Vilhjálmur Árnason prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands sagði að vinna ætti fyrir opnum tjöldum og ekki vera með leynimakk gagnvart almenningi sem þyldi ekki dagsins ljós þegar hann fjallaði um siðferði, traust og fagmennsku í tengslum við vinnumarkaðinn á trúnaðarmannaráðsfundi Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu sem haldinn var á dögunum.
Vilhjálmur hóf mál sitt á að skýra frá hugtökum um siðferði. Hann sagði að traust og fagmennska væru samofin siðferði og væru mikið notuð, en ekki alltaf með gagnlegum hætti vegna takmarkaðs skilning á hugtökunum sjálfum. Hann sagði að heimspekin gengi út á að útskýra þessi hugtök sem notuð eru svo hægt sé að nýta þau okkar á milli með markvissari hætti í hugsun og samtölum.
Innviðir siðferðisins
„Þessi hugtök eru mikilvæg í okkar samtíma, þau eru líklega vanmetin og þess vegna er mikilvægt að ræða þau og þýðingu þeirra. Traust. Það er oft talað um traust í okkar samfélagi, nema oftar er talað um vantraust sem leiðir hugann að því hvernig við byggjum upp traust. Traust og trúnaður eru nátengd hugtök og þá komum við að siðferði. Við erum oft feimin að ræða siðferði en þetta er hversdagslegt fyrirbæri og kemur við sögu í öllu okkar lífi. Við kennum börnunum okkar muninn á réttu og röngu, og því þarf maður ekki að læra siðfræði til að skilja siðferði, ekki frekar en fólk þurfi að læra málfræði til að gera mælt, eða kunna veðurfræði til að umgangast veðrið. Siðferði er eðlislægt hugtak og lært.“
Vilhjálmur sagði að siðferði væri manninum þekkt vegna þess að hann kynnist því á eigin skinni, oft í gegnum sára reynslu og uppgjöf. Greindi hann hugtakið út frá nokkru sem hann kallar innviði siðferðisins.
„Innviði siðferðisins má flokka í nokkra þætti eins og verðmæti, mannkosti eða dyggðir, skyldur og réttindi, og samvisku og réttlætiskennd. Þetta eru uppistöður í vef siðferðisins. Fyrst að verðmætum eða gildum. Öll höfum við gildismat og leggjum upp úr einhverjum verðmætum í lífinu. Ég held að verðmætin séu undirstöðuatriði í því sem okkur finnst skipta máli, hvað er það sem er verðmætt? Þetta gleymist stundum í hagvaxtarsamfélaginu þar sem einblínt er á hin efnislegu gæði – þau eru auðvitað verðmæti eða gæði líka – en þau eru hin ytri gæði. Páll Skúlason heitinn, prófessor í heimspeki, var með skemmtilega þrígreiningu á verðmætum; efnisleg gæði, menningarleg gæði og siðferðileg gæði. Barátta fyrir betri kjörum, að hafa í sig og á, eru gott dæmi um efnisleg gæði. Menningarleg gæði stuðla að þroska og hæfileika í gegnum lestur, leiki, listir og að njóta menningar í víðum skilningi. Svo eru siðferðileg gæði sem verða til á milli okkar í samskiptum sem við venjulega leggjum mikið upp úr. Við viljum hafa sjálfræði og frelsi, viljum stuðla að velferð okkar sjálfra, okkar nánustu og samfélagsins alls og það er réttlætismál sem leggur þannig grundvöllinn að trausti og trúnaði.“
Sýndargæði og raungæði
„Gæði eru ekki gefin nema þau séu ræktuð í samskiptum og áfram í samfélaginu öllu,“ sagði Vilhjálmur. Hann sagði að athyglisvert væri að skoða það sem fólk sæktist eftir í lífinu.
„Við tölum oft um lífsgæðakapphlaupið þar sem við erum að sækjast eftir gæðum en um leið notum við hugtakið í kaldhæðnum skilningi; það sem er eftirsótt gæði, sé ekki endilega eftirsóknarvert. Við lærum það af lífsreynslunni hvað það er sem raunverulega er eftirsóknarvert – hvað eru gæði og hvað eru ekki gæði, raungæði og sýndargæði getum við kallað það. Hver og einn getur farið í gegnum sína lífssögu og einfaldlega fundið það, oft í gegnum sára reynslu reyndar. Fólk gefst upp með ýmsum hætti og það getur einmitt verið gagnlegt að gefast upp. Þá finnur fólk oft nýjan stað til að standa á og traustari gildi en það byggði áður á. Það finnur ný gildi til að lifa eftir. Sýndargæði eru það sem okkur virðist að skipti máli, en reynast ekki vera það þegar á hólminn er komið. Raungæði eru þau gæði sem við finnum þegar upp er staðið og skipta okkur mestu máli. Það er stundum togstreita innra með okkur þegar við vitum að við erum að eyða meiri tíma í sýndargæði en raungæði – við finnum það og hugsum t.d. „Ég vildi að ég gæfi mér meiri tíma í að verja meiri tíma í það sem skiptir mestu máli,“ við þekkjum þetta öll.“
Vilhjálmur nefndi dæmi um könnun þar sem spurt var um traust. Hann sagði að svarendur hefðu allir sagt að heiðarleiki væri það sem skipti mestu máli til að skapa traust.
