Ráðherra kynnir sátt um sjávarútveg án breytinga á kvótakerfinu

Umhverfisvernd og gagnsæi voru fyrstu tvö áhersluatriðin í kynningu Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra á niðurstöðum verkefnisins „Auðlindin okkar“ sem kynntar voru um hádegisbil í dag, þriðjudag. Þá nefndi ráðherrann hækkun veiðigjalda, tilraun með uppboð aflaheimilda og afnám byggðakvóta, auk þess sem hún sagði það sannfæringu sína að lögfesta þyrfti ákvæði um auðlindir í stjórnarskrá, en það væri þó ekki á hennar verksviði. Ekki virðist svo vera sem ráðherrann hafi ákveðið að skera upp herör gegn ríkjandi kerfi í sjávarútvegi. Lykilorðið í ræðu hennar var „sátt“, sem hún sagði mikilvæga fyrir almenning, stjórnvöld og atvinnuveginn sjálfan.

Sú óhefðbundna leið að kalla breiðan hóp til samráðs

Í kynningu ráðuneytisins á viðburðinum má lesa að í lok maí 2022 hafi matvælaráðherra skipað „fjóra starfshópa til að greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum ásamt því að meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins.“ Skýrslan sem kynnt var í dag er niðurstaða vinnu þessara hópa.

Það þarf þó engar skýrslur til þess að vera ljóst að sjávarútvegur er algjör lykil-atvinnugrein á Íslandi, sagði Svandís við upphaf ræðu sinnar. Ákveðið var í upphafi, sagði hún, að verkefnið Auðlindin okkar skyldi ekki unnið með hefðbundinni nálgun, það er að „tveir lögfræðingar væru settir í það verkefni að semja nýtt frumvarp til laga um sjávarútveg“, heldur skyldi kallaður til breiður hópur sérfræðinga, annars vegar, en hins vegar hagsmunaaðila, með ýmsa sýn og ólíka nálgun, á viðfangsefnið.

Um leið var gerð stærsta skoðanakönnun sem gerð hefur verið um árabil um afstöðu þjóðarinnar til sjávarútvegs, sagði ráðherrann. Þá voru haldnir fundir um allt land, sendir út í streymi, og búinn til vefurinn audlindinokkar.is, „staður fyrir öll gögn, allar upplýsingar, allar skýrslur, allar fyrirspurnir, tillögur og svo framvegis“ sem tilheyra málaflokknum. Þetta var grunnurinn, sagði Svandís, og hugsunin hefði verið sú að með því að hafa verkefnið eins breitt og gagnsætt og hægt væri, væri sá tónn sleginn að stjórnvöldum væri full alvara í að „freista þess að ná meiri sátt“ um sjávarútveg.

„Sátt er ekki áfangastaður, sátt er ekki niðurstaða“

„Sátt,“ bætti ráðherrann við „er ekki áfangastaður. Sátt er ekki niðurstaða. Sátt verður ekki náð og þar með er málið búið. Sátt er vegferð. Sátt er aðferð. Sátt er einhvers konar nálgun. Og það held ég að ég megi segja, hvort sem um er að ræða samráðshópinn, nefndirnar, eða aðra sem komið hafa að þessu, að fólk hafi nálgast þetta verkefni af miklum heilindum.“

Svandís sagði að þrátt fyrir mikilvægi sjávarútvegs fyrir hagsæld landsins, hefði til þessa ekki verið til opinber stefna um greinina. „Þau vandamál sem víða er glímt við, eins og offjárfestingu í veiðum og vinnslu, ofnýtingu stofna og svo framvegis“ eru ekki vandamál á Íslandi, sagði Svandís, hér er tekist á um aðra hluti, og vísaði þar til væntanlega þeirra deilna sem staðið hafa frá 9. áratugnum um innleiðingu og afleiðingar kvótakerfisins.

„Það er óásættanlegt,“ sagði Svandís, „að einungis minnihluti þjóðarinnar telji sjávarútveg heiðarlegan, eins og fram kemur í skoðanakönnun. Við verðum að skapa skilyrði fyrir trausti, svo sátt geti aukist.“

Ráðherrann benti á að „enginn ráðherra eða stjórnmálamaður yfirhöfuð getur mælt fyrir frumvarpi um sátt í sjávarútvegi, það frumvarp er ekki til. Við getum ekki sett lög um það að hér eftir sé skylda að það ríki sátt í sjávarútvegi. En við getum skapað þessi skilyrði, sem sjávarútvegurinn sjálfur verður að nýta.“

„Nú erum við komin í þau þáttaskil að verkhluti sérfræðinga og hópanna, honum er lokið, og við tekur vinna löggjafans,“ sagði Svandís áður en hún kynnti áform ráðuneytisins um nýja löggjöf.

