Gangur er nú á rannsókn héraðssaksóknara á meintu spillingarmáli Samherja í Namibíu. Hópur starfsmanna frá embættinu fór til Namibíu, tók skýrslur af vitnum og átti fundi með embættismönnum í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í Mogganum í dag.
Gagnrýni hefur komið fram á seinagang rannsóknarinnar hérlendis. Hún hefur tekið meira en fjögur ár. Virðist sem enginn hafi verið yfirheyrður allt árið í fyrra. Alls hafa átta manns réttarstöðu sakbornings í málinu.
Málið kom upp eftir afhjúpun Helga Seljan og félaga hans í fréttaskýringarþættinum Kveikur á Rúv. Tók Samherji til varna með fordæmalausri herferð. Grunur leikur á að margvíslegar mútur og sporslur hafi verið greiddar fyrir ítök Samherja í veiðum undir strönd Afríku, auk fleiri mála.
Lengst af hafa fjórir starfsmenn embættisins unnið að rannsókn málsins auk aðkomu saksóknara og yfirlögregluþjóns.
Fram kemur í Mogganum að rannsóknin hér á landi sé nú vel á veg komin en ekki sé unnt að tímasetja lok rannsóknar að svo stöddu.