„Þegar einhver er heiðarlegur felur það í sér að við getum treyst viðkomandi, hann er áreiðanlegur, yfirleitt réttsýnn og líklega hugrakkur. Hugrekki tengist ekki endilega því að standa á vígvellinum. Hugrekki er ákaflega hversdagsleg dyggð sem felst í að standa með sjálfum sér á stund ótta, freistingar eða þrýstings, og hópþrýstings. Að geta verið heiðarlegur og hreinskilinn í öllum aðstæðum og segja hug sinn þegar á reynir. Það er að vera hugrakkur.
Að mínu mati er oft byrjað að tala of snemma um siðareglur þegar talað er um siðferði. Oft er hrokkið í siðareglur þegar talað er um siðferði. Reglur skipta máli vegna þess að þær standa vörð um verðmæti en hafa ekkert sjálfstætt gildi. Þær eru settar til að auðvelda okkur að umgangast þessi verðmæti og eru t.d. þær reglur sem við kennum börnunum okkar og skiptast m.ö.o. í boð og bönn, það sem við eigum ekki að gera og snúast um að brjóta ekki gegn ákveðnum grundvallarverðmætum. Um þetta gildir hugtakið taumhaldsskyldur, að hafa ákveðinn hemil á sjálfum sér í sókn eftir verðmætum og geri ekki eitthvað rangt sem skaðar sjálfan sig, aðra og umhverfið. Hægt er að komast í gegnum lífið með lágmarkssiðferði eins og láta það ógert að meiða fólk, ljúga að því eða svíkja það og þar fram eftir götum. En yfirleitt gerir fólk siðferðiskröfur umfram þetta, þ.e.a.s. kærleika, umhyggju fyrir nauðstöddum, stuðla að velferð annarra. Í þessu sambandi eru það sem ég kalla verknaðarskyldur, þar sem fólk leggur eitthvað af mörkum í lífsins straum umfram það að gera öðrum ekkert rangt eins og ég nefndi, heldur að láta gott af sér leiða.“
Siðferðisleg réttindi og skyldur
Vilhjálmur benti á að í fjölskyldum er svokallaður kærleiksvettvangur, hlutverk foreldra að sinna börnum sínum t.d. og gagnkvæmar skyldur fjölskyldunnar um umhyggju og vernd, en á vinnustaðnum gilda aðrar reglur um réttindi og skyldur. Um er að ræða réttindi starfsmannsins gagnvart vinnuveitandanum, samstarfsfólki og eru réttindi starfsfólks oftast í samspili við skyldur þess.
„Skyldur mínar sem kennari kallast á við skyldur við nemendur eins og skyldur læknisins kallast á við skyldur sjúklingsins og skyldur ykkar, trúnaðarmanna, kalla á við skyldur launafólks o.s.frv. Þetta er samspil skyldna og réttinda og þarna koma einmitt við sögu svokallaðar skráðar siðareglur. Þær eru skrifaðar niður skipulega, í hverju skyldur og ábyrgð starfa eru fólgin eins og trúnaðarskylda og þagnarskylda. Fólk les þessar skyldur áður en það ræður sig í störf. Réttindahugtakið er hins vegar ráðandi þegar við verðum borgarar en jafnframt er um borgarlegar skyldur að ræða en pólitískur ágreiningur er um það hversu sterkar borgaralegar skyldur við höfum. Jafnvel óháð þessu, þó maður eigi enga fjölskyldu, ekkert starf og án vegabréfs, þá höfum við mannréttindi,“ sagði Vilhjálmur og vísaði í fréttir af brottflutningi innflytjenda af landinu.
