Bæði breska og bandaríska sendiráðið hafa beðið landa sína um að vera árvökulir á ferð í miðbænum í Reykjavík um helgina í kjölfar hnífaárásar á Bankastræti club. Þá hafa starfsmannafélög ákveðið að fresta jólaglöggi starfsmanna sem átti að fara fram í miðbænum um helgina vegna óvissu tengdri átökunum en hótanir um áframhaldandi átök hafa gengið milli fólks á samfélagsmiðlum.
Átökin sem hófust í Bankastræti Club á aðfaranótt föstudags í síðustu viku hafa haldið áfram með bensínsprengjum sem kastað hefur verið í hús og rúðubrotum og var nýjasta dæmið þegar reyksprengju var kastað inn um rúðu á húsi sem hýsir staðina The Dubliners og Paloma Club. Þrír hafa verið handteknir vegna þess. Í dag var tuttugu og fjórum sleppt úr haldi lögreglunnar í tengslum við árásina í Bankastræti club en 30 manns eru með réttarstöðu sakbornings í málinu og sex í haldi lögreglu.
Um ellefu í fyrrakvöld var framin önnur stunguárás í Grafarvogi þar sem fimmtán ára piltur stakk jafnaldra sinn en vitni sá þrjá pilta hlaupa af vettvangi og birti ljósmynd af atburðinum á Instagram síðu sinni. Fórnarlambið var flutt á sjúkrahús og er ekki í lífshættu en samkvæmt Margeiri Sveinssyni aðstoðaryfirlögreglustjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er málið ekki tengt árásinni á Bankastræti Club né vendingum í framhaldi hennar. Enginn hefur heldur beðið fólk um að forðast Grafarvoginn eða vera sérstaklega á varðbergi þar.
Stóraukinn viðbúnaður lögreglu verður þó viðhafður í miðbænum um helgina og alveg þar til þurfa þykir. Telur lögreglan þó ólíklegt að skilaboðum um yfirvofandi hefndarárásir í miðborginni beri að taka of alvarlega. „Eftir því sem við höfum komist næst þá stóð til, og jafnvel stendur til, að vera með einhverja óknytti og reyna að raska einhverjum viðskiptum á ákveðnum veitingastöðum í miðborginni,“ sagði Ásgeir Þór Ásgeirsson aðstoðarlögreglustjóri í Morgunútvarpinu á Rás 2 en hann segir lögregluna verða viðbúna ef til kastanna kemur. Orðsendingin um að hátt í 500 vopnaðir einstaklingar komi með rútum í bæinn til þess að stinga fólk af handahófi telur hann hafa verið lélegt grín.
Ásgeir segir að lögreglan verði sýnileg svo um muni í miðborginni og verði einnig búinn auknum tækjakosti þó hann vilji ekki fara nánar út í að lýsa honum. Hann segist svo vona að það ágæta fólk sem hefur staðið í þessum átökum sjái að sér og verði ekki að draga átökin í miðbæinn.