Rakaskemmdir eru neytendamál

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir líffræðingur hjá EFLU verkfræðistofu er einn helsti sérfræðingur landsins í myglu og rakaskemmdum. Samstöðin fékk Sylgju í viðtal til að ræða myglufaraldurinn sem við stöndum frammi fyrir í dag og velta upp spurningum um hvers vegna sú staða sé uppi og hvað megi betur fara í samfélaginu. Hún gagnrýnir að Rannsóknarstofa Byggingariðnaðarins hafi verið lögð niður fyrir ári og að allt of lítið fé sé sett í rannsóknir á byggingarefnum og aðferðum í byggingariðnaðinum.

Sylgja sat í pallborði á ráðstefnu um rakaskemmdir og myglu í Háskólanum í Reykjavík á dögunum sem bar undirtitilinn „ Byggingargallar og „fúsk” í nýjum byggingum” en hún er einnig í fagráði Landlæknisembættisins um mygluveikindi.

Hún hefur persónulega reynslu af myglumálum því árið 2006 bjó fjölskyldan í húsi með rakaskemmdum og missti heilsuna. Þá höfðu þau engan að leita til svo líffræðingurinn lagðist í lestur og rannsóknir svo henni tækist að koma fjölskyldunni til heilsu og finna út hvers vegna þetta væri að gerast. Sylgja stofnaði fyrsta fyrirtækið í þessum geira á Íslandi í kjölfarið „Hús og heilsa” sem mældi myglu í húsum og var fólki til ráðgjafar. Hún taldi vandamálið vera fremur sjaldgæft á Íslandi en annað koma á daginn því fljótlega var orðið afar mikið að gera og fyrirtækið sameinaðist á endanum EFLU verkfræðistofu. EFLA sinnir ráðgjöf á öllum stigum byggingaferlisins og eru byggingaraðilar æ oftar að leita ráðgjafar með teikningar og smíðar og þá jafnvel áður en bygging er komin á teikniborðið. Veðurfar á Íslandi er sá áhættuþáttur sem hvað mest hefur áhrif á og getur stuðlað að rakaskemmdum í byggingum. „Það er áskorun á Íslandi að byggja þurrt” segir Sylgja.

Það er ekki vitað með vissu hvað mygla og rakaskemmdir kosta samfélagið á ári en Sylgja segir að Ólafur H. Wallewik fyrrum forstöðumaður Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins við Nýsköpunarmiðstöðina sálugu hafi skotið á að kostnaður með öllum afleiddum kostnaði sé um 10 milljarðar á ári. Við erum þó langt frá því að vita það með vissu.

„Við erum alltaf að fá nýtt byggingarefni og nýjar aðferðir og við þurfum að heimfæra þær á Íslenskar aðstæður og þá vantar okkur hlutlausan aðila til að láta reyna á hvað hentar best segir Sylgja. Þess vegna leggur hún einnig áherslu á þörfina fyrir stofnun eins og Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins sem var lögð niður fyrir ári síðan. Við séum með mjög stóran iðnað svo þetta er mjög stórt samfélagslegt mál. „Ég myndi telja að Þrýstihópur til að krefjast þess að slík stofnun yrði opnuð aftur ætti að vera „fólk sem býr í húsum” segir Sylgja. „Almenningur þarf að vera þrýstihópur því þetta er stórt og mikið hagsmunamál eða neytendamál að hluta til. Þá þarf að vera einhver stofnun sem fylgir þessu eftir og veitir upplýsingar og leiðsögn”.

Sylgja segir að Þegar Nýsköpunarmiðstöð var lokað ásamt Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins var stofnaður sjóður sem heitir Askur en sá sjóður hefur aðeins yfir að ráða 95 milljónum sem duga skammt. Hvað varðar heilsufarsþáttinn þá segir hún við heldur ekki hafa skýr viðmið né línur frá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni um hvenær rakaskemmdir séu áhættuþáttur í heilsu.

Ríkharður Kristjánsson hefur þá gagnrýnt dómskerfið fyrir að skipa matsmenn sem eru oft á tíðum einnig hönnuðir sjálfir svo það er illa hægt að treysta því að matsmenn séu algjörlega óhlutdragir. Sylgja segir að neytendavitundin þurfi að verða sterkari þegar við kaupum hús en almenningur er illa tryggður fyrir leyndum göllum og erfitt sé að rekja byggingarverktaka til þess að reyna að fylgja eftir byggingarsögu ákveðinna aðila þar sem menn skipta mjög gjarnan um kennitölur. Best sé að fylgja verktaka sem hefur ekki skipt um kennitölu til margra ára enda sýni það að hann standi með verkum sínum. „Það þarf að skapa hvata í kerfið svo menn hafi metnað til að byggja vel” segir hún.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí