! Nú lítur málið öðruvísi við. Er ég tilbúinn til að fyrirgefa henni þessi hraparlegu mistök sem stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn að mínu mati er eða var þetta algerlega ófyrirgefanlegt.

Sem persóna er ég ekki langrækin og hef í gegnum tíðina fyrirgefið ýmislegt og mér verið fyrirgefið. Mér finnst það góður eiginleiki sem ég virði mikils hjá öðrum. Svo það opnar kannski möguleika á að kjósa KJ til forseta og fer það því eftir því hvaða frambjóðendur verða til staðar þegar á hólminn er komið.

Ég sé engan frambjóðenda sem komið hafa fram nú sem augljósan kost og atkvæði mitt færi líklega til KJ ef svo yrði. Mér lýst á margan hátt vel á Baldur Þórhallsson sem forsetaefni og það væri frábært að hafa samkynja par á Bessastöðum en ég er svolítið þreyttur á hógværum hægrikrötum hvar sem þeir fyrir koma og afstaða hans til hernaðarbrölts truflar mig.

Ef hins vegar Halla Hrund Logadóttir og/eða Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir bjóða sig fram kem ég til með að fylgjast vel með gangi mála og sitja klístraður við sjónvarpið þegar kosningakappræður fara fram. Mig grunar að þá yrði KJ ekki fyrir valinu en hver veit?

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí