Emírinn í Kúveit leysir þingið upp – Boðað til fjórðu kosninganna á fjórum árum

Boðað hefur verið til skyndikosninga til kúveiska þingsins 4. apríl næstkomandi. Boðað var til kosninganna eftir að emírinn af Kúveit, Sjeik Meshal Al Ahmad, leysti þing landsins upp fyrr í mánuðinum. Það gerði emírinn eftir að þingmaður lét falla orð sem honum þóttu móðgandi í sinn garð. Það er í þriðja sinn síðan í desember 2020 sem kúveiska þingið er leyst upp, auk þess sem einar kosningar voru ógiltar í heild sinni. Því munu kjósendur í Kúveit ganga að kjörborðinu í fjórða sinn á fjórum árum í apríl komandi. 

Sjeik Al Ahmad leysti þingið upp 15. febrúar síðastliðinn eftir deilur milli ríkisstjórnar og þings um yfirlýsingar þingmannsins Abdul Karim Al Kandari, sem hann taldi móðgandi. Í tilskipuninni sem gefin var út voru ummælin sögð hömlulaus og móðgandi. Ummælin sem Al Kandari lét fjalla voru viðbragð við, og gagnrýni á, ræðu emírsins. Voru ummælin túlkuð sem móðgun við emírinn en slíkt er stjórnarskrárbrot í Kúveit. 

Sjeik Meshal, sem er 83 ára gamall, tók við völdum í Kúveit í desember síðastliðnum eftir andlát hálfbróður síns, sjeik Nawaf. Emíraskipti hafa verið nokkuð tíð í Kúveit síðustu ár en sjeik Nawaf tók við árið 2020 af hálfbróður sínum, sjeik Sabah sem setið hafði við völd frá árinu 2006. Konungsfjölskyldan í Kúveit er afar valdamikil, og meðal annars útnefnir sitjandi emír forsætisráðherra landsins. 

Upplausn þingsins kom eftir þrátefli milli þings og ríkisstjórnar, sem komið hefur í veg fyrir að ríkisstjórnin geti lagt fram og samþykkt breytingar sem eiga að auka fjölbreytni í kúveiskum efnahag. Töluverður halli er á rekstri ríkissjóðs þessa vellauðuga olíuríkis og erlend fjáfesting er takmörkuð. Sjeik Meshal lýsti því yfir eftir að hann tók við völdum að ekkert svigrúm væri fyrir pólitískar deilur milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, og er litið á ákvörðun hans um að leysa þingið upp bæði sem leið til að berja þingið til hlýðni, en einnig sem svo að hann hafi raunverulega móðgast yfir ummælum þingmannsins Al Kandari. 

Sem fyrr segir hefur lítill stöðugleiki ríkt í kúveiskum stjórnmálum. Stjórnmálaskýrendur óttast að kjörsókn í komandi kosningum verði mjög slök, bæði sökum þreytu kjósenda á endalausum kosningum en einnig vegna þess að þær munu fara fram undir lok Ramadan, helgasta mánaðar múslima. 

Þá er óttast að framkvæmdin við kosningarnar verði vafasöm, þar eð nýleg kosningalöggjöf kúveiska þingsins var afnumin tímabundið, fram á haus, með enn annarri tilskipun í síðustu viku. Í millitíðinni verða, að sögn sjeik Meshal, fyrri lög um kosningar í landinu sett á að nýju. Í nýju kosningalöggjöfinni voru ákvæði um að skipa ætti nýja, sjálfstæða kjörstjórn sem ætti að hafa umsjón með kosningum til þingsins, sem hluta af pólitískum umbótum í landinu. Í tilskipuninni sagði að vonlaust hefði reynst að skipa dómara til að leiða slíka kjörstjórn á svo stuttum tíma sem er til kosninga. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí