Armenía hefur fryst aðild sína að Sameiginlegu öryggissáttmálastofnuninni (CSTO), hernaðarbandalagi sex fyrrverandi lýðvelda Sovétríkjanna, sem Rússar hafa leitt. Stjórnvöld í Jerevan hafa verið að fjarlægja sig frá stjórnvöldum í Moskvu og er þetta enn ein varðan á þeirri leið.
Forsætisráðherra Armeníu, Nikol Pashinyan, sagði í viðtali við frönsku sjónvarpsstöðina 24 að ákvörðunin hefði verið tekin eftir að stjórnvöld í Moskvu hófu fyrir nokkrum mánuðum að hvetja armenskan almenning opinberlega til að steypa ríkisstjórn landsins. Áróðurinn gegn honum og ríkisstjórninni væri yfirstandandi og yfirgengilegur.
Ríkjandi óánægja hefur verið í Armeníu í garð CSTO vegna máttleysis bandalagsins þegar kemur að málefnum Armeníu. Stjórnvöld þar í landi hafa ásakað rússneska friðargæsluliða sem verið höfðu við gæslu í Nagorno-Karabakh héraði frá árinu 2020 um að hafa brugðist í því að stöðva innrás hersveita Azera inn í héraðið í september síðastliðnum. Azerar tóku völdin í héraðinu eftir að það hafði verið undir stjórn Armena í þrjá áratugi. Stjórnvöld í Kreml hafa hafnað áskökunum Armena og sagt að rússneskir friðargæsluliðar hafi ekki haft heimild til að hafast að.
Pashinyan forsætisráðherra mætti ekki á fund CSTO í Minsk, höfðuborg Belarús, í nóvembar síðastliðinum. Hann lýsti því að ákvarðanir um áframhaldandi veru Armeníu í bandalaginu myndu byggjast á þeirra eigin hagsmunum. Ásamt Rússum og Armenum skipa Belarús, Kazakstan, Kirgistan og Tadjikistan bandalagið.
Rússar halda úti herstöð í norðvestur hluta Armeníu, í borginni Gyumri. Spurður hvort henni yrði lokað svaraði Pashinyan því til að það væri ekki á dagskrá.