„Ég er ekki á leið í forsetaframboð. Punktur.“
Þetta segir Dagur B. Eggertsson sem tekur pokann sinn 16. janúar næstkomandi sem borgarstjóri þegar Einar Þorsteinsson framsóknarmaður sest í hásætið í hans stað samkvæmt meirihlutasamkomulagi.
Dagur flytur tölu á fundi með Samfylkingarfélaginu í Reykjavík næsta mánudag og hefur þess verið beðið með spennu innan raða flokksins hvort hann upplýsi þá um framtíðarplön.
Af svörum borgarstjóra að dæma við spurningum Samstöðvarinnar verður að teljast fremur líklegt að Dagur horfi næst til Alþingis.
„Ég fer yfir sviðið á mánudaginn en mun taka mér þann tíma sem ég þarf til að ákveða næstu skref,“ segir Dagur.
„Þann 16 janúar tek ég við sem formaður borgarráðs. Ég hef hins vegar tekið ákvörðun um að þetta sé mitt síðasta kjörtímabil í borgarstjórn.“
Spurður hvort næsta skref sé framboð til Alþingis undir hatti Samfylkingarinnar, svarar Dagur:
„Ég hef ekki útilokað að stíga inn í landsmál.“
-En hvað með Bessastaði?
„Ég hef ekki hugleitt forsetaframboð.“
-Útilokað eða opið?
„Ég er ekki á leið í forsetaframboð. Punktur.“