Hátt í 5.000 manns hafa gerst meðlimir í Facebook-hópi þar sem skorað er á Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Síðan, sem ber nafnið Baldur og Felix – Alla leið, var sett í loftið seint í gærkvöldi og stofnuð af Gunnari Helgasyni rithöfundi, nánum vini og samstarfsmanni Felix Bergssonar, eiginmanns Baldurs.
Í innleggi á síðunni skrifar Gunnar áskorun til þeirra hjóna.
„Ég vil fá Baldur Þórhallsson sem næsta forseta Íslands. […]
Það er ekki til betri maður í djobbið.
Og ekki skemmir hvað hann er vel giftur. Felix Bergsson þekki ég betur en flestir aðrir. Ég þekki enga manneskju sem er réttsýnni, skemmtilegri, víðsýnni, hlýlegri og heilsteyptari – nema kannski Baldur Þórhallsson.
Saman eru þeir sannkallað ofurpar. Auk þess þekkja þeir það vel, af eigin raun, hvað það er að berjast fyrir mannréttindum og eru í gríðarlega góðum tengslum við land og þjóð.
Þeir verða forestapar sem þjóðin getur verið stolt af,“ skrifar Gunnar
Fjölmargir hafa skrifað innlegg á síðuna þar sem þeir lýsa stuðningi sínum við Baldur og Felix. Nafn Baldurs hefur verið nefnt af ýmsum sem hugsanlegur kandídat í forsetastól og var það einnig nefnt fyrir átta árum. Þá afsögðu þeir Baldur og Felix að þeir hyggðu á framboð en hafa nú sagt að þeir séu að hlusta á raddir fólks og huga sinn gang. Þá hafa verið í gangi skoðanakannanir þar sem spurt er um stuðning fólks við Baldur en ekki er vitað hver kostar þær.