Fjölskyldurnar sem eiga fiskana í sjónum
Aðalsteinn Kjartansson á Heimildinni skrifaði úttekt á því hverjir eigi fiskveiðikvótann. Hér á eftir er aðeins upphaf greinarinnar, aðeins áskrifendur Heimildarinnar geta lesið fréttaskýringuna alla:
I“nnan við tíu fjölskyldur eiga og stýra stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Þau fyrirtæki sem skráð hafa verið á markað eru enn undir stjórn, og að uppistöðu í eigu, þeirra einstaklinga sem fengu gjafakvóta. Fjárfestingar eigenda útgerðanna í öðrum og óskyldum greinum nema tugum milljarða og teygja sig í majónesframleiðslu, skyndibitastaði, trampólíngarða og innflutning á bleyjum og sígarettum.
Rétt um helmingur allra aflaheimilda í íslenskum sjávarútvegi er í eigu fimmtíu einstaklinga. Margir eru tengdir fjölskylduböndum – eru hjón, systkini eða börn og foreldrar. Meirihluti aflaheimilda er því í raun í eigu örfárra fjölskyldna. Hópurinn þynnist enn meira ef skoðað er hverjir fara með stjórn þessara fyrirtækja. Þannig hafa sex fjölskyldur stjórn á upp undir helmingi allra aflaheimilda með eignarhaldi sínu á nokkrum af stærstu útgerðarfélögum landsins.
Harðar deilur standa nú á milli þessara einstaklinga og stjórnvalda vegna fyrirhugaðra breytinga á því hvernig veiðigjöld eru reiknuð. Þingmenn ræða frumvarp ríkisstjórnarinnar um að miða við markaðsverð sjávarafurða þegar kemur að álagningu gjaldsins. Hingað til hefur verið miðað við handstýrt verð afurðanna í viðskiptum útgerðanna við sig sjálfar, þar sem flestar af stærstu útgerðum landsins selja eigin fiskvinnslum afurðir. Breytingin felur í sér nærri tvöföldun á innheimtum veiðigjöldum, þar sem markaðsvirði aflans er mun verðmætara en viðskipti á milli þessara tengdu …“
Ásmundur Richardsson skrifar í framhaldi af grein Aðalsteins:
„Það er alveg með ólíkindum að eftirlit með eignahlutum einstaklinga sé ekki burðugra en það er og að reglur um eignatengsl séu ekki skýrari tengt lögum um fiskveiðar og takmarkaðan eignarhlut við 12%. Í hvaða tilgangi var það gert ef engin leið er opin til að fylgja því eftir?
Greinin er fín samantekt og sýnir ágætlega samþjöppun valds og auðs innan fámenns hóps. Það getur ekki verið gott fyrir okkar litla samfélag.
Löggjafinn hlýtur að sjá að sér og skilgreina hugtökin um eignatengsl og hanna þannig skjal sem hægt er að nota til eftirlits og íhlutunar. Fjármagna svo eftirlitsstofnanir til framtíðar þannig að þær geti og þurfi að sinna hlutverki sínu, atvinnugreininni og almenningi til hagsbóta t.d. með tilteknu hlutfalli af veiðgjaldinu.“
Viðar Pétursson skrifar einnig:
„Þetta fólk virðist eiga Sjálfstæðisflokk, Miðflokk og Framsóknarflokk líka.“