„Elja er nútímaleg ráðninga- og ráðgjafaþjónusta sem sinnir ráðningarferlinu frá A-Ö á skilvirkan hátt,“ segir á heimasíðu fyrirtækisins Elju. Sannleikurinn er þó að Elja stundar nútíma þrælahald, sem hefur nú dregið mann til dauða á Íslandi. Þótt brunavarnir hafi verið í sæmilegu horfi, að sögn slökkviliðs, og jafnvel þó að maðurinn hefði sjálfur kveikt neistann sem varð honum að bana, þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að hræðilegar aðstæður hans áttu sinn þátt í þessum harmleik, ásamt öðru. Þær aðstæður má með sanni kalla nútíma þrælahald en sonur hins látna, Adrian Wisniewski, lýsti aðstæðum föður síns svo í viðtali við Vísi: „Þetta voru slæmar aðstæður, lítil herbergi og margt fólk í litlu rými.“
Helstu eigendur fyrirtækisins eiga sér allir gífurlega vafasama viðskiptasögu og sterk tengsl við Sjálfstæðiflokkinn. Flestir helstu eigendur fyrirtækisins voru áður tengdir hinu umdeilda fyrirtæki Gamma, sem ber nokkra ábyrgð á því að leiguverð í Reykjavík hefur rokið upp.
Í dag var greint frá því að karlmaður væri látinn eftir að hafa slasast alvarlega í bruna í Funahöfða 7 í Reykjavík í gær. Húsið var ekki skráð sem íbúðahúsnæði og má ætla að brunavarnir hafi verið eftir því. Líkt og hefur ítrekað komið í ljós undanfarin ár þá bjuggu þó erlendir verkamenn þar. Miðað við fyrri dæmi þá voru þeir ekki fáir. Húsið er í eigu helstu eigenda Elju.
Þá má sjá á myndinni hér fyrir ofan, en þeir eru: Arnar Hauksson, bróðir Gísla í Gamma, Pétur Árni Jónsson, aðaleigandi Viðskiptablaðsins og áður framkvæmdastjóri Heildar fasteignafélags sem rekið var af GAMMA, og Jón Einar Eyjólfsson.
Það samfélagslega krabbamein sem þessi menn standa fyrir hefur fengið að grassera í mörg ár. Í ítarlegri frétt DV fyrir fimm árum var starfsemi þeirra lýst og í raun ótrúlegt að enginn hafi stöðvað þá síðan þá. Í fréttinni er fjallað um eitt af þeim mörgu húsum, þrælakistum, sem þeir virðast troðfylla af erlendum verkamönnum. Troðfylla, svo það var ávallt bara tímaspursmál þar til illa færi. Sú þrælakista stóð við Malarás 16, var þá í eigu dótturfélags Gamma, en í þessu 322 fermetra einbýlishúsi voru 122 útlendingar skráðir með lögheimili. Flestir voru á launaskrá Elju.
Það er ekki að ástæðulausu sem það má með sanni kalla þessa þessa menn þrælahaldara. DV ræddi á sínum tíma við einn mann sem starfaði fyrir Elju. Hann var menntaður í sinni iðn og kunni vel að meta íslenska samstarfsfélaga sína. Hann var þó á talsvert lægri launum en ómenntaður Íslendingur. Ofan á það okraði Elja gífurlega á honum hvað varðar húsnæði, en hann borgaði 75 þúsund krónur fyrir 10 fermetra herbergi. Sem hann deildi með nokkrum ókunnugum mönnum.
Það ætti ekki að koma neinum á óvart að það má hafa góðar tekjur af þrælahaldi. Svo er raunin með Elju, líkt og hjá kollegum þeirra á árum áður. Fyrirtækið var stofnað árið 2015 en samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2016 voru rekstrartekjur félagsins þá orðnar um 860 milljónir króna. Gróðinn hefur ekki orðið minni með árunum.
En hvar starfa þessir þrælar? Facebook-síða Elju gefur ákveðna mynd af því. Þeir elda fyrir þig, keyra þig, þrífa eftir þig og jafnvel mála ef þess er þörf. Þetta eru eyðurnar sem Elja segist fylla inn í auglýsingum frá árinu 2017. Ef vel er að gáð þá eiga þessi störf flest eitt sameiginlegt. Þetta eru störfin sem hið opinbera er að útvista. Í auglýsingunni sem má sjá hér fyrir ofan er til að mynda birt mynd af Strætó og sagt: „Það skiptir ekki öllu hvort það er rúta eða langferðabíll. Ef þig vantar bílstjóra til lengri eða skemmri tíma þá sér ELJA um að láta hjólin snúast. Hafðu samband og láttu okkur ráða.“
Hér fyrir neðan má sjá myndir af vettvangi brunans við Funahöfða 7 þar sem maður lést í gær.