Hvernig manneskja er best að vera
Vilhjálmur fjallaði um tvíþætt siðferði sem hann nefnir innra siðferði og varðar þroska og hamingju og viðhorf til lífsins sem vekur upp þá spurningu hvernig lífi sé best að lifa – ekki lítil spurning en Vilhjálmur hélt áfram:
„Þetta er það sem við lærum í gegnum lífið, að þroska gildismatið, reka okkur á og læra af reynslunni. Maður spyr sig hvernig manneskja er best að vera og þá má segja að dyggðirnar séu þar í lykilhlutverki. Þá er ytra siðferðið eða leikreglur sem koma skikki á mannleg samskipti, standa vörð um verðmæti og samfélagið allt. Þetta ytra siðferði hverfist um það hvernig samfélag við viljum halda í heiðri og hvernig við tökum þátt í að stuðla að því. Siðferði er þannig tvíþætt og spannar þannig okkar innra líf og ytra líf, það félagslega. Ég skrifaði um þetta bók sem ber heitið Farsælt líf, réttlátt samfélag og fjallar um þetta tvennt; farsælt líf einstaklingsins og fjölskyldunnar og svo þetta réttláta sameiginlega þjóðfélag sem við erum að reyna að byggja upp og er stöðugt verkefni – alveg eins og það er stöðugt verkefni að verða skárri manneskja.“
Þá sagði hann að ef maður lenti í siðferðisvanda væri gott að spyrja sjálfan sig nokkurra spurninga.
1. Samrýmist það lögum og reglum?
2. Samrýmist það gildum okkar?
3. Ógnar það trúverðugleika okkar?
4. Borgar það sig?
5. Er það siðferðilega rétt?
Um fagmennsku á vinnumarkaði
Það er mikilvægt að huga að því hvernig byggð eru upp traust og fagmennska á vinnumarkaði.
„Allir þurfa að spyrja sig þegar þeir rekast á siðferðisspurningar hvort þær samræmist gildismati okkar. Heiðarleiki mun ávallt borga sig í samskiptum og ábyrgð, bæði gagnvart náunganum og sjálfum sér, jafnvel þó einstaklingur telji sig græða tímabundið á óheilindum – en það er augljóst að það borgar sig ekki. Traust og heiðarleiki er það samfélagslega fyrirbæri sem er nátengt almenningsáliti og er hægt að mæla, t.d. traust til stofnana, stjórnmála og stjórnmálafólks. Meginþátturinn í siðfræði er að vera opinskár, koma fram með sínar óskir í stað þess að koma fram með leyndar hvatir í einhverri hernaðarlist sem maður er að spila, heldur að koma og leggja hlutina á borðið í fyllstu heilindum sem er lykilatriði í traustinu,“ sagði Vilhjálmur og talaði um dalandi traust almennings á ráðherrum í ríkisstjórninni vegna framgöngu þeirra í sínum störfum, eins og t.d. bankasöluna sem allir þekkja og hafa skoðun á.
Vilhjálmur sagði að siðferðilegt traust tengdist trúverðugleika og væri dyggð. Þá sagði hann að þótt hægt væri að mæla traust almennings á t.d. stofnunum eða stjórnmálafólki benti það ekki endilega til þess hvort viðkomandi væri trúverðugur. Um slíkar mælingar gilti að þær gætu verið óverðskuldaðar eða sýnt svokallað blint traust. Fyrir hrun var traust til stofnana ríkisins og fjármálastofnana mjög mikið, en eftir hrun mjög lítið. Var það traust óverðskuldað, eða var það blint?
„Traust er siðferðileg verðmæti sem hægt er að rækta og veltur á dyggðum. Traust skapast þegar góðar ástæður liggja til grundvallar, þegar manneskja er áreiðanleg, heiðarleg, hugrökk, stendur við það sem hún telur rétt. Trúverðugleiki getur eflst án þess að trúverðugleiki standi að baki. Því er trúverðugleiki það sem skiptir máli til að mynda traust, til að treysta fólki eða stofnunum. Þegar einhver innistæða er fyrir trausti verður til trúverðugleiki. Í tilviki stofnana og vinnustaða sem vilja byggja traust gildir gagnsæi.“
Að lokum sagði Vilhjálmur að vinna ætti fyrir opnum tjöldum og ekki vera með leynimakk gagnvart almenningi sem þyldi ekki dagsins ljós. Gagnsæi er gríðarlega mikilvægt í lýðræðissamfélagi til þess að borgararnir geti lagt mat á störf kjörinna fulltrúa eða embættismanna. Fagmennska í atvinnulífinu felst í hvernig unnið er. Í tilviki stofnana ríkisins er það hvernig stofnanirnar eru mannaðar, hvernig unnið er innan þeirra af heilindum, alúð og samviskusemi. Fagmennska er orð sem almenningur þekkir en að mati Vilhjálms er það oft notað of þröngt og byggir líka stundum á misskilningi, því um fagmennsku gilda meginþættir sem fela í sér fræðilega, verklega og tæknilega þekkingu, góða samskiptahæfni og svo, það sem siðfræðin hefur alltaf mestan áhuga á, siðferðilega dómgreind sem varðar í hvaða skyni þekking og færni eru notuð – að hún sé notuð uppbyggilega.
Varðandi fagmennsku sagði Vilhjálmur þetta: Réttnefndur fagmaður veitir viðnám þeim öflum, oft efnahagslegum og pólitískum, sem ganga gegn meginmarkmiðum starfsins.
Frétt af vef Sameykis.