Tímaáætlun verkefnisins „Auðlindin okkar“, frá Matvælaráðuneytinu.

Umhverfisvernd, gagnsæi og veiðigjöld

Í fyrsta lagi verða umhverfisáherslur í algjörum forgangi, sagði ráðherrann þá. „Við viljum að íslenskur sjávarútvegur sé í forystu í heiminum hvað varðar umhverfismál,“ og að „grundvöllur ákvarðana séu alltaf bestu mögulegu vísindi og upplýsingar“. Í sjávarútvegi verður til allt að fimmtungur þeirrar losunar koltvísýrings sem eru á ábyrgð stjórnvalda, nefndi Svandís til dæmis, og sagðist vilja að boltinn fari að rúlla hraðar í átt að orkuskiptum í sjávarútvegi. Þá ræddi hún um vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni.

Í öðru lagi sagðist hún myndu setja gagnsæi á oddinn, og leggja til við þingið í vetur „að stórbæta gagnsæi í sjávarútvegi í vetur, þannig að það sé alveg ljóst hvaða aðilar fara með yfirráð.“ Mikilvægt sé að færa viðskipti með aflaheimildir upp á yfirborðið með „skráningu í opinberan og lifandi gagnagrunn“. Þannig megi skapa skilyrði fyrir meira trausti og aðhaldi í sjávarútvegi. Sjávarútvegurinn er betri, sagði hún, eftir því sem hann er gagnsærri.

Í þriðja lagi mun hún leggja það til um veiðigjöld að þau verði „hækkuð í samræmi við fjármálaáætlun, þannig að almenningur fái sýnilegri hlutdeild í afkomu af nýtingu sameiginlegra auðlinda.“ Útfærslan á þessu sagði hún að liggi ekki fyrir en muni liggja fyrir við gerð fjárlagafrumvarps – „vonandi“ bætti hún loks við.

Í fjórða lagi nefndi ráðherrann tillögur verkefnisins um að gera tilraun með uppboð aflaheimilda. „Um þetta hefur verið mikil umræða í samfélaginu og það er mín bjargfasta trú að það sé mikilvægt að stíga þetta skref til þess að kanna þessa hlið á því hvernig verð myndast í sjávarútvegi.“ Fjármunum sem þannig fást verði ráðstafað til þeirra sveitarfélaga sem hafa fengið almennan byggðakvóta til ráðstöfunar, enda verði þetta hluti af því kerfi.

Í fimmta lagi sagðist ráðherrann myndu leggja til að kerfi byggða- og atvinnukvóta verði stokkað upp. „Almennur byggðakvóti, línuívilnun, skel- og rækjubætur verði aflagðar í núverandi formi. Aðstæður og áskoranir hafa breyst … þessi úrræði þjóna ekki lengur nógu vel þeim markmiðum sem þeim var ætlað að sinna til að byrja með.“ Heimildirnar sem nú er ráðstafað í þessu kerfi verði leigðar út eða ráðstafað með öðrum hætti og mögulega til annarra úrræða í byggðakerfunum.

Stjórnarskrárbreyting mikilvæg, en í annarra höndum

Í sjötta lagi sagði Svandís að í niðurstöðum skýrslunnar sé rætt um nauðsyn þess að lögfesta ákvæði um auðlindir í stjórnarskrá. Það sé ekki á hennar verksviði að leggja fram slíkt frumvarp, en hún hafi sannfæringu fyrir því að það sé nauðsynlegt.

Hún sagði það loks vera sína bjargföstu trú að ofantalin áform verði til að auka traust til íslensks sjávarútvegs.

Það sem við tekur er stjórnsýsluferli frumvarpa: „áformaskjöl“, það er lýsing á áformum um frumvörp, fara í samráðsgátt stjórnvalda. Í kjölfar þeirra verður birt frumvarp til nýrra heildarlaga um nýtingu og stjórnun nytjastofna sjávar. Það verði loks lagt fram sem stjórnarmál á Alþingi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí