Nýbirt bréf sýna að páfi vissi af dauðabúðum nasista árið 1942

Nýfundin bréf gefa til kynna að Pius tólfti, páfi á tíma síðari heimsstyrjaldar, hafi fengið nákvæmar upplýsingar frá heimildamanni sem naut trausts innan páfagarðs um að allt að 6.000 gyðingar og aðrir Pólverjar væru drepnir dag hvern í Belzec í Póllandi undir hernámi Þjóðverja. Skjölin grafa undan þeim fullyrðingum Vatíkansins að páfi hafi ekki getað fordæmt ódæðin þar sem ekki hafi verið hægt að staðfesta frásagnir af þeim á þeim tíma.

Bréfin sýna að páfi vissi

Bréfin sem um ræðir verða birt í bók sem kemur út á mánudag. Bókin byggir á rannsóknum á skjölum Piusar, sem urðu aðgengileg vorið 2020. Þar er um gríðarlegt magn skjala að ræða, sem nær yfir nítján ára páfatíð Piusar, frá 1939 til 1958. Höfundur bókarinnar, Giovanni Coco, er fræðimaður og starfar nú við þetta skjalasafn. Eitt bréfanna, lykilbréf, að sögn fræðimannsins, birtist nú um helgina í ítalska dagblaðinu Corriere della Sera, ásamt viðtali við Coco.

Bréfið sem dagblaðið birtir nú var ritað af fyrrnefndum heimildamanni, presti úr röðum Jesúíta, að nafni Lother König. Hann tilheyrði kaþólskri andspyrnuhreyfingu gegn Hitler, sem lánaðist að leka leyniupplýsingum til Vatíkansins. Bréfið skrifaði hann til ritara Piusar tólfta, Jesúíta að nafni Robert Leiber, þann 14. desember 1942. Bréfið er ritað á þýsku.

Hafi áður verið hægt að halda því fram að Vatíkanið hefði „aðeins“ vitað af þrælkunarbúðunum sem þrælkunarbúðum, það er ekki sem viðvarandi vettvangi skipulagðra fjöldamorða, segir í grein Corriere, þá útiloka þær upplýsingar sem nú er ljóst að páfagarði bárust þann skilning, enda segi König berum orðum í bréfum sínum að í „ofninum“ í Belzec búðunum „deyi allt að 6.000 manns dag hvern, einkum Pólverjar og Gyðingar“.

Í viðtalinu við Corriere útskýrir Coco að þetta tiltekna bréf sé ekki aðeins markvert um þær upplýsingar sem er að finna í bréfinu sjálfu, heldur sé um leið greinilegt að það sé hluti samskipta sem hafi varað og þróast yfir lengri tíma: „Nýmælin og mikilvægi þessa skjals,“ hefur blaðið eftir honum, „felst í þessari staðreynd: að um helförina er áreiðanlegt að Pius tólfti fékk, frá kaþólsku kirkjunni í Þýskalandi, nákvæmar og skilmerkilegar fréttir, um glæpina sem framdir voru gegn gyðingum.“ Bréfið sé lykil-sönnunargagn um það hvernig fréttir bárust í reynd Vatíkaninu um útrýmingarherferð nasista á þeim tíma sem hún átti sér stað.

Coco getur þess einnig að König hafi hvatt páfa til að gera upplýsingarnar ekki opinberar, þar sem hann óttaðist um sitt eigið líf og annarra þeirra úr hópi andófsmanna sem veittu honum upplýsingar, ef ljóst yrði hvaðan þær bárust.

Ljóst er að páfi þagði

Líklegt þykir að þessi gögn muni enn á ný verða tilefni deilna um arfleifð Piusar og flækja fyrir herferð innan kirkjunnar fyrir því að hann verði tekinn í tölu helgra manna.

Deilurnar um Pius og hlutverk hans á dögum helfararinnar hafa staðið lengi. Stuðningsmenn hans segja að hann hafi beitt hljóðlátum, diplómatískum aðferðum til að bjarga mannslífum á meðan gagnrýnendur segja hann hafa þagað þunnu hljóði andspænis helförinni. Í grein Corriere nú um helgina, segir að páfinn sæti ekki aðeins gagnrýni fyrir þögn sína heldur um leið fyrir það að þegar hann þó vék að yfirstandandi hryllingi hafi hann aðeins gert það með óljósu tali á almennum nótum. Þannig hafi hann í langri ræðu á aðfangadag jóla 1942 vísað til þeirra „hundraða þúsunda sem án nokkurrar sakar, stundum aðeins vegna þjóðernis eða ætternis, sjá aðeins fram á dauða eða áframhaldandi hnignun.“ Hann hafi hins vegar aldrei fordæmt þriðja ríkið né getið þess skýrt að gyðingar væru þolendur útrýmingarherferðarinnar.

Hinum nýbirtu gögnum og væntanlegri bók verður fylgt eftir með ráðstefnu í Róm, fyrri hluta október, undir yfirskriftinni: Hin nýju skjöl Piusar tólfta páfa og þýðing þeirra fyrir tengsl gyðinga og kristinna.

Um dauðabúðirnar í Belzec

Belzec voru útrýmingarbúðir reistar af yfirvöldum þriðja ríkisins í austurhluta Póllands, nálægt því sem nú eru landamæri þess að Úkraínu. Búðirnar léku veigamikinn þátt í helförinni.

Brottvísun gyðinga frá Zamość til Belzec, 1942.

Vinna að smíð Belzec-búðanna hófst í nóvember 1941. Þær voru reknar frá 17. mars 1942 til enda júní 1943. Talið er að á milli 430 til 500 þúsund gyðingar hafi verið myrtir í Belzec, ásamt óþekktum fjölda annarra Pólverja og Roma-fólks. Aðeins sjö gyðingar sem þar var haldið við þrældóm lifðu stríðið af. Eftir að búðunum var lokað voru þær jafnaðar við jörðu og herrabúgarður reistur á svæðinu þar sem þær stóðu. Í júlí 1944 frelsuðu Sovétmenn loks þennan hluta Póllands undan hernámi nasista.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí