Stéttaskipting og misskipting væru samfélagslegt eitur

Skoðun Sólveig Anna Jónsdóttir 5. nóv 2022

Í gær átti samninganefnd Eflingar fyrsta samningafundinn með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins. Myndin sem hér fylgir er úr Morgunblaðinu í dag, tekin rétt áður en fundurinn hófst.

Við erum ánægð með fundinn. Og stolt af vinnu okkar og vinnubrögðum. Við vitum að samstaða okkar og fjöldi er er það mikilvægasta sem við eigum. Við vinnum lýðræðislega og treystum hvort öðru. Og þannig munum ná þeim árangri sem við einfaldlega þurfum og ætlum að ná.

Fyrirtækjaeigendur njóta arðs meðan grafið er undan kaupmætti vinnuaflsins

Hér geta áhugasamir lesið hluta af því sem að við komum á framfæri á fundinum:

Fyrir hönd samninganefndar Eflingar sagði ég m.a. að nefndin legði í samræmi við einbeittan vilja félagsfólks (sem t.d. má sjá í niðurstöðum kjarakönnunar Eflingar) áherslu á að berjast gegn aukningu stéttaskiptingar og misskiptingar í samfélagi okkar. Að við krefðumst þess að grundvallarmikilvægi vinnuaflsins í verðmætaframleiðslunni fengist viðurkennt. Að afstaða okkar væri sú að það væri fráleitt að halda að verka og láglaunafólk, þau sem með vinnu sinni skapa hagvöxtinn, ættu eða ætluðu að fórna kaupmætti sínum til að létta á verðbólguþrýstingi. Staðan í þjóðfélaginu væri sú að fyrirtækjaeigendur nytu arðs af eignum sínum en það fjaraði undan kaupmætti vinnuaflsins. Ef að vinnuaflið fórnaði sínum hagsmunum og sinni hlutdeild í kaupmættinum þá rynni hagvöxturinn til eigenda fyrirtækjanna en þau sem að með vinnu sinni framleiddu hann væru skilin eftir. Fulltrúar vinnandi fólks í samningaviðræðum við atvinnurekendur gætu ekki og ættu aldrei að taka þátt í slíku.

Engin rök fyrir stuttum samningi

Ég sagði að samninganefnd Eflingar legði áherslu á að félagsfólk Eflingar fengi að upplifa stöðugleika í lífi sínu, gæti gert áætlanir fram í tímann, gæti tryggt afkomu fjölskyldna sinna og átt ánægjulegan og áhyggjulausan frítíma frá vinnu. Væri ekki undirselt grimmilegum kenningum sem drægju upp þá fölsku mynd að kröfur vinnuaflsins um mannsæmandi laun væru orsök verðbólgu og óstöðugleika. Ég sagði að samninganefnd Eflingar vissi að ekki aðeins væri það gott fyrir félagsfólk að samningar næðust þar sem sanngjarnar og réttmætar hækkanir væru tryggðar til vinnuaflsins heldur væri það jafnframt gott fyrir allt samfélagið. Stéttaskipting og misskipting væru samfélagslegt eitur, á meðan að virðing og sanngirni í garð verka og láglaunafólks sköpuðu stöðugleika og gerðu samfélag okkar betra fyrir okkur sjálf og afkomendur okkar.

Ég sagði að við sæjum engin rök fyrir því að gera stuttan samning. Við legðum áherslu á að félagsfólk gæti gert áætlanir fram í tímann og væri ekki undirselt dyntum efnahagslegrar valdastéttar. Að verka og láglaunafólk hafi borið þyngstu byrðarnar í heimsfaraldrinum, og það væri fáránlegt að láta sem að nú væri tækifæri fyrir auðstéttina til að valda meiri óstöðugleika í lífi vinnuaflsins. Þvert á móti væri nú tækifæri til að tryggja að þau sem með vinnuframlagi sínu snéru hjólum atvinnulífsins fengju það staðfest að skilningur ríkti á því að þau væru bókstaflega ómissandi fólk fyrir alla verðmætaframleiðslu þjóðfélagsins.

Launaþjófnaður er grafalvarlegt mál

Ég sagði að samninganefnd Eflingar gerði kröfu um að það gríðarmikla álag sem að félagar okkar búa við á vinnustöðum sínum væri metið til launa. Ég rakti hvers vegna við gerum kröfu um 30 daga orlof, og ræddi að samninganefnd Eflingar gerði kröfu um að loks yrði ráðist í aðgerðir vegna kjarasamningsbrota og launaþjófnaðar. Að Eflingar-félagar myndu ekki sætta sig að enn yrði tafið og afvegaleitt í þessum grafalvarlega málaflokki. Að við krefðumst sektarákvæða svo að hægt yrði að ráðist af fullri alvöru í að uppræta þá skömm að vissir hópar á vinnumarkaði væru ávallt í hættu á því að verða fórnarlömb launaþjófnaðar.

