Þær hitabylgjur, gróðureldar og flóð sem hafa dunið yfir nýverið eru aðeins „toppurinn á ísjakanum“ í samanburði við það sem vænta má. Þær „brjáluðu“ veðuröfgar sem hafa geisað um heiminn þetta ár verða venjulegt árferði innan áratugs ef ekki er gripið inn í til að hemja loftslagsbreytingar. Þetta segja fremstu loftslagsvísindamenn heims, samkvæmt frétt The Guardian sem leitaði umsagnar 40 vísindamanna víðsvegar að úr heiminum.
Þau sögðu að hlýnun á heimsvísu væri í fullu samræmi við viðvaranir undanliðinna áratuga, og gengi í ár lengra en ella sökum veðurfyrirbærisins El Niño. Fólk og staðir reyndust hins vegar berskjaldaðri fyrir veðuröfgum en búist var við.
„Tjón af völdum loftslagsbreytinga hefur ekki verið vanmetið yfir heiminn litið. En áhrifin hafa verið vanmetin vegna þess að við erum miklu berskjaldaðri en við héldum – berskjöldun okkar er að slá okkur utan undir,“ sagði Dr Christophe Cassou, sem gegnir rannsóknarstöðu við Toulouse III háskólann í Frakklandi.
„Júlí var heitasti mánuður mannkynssögunnar og fólk um allan heim líður fyrir afleiðingarnar,“ sagði Piers Forster, prófessor við Háskólann í Leeds, Bretlandi. „En þetta er það sem við búumst við, miðað við þessa hlýnun. Innan tíu ára verður meðalsumarið á þennan veg, nema þá að heimurinn vinni saman að því að setja loftslagsaðgerðir efst á dagskrá.“
Krishna AchutaRao, prófessor við Indian Institute of Technology, sagði það vekja ugg að áhrifin væru meiri en hann og aðrir loftslagsvísindamenn sem hann þekkti hefði búist við.
Enn ekki komið að veltipunkti
Almennt er litið svo á að ákveðnir viðburðir í þróun loftslagsbreytinga geti reynst veltipunktar (tipping point) það er, hraðað svo ferlinu að ekki verði lengur hægt að hemja það. Vísindamennirnir sem The Guardian ræddi við reyndust á einu máli um að heimurinn hefði enn ekki farið yfir veltipunkt þannig að breytingarnar verði óstjórnlegar. Dr. Rein Haarsma við hollensku veðurfræðistofnunina sagði hins vegar að slíkir veltipunktar færðust nær: „Öfgarnar sem við sjáum nú þegar eiga sér stað gætu leitt fram veltipunkta á við hrun veltihringrásarinnar í Atlantshafi (AMOC-kerfisins) eða bráðnun ísbreiða á Suðurskautslandinu, sem myndu hafa hrikaleg áhrif.“
Þannig stendur eftir, hefur blaðið eftir vísindamönnunum, „örlítil glufa“ til að forðast verstu áhrif loftslagskrísunnar. Langflestir þeirra sögðu eina aðgerð krítíska í því samhengi: að draga brennslu jarðefnaeldsneytis niður í núll.
Losun kolefnis í andrúmsloftið hefur haldið áfram að aukast á síðustu árum en þarf að að minnka um 43%, samkvæmt viðmiðum Sameinuðu þjóðanna, sé ætlunin að halda hitnun jarðar undir 1,5°C.