Nýleg vopnakaup lögreglunnar fyrir um 185 milljónir króna fyrir leiðtogafund Evrópuráðsins í Hörpu fóru fram fyrir luktum dyrum. Samráð voru engin. Ekkert áhættumat um mögulegar hryðjuverkaárásir sem kölluðu á slíkan viðbúnað var lagt fyrir Alþingi til að réttlæta kaupin. Engar upplýsingar um útboðið eða hvernig vopnin voru valin og á hvaða forsendum. Það kom Alþingi greinilega ekki við að ríkið væri að eyða 185 milljónum króna í vopnakaup, hvað þá möguleg vopnvæðing lögreglunnar. Lögreglan var einstaklega sýnileg í kringum fundinn, grá fyrir járnum. Það kom aldrei til tals hvort skynsamlegra hefði verið að hafa vopnaburðinn minna sýnilegan, hvort leigja hefði mátt vopnin eða fá tímabundna aðstoð að utan án þess að fara í stórfelld vopnakaup.
Það má eflaust færa rök fyrir því að einhver harka hafi færst í undirheima Reykjavíkur og lögreglan bendir á að vopnatilkynningar til lögreglu hafi aukist síðustu ár. Það þarf hins vegar að skoða slíka þróun út frá samfélagslegu hliðinni. Aukin glæpatíðni er oft orsök aukins misjafnaðar og fátæktar. Einstaklingar sem upplifa sig á jaðrinum sökum geðrænna vandamála, fátækt eða annarrar útskúfunar eru líklegri til að leiðast út í glæpi eða fremja voðaverk en þá er skynsamlegra að beita forvörnum en að vopnavæða lögregluna. Bestu kerfin eru sambland af samfélagslögreglu (community policing) sem er tengd inn í samfélagið sem bendir á hætturnar áður en þær verða að veruleika. Samfélagslögregla sem vinnur náið með heilbrigðisstarfsfólki ásamt fjárfestingu í lágtekjuhverfum, sér í lagi í ungu fólki er lang áhrifaríkasta leiðin til að draga úr glæpum, ekki vopnvæðing lögreglunnar. Betri landamæragæsla og samhæfing kerfa er líklegri til að koma í veg fyrir blóðsúthellingar og hryðjuverk en vopnvæðing lögreglunnar. Stjórnvöld og lögregla í Nýja Sjálandi neituðu að auka vopnaburð lögreglunnar eftir að einstaklingur framdi fjöldamorð í mosku árið 2019. Ráðist var í umsvifamikla endurskoðun á lögum um skotvopn og hríðskotabyssur voru bannaðar. Þar var almenn niðurstaða að mörg teikn hefði verið á lofti um fyrirhugaðan verknað byssumannsins og að með betri samhæfingu kerfa hefið mátt koma í veg fyrir atvikið.
Í fyrra bárust fréttir af því þegar lögreglumaður fór inn í matvörubúð um hábjartan dag vopnaður byssu. Fólki var brugðið og fann ekki til aukins öryggis, þvert á móti. Einhverjir mótmæltu en svo virðist vera að engin skýr stefna hafi verið tekin um hvernig framtíðar lögreglan á Íslandi lítur út. Hvert viljum við stefna sem samfélag? Margar rannsóknir hafa skoðað hervæðingu lögreglunnar í Bandaríkjunum og ályktað að aukinn vopnaburður lögreglunnar hefur áhrif á hvernig lögreglumenn skynja sitt eigið hlutverk úr því að vera laganna verðir og partur af samfélaginu og yfir í að vera sér hópur sem þarf að vernda sig gegn þegnum samfélagsins. Rannsókn sem var framkvæmd árið 2020 í Bretland leiddi í ljós að vopnvæðing lögreglunnar dró ekki úr alvarlegum glæpum. Niðurstöðurnar voru þær að vopnvæða almenna lögreglu leiddi ekki til þess að samfélög yrðu öruggari. Fleiri dóu hins vegar í átökum við lögreglu. Það kom í ljós að vopnuð lögregla er líklegri til að nálgast aðstæður allt öðru vísi en lögregla sem er óvopnuð. Seinni hópurinn er líklegri til að vinna að lausnum og draga úr spennu á meðan vopnuð lögregla er líklegri til að beita vopnum sínum sem síðan leiðir til enn frekari átaka milli lögreglu og samfélagsins til lengri tíma. Þá voru glæpamenn líklegri til að verða sér út um vopn þar sem almenn lögreglan er vopnuð.
Lögregla sem starfar með fólkinu (Communtiy policing) og er tengd inn í hverfin er mun líklegri til að draga úr ofbeldi og koma í veg fyrir glæpi en lögregla sem svara einungis útköllum.
Í Noregi og Finnlandi er lagt mikið upp úr því að lögreglan starfi með t.d. heilbrigðisstarfsfólki sem getur brugðist við útköllum þar sem um ræðir einstaklinga með geðræn vandamál. Lögreglan í Bretlandi hefur nýlega neitað að sinna slíkum útköllum og fer fram á að ríkið fjárfesti í heilbrigðisstarfsfólki sem er færara til að sinna slíkum útköllum. Þess má geta að 25 prósent þeirra létu lífið í Bandaríkjunum í skotárás lögreglu árið 2015 áttu við geðræn vandamál að stríða. Mér dettur í hug sagan af manni sem átti við geðræn vandamál að stríða en hafði áskotnast vopn og skaut í allar áttir úr íbúðinni sinni. Ef því sem ég best veit var búið að rýma nærliggjandi íbúðir og enginn almennur borgari var í hættu. Engu að síður tók einstakur lögreglumaður þá ákvörðun að fara inn og skjóta manninn til dauða. Að taka líf annarrar manneskju í þessum aðstæðum er skelfilegt. Hér hefði mátt beita öðrum aðferðum með hjálp geðlækna og reyna að róa manninn niður til að láta frá sér vopnið. Maðurinn þurfti ekki að deyja þennan dag.
Frægt dæmi er þegar fólk safnaðist saman á hálfgerði götuhátið í Madison í Winsconsin fylki árið 1969 til að mótmæla Víetnam stríðinu. Lögreglan reyndi að leysa upp mótmælin með valdi og ástandið fór fljótlega úr böndunum. Árin eftir gerði lögreglan sér far um að stöðva mótmælin með tilheyrandi uppnámi og látum. Táragas, handtökur, meiðsl á fólki og versnandi samband lögreglunnar við samfélagið. Árið 1973 kom inn nýr lögreglustjóri sem ákvað að leyfa hinum árlegu mótmælum, sem voru orðin að hálfgerðri götuveislu að fara fram. Lögreglan beinlínis aðstoðaði við að loka götum, beina umferð í aðra átt og leit fyrst og fremst á hlutverk sitt að vernda almenna borgara. Mótmælin fóru friðsamlega fram. Viðleitni lögreglunnar hafði allt um það að segja hvernig mótmælin fóru fram. Traust á lögreglunni jókst til muna og mótmælendur höfðu sjálfir hemil í þeim sem voru líklegir til vandræða.
Það skortir algjörlega heilsteypt samtal í íslensku samfélagi um vopn og öryggi. Ákvarðanir um vopnvæðingu verður að taka á vísindalegum grunni í samstarfi við Alþingi og fólkið í landinu. Aukin tíðini vopnatilkynninga segir ekki alla söguna. Hvers kyns vopn eru í umferð? Hverskonar hópar í íslensku samfélagi eru að vopnvæðast? Þarf að endurskoða byssuleyfi? Hverskonar forvörum er hægt að beita? Það þarf að vega og meta kosti vopnvæðingar á móts við aðrar lausnir. Það er algjörlega óásættanlegt að örfáir einstaklingar taki slíkar ákvarðanir fyrir samfélagið í heild sinni fyrir luktum dyrum og beri fyrir sig þjóðaröryggi.
Helen Ólafsdóttir hefur unnið við uppbyggingu lögreglu á átakasvæðum og er Öryggisráðgjafi hjá Sameinuðu Þjóðunum.