Dagbladet í Noregi birti í gær upptökuna af stuldi Bjørnar Moxnes, leiðtoga vinstri sósíalistaflokksins Rødt, á sólgleraugum úr búð á alþjóðaflugvellinum í Osló, Gardermoen. Atvikið átti sér stað fyrr í júní mánuði, en var upplýst í fjölmiðlum í síðustu viku.
Myndbandið má sjá hér að neðan. Eins og sjá má þá koma útskýringar Moxnes sjálfs, sem hann skýrði frá í viðtali við VG um helgina, ekki alveg heim og saman við staðreyndir málsins. En af myndbandinu að dæma virðist augljóst að um einbeittan brotavilja hafi verið að ræða.
Eins og áður hefur verið greint frá, þá er þetta hið vandræðalegasta mál fyrir Rødt, en mikið hefur verið rætt um málið í norskum fjölmiðlum. Margir hafa velt fyrir sér hvað manninum gangi eiginlega til, en ætla má að þingmaður í Noregi hafi nægar tekjur til að þurfa ekki að stela sólgleraugum.
En sjón er söguríkari. Moxnes hefur tekið sér veikindaleyfi frá störfum sem þingmaður.