Ég sagði að samninganefnd Eflingar vildi ræða ýmis mál, m.a. þá möguleika sem til staðar eru á styttingu vinnuvikunnar án þess að Eflingar-fólk greiði fyrir hana í auknu álagi og undimönnun, og að Eflingar-fólki ætti ekki að upplifa mismunun vegna uppruna eða tungumálakunnáttu.

Mesti hagvöxtur síðan 2007

Ég rakti á hverju afstaða samninganefndar byggði og hverjar forsendur okkar væru:

Hagvöxtur væri góður á árinu, sá mesti síðan 2007, metár væri í arðgreiðslum og viðskiptalífið stæði mjög vel. Að fólk ofar í stigveldinu en Eflingarfélagar lifði eins og blóm í eggi, meðan að fjárhagsáhyggjur væru hlutskipti Eflingar-félaga. Að staðreyndin væri að vöntun væri á vinnuafli og að Eflingar-fólk skyldi að það gerði stöðu okkur enn sterkari. Vinnuafl okkar væri eftirsótt.

Ég sagði að í kjarakönnun Eflingar hefði komið fram mjög skýr vilji félagsfólks um að launahækkanir ættu að vera aðaláhersla í samningaviðræðum félagsins. Og að kjarakönnun félagsins sýndi einnig að vilji félagsfólks væri að leggja ætti áherslu á að hækka lægstu laun. Að hátt í 75% þeirra sem svöruðu segðu að leggja ætti áherslu á að jafna tekjur í samfélaginu. Ég sagði að samninganefnd Eflingar vissi að til þess væru krónutöluhækkanir mjög gagnlegar.

Stór hluti félagsfólk lifir í skugga fjárhagsáhyggna

Ég sagði frá því að stór hópur félagsfólks lifði undir skugga fjárhagsáhyggna þrátt fyrir að strita hér fyrir hagvöxtinn sem ómissandi vinnuafl. Ég sagði að samninganefnd hefði kynnt sér niðurstöður kjarakönnunar Eflingar. Að kröfugerðin byggði á þeim, sem og lifaðri reynslu félaga í samninganefnd og þeim skilaboðum sem að þau tækju með sér af sínum vinnustöðum. Og að jafnframt hefði samninganefnd kynnt sér þær efnahagslegu aðstæður sem ríktu í samfélaginu. Að það væri einróma afstaða samninganefndar að leið krónutöluhækkana væri sú besta og skynsamlegasta; krónutöluhækkun væri ekki aðeins réttlátasta nálgunin í kjarasamningum heldur hefði hún góð efnahagsleg áhrif þar sem að hún ynni gegn launaskriði hjá tekjuhærri hópum.

Ég sagði að kröfugerð okkar byggði á vilja félagsfólks. Einnig hagvaxtarspám og verðbólguvæntingum. Að kröfugerð okkar byggði á vitneskjunni um að vinnuafl Eflingar-fólks væri bókstaflega ómissandi í samfélaginu. Hún væri raunsæ og skynsöm, unnin og lögð fram af fólki sem vissi hversu mikils virði það er. Og ég sagði að grundvallar mikilvægi okkar í verðmætaframleiðslunni væri á endanum grundvöllur kröfugerðar okkar. Við ættum einfaldlega heimtingu á okkar skerf í hagvextinum.

Afstaða Eflingar er skynsöm og réttmæt

Ég sagði að samninganefnd Eflingar skoraði á Samtök atvinnulífsins að viðurkenna að afstaða okkar, m.a. byggð á reynslu Lífskjarasamninganna, væri skynsöm og réttmæt. Við skoruðum á þau að eyða ekki tíma í að berjast gegn einföldum og eðlilegum kröfum þeirra sem að gerðu þeim kleift að reka fyrirtækin og lifa í vellystingum. Við skoruðum á þau að ganga hratt og örugglega til samninga við okkur. Að það væri einfaldlega skylda þeirra að sýna okkur virðingu, bæði í framkomu og orðræðu, en auðvitað fyrst og fremst með því að greiða Eflingar-félögum mannsæmandi laun fyrir unnar vinna, samfélaginu öllu til hagsbóta.

Pistill er af Facebook-síðu höfundar, sem er formaður Eflingar. Fyrirsögn og millifyrirsagnir eru Samstöðvarinnar.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí