Forseti Króatíu eys skömmum yfir sitjandi stjórnvöld – Ætlar sjálfum sér forsætisráðherrastólinn eftir komandi kosningar

Sitjandi forseti Króatíu gaf kost á sér sem forsætisráðherra efni mið-vinstrimanna fyrir komandi kosningar í landinu. Það er hins vegar brot á stjórnarskrá og um það úrskurðaði stjórnlagadómstóll í landinu, forsetanum til mikillar mæðu. Hann lét þó ekki deigan síga og hefur að undanförnu farið um landið og látið skammir og dylgjur dynja á andstæðingum sínum hægra megin í króatískum stjórnmálum. Sem líka er mjög vafasöm framganga með tilliti til stöðu forsetans í stjórnarskrá landsins.

Ekki nóg með það heldur hefur forsetinn skotið í allar áttir að undanförnu, og haldið uppi málflutningi sem alla jafna sést ekki í miklu mæli hjá stjórnmálamönnum sem eiga að heita á mið til vinstri skalanum. Áhersla á öryggis- og varnarmál, óvild í garð innflytjenda og Rússadekur er ekki daglegt brauð þeim megin á pólitíska skalanum. 

Alla jafna er ákveðið mynstur í þingkosningnunum í Króatíu, mynstur sem er á þann veg að mið-vinstri kosningabandalag, leitt af Sósíaldemókrötum (SD) tekst á við Króatíska lýðræðisbandalaginu (HDZ), sem saman samanstendur af miðhægrimönnum og allt yfir til þjóðernissinnaðra hægrimanna. Og yfirleitt vinnur HDZ. 

En kosningarnar sem fara fram í Króatíu næsta miðvikudag gætu farið öðruvísi en vanalega. Stjórnmálaskýrendur segja ástæðu þess fyrst og fremst vera framboð eins manns. Sá heitir Zoran Milanovic, og er forseti landsins. 

Milanovic hefur, síðan hann var kjörinn, ítrekað og alla jafna mælst vinsælasti stjórnmálamaður Króatíu, og það þótt forsetaembættið sé í raun valdalaust í landinu. 

Áður en Milanovic gaf út þá yfirlýsingu bentu skoðanakannanir eindregið til þess að stjórnaflokkurinn HDZ myndi fá þannig útkomu úr kosningunum að það yrði flokknum létt verk og löðurmannlegt að mynda nýja samsteypustjórn. Þegar Milanovic hins vegar lýsti því að hann hyggðist bjóða sig fram fyrir SDP, sem forsætisráðherraefni flokksins, breyttust alla vanalegar forsendur fyrir þingkosningar. Munurinn milli flokkanna tveggja í könnunum dróst mjög saman og minni flokkar í Króatíu fóru að hugsa sér gott til glóðarinnar að verða í lykilstöðu við myndun nýrrar ríkisstjórnar. 

Þó greip dómsvaldið inn í. Í stjórnarskrá Króatíu segir að forsetinn megi ekki vera tengdur stjórnmálaflokkum heldur vera forseti þjóðarinnar allrar. Af þeim sökum komst stjórnlagadómstóll að þeirri niðurstöðu að Milanovic gæti ekki tekið þátt í kosningabaráttunni, nema því aðeins að hann segði af sér sem forseti. 

Við þessu brást Milanovic ekki sérstaklega jákvætt við. Hann sakaði dómstólinn um að ganga erinda HDZ, eða „glæpaklíkunnar“ eins og hann orðaði það. Þá bætti hann því við að dómararnir væru „ólæsir molbúar“.

Því er Milanovic ekki lengur í framboði de facto en það hefur ekki komið í veg fyrir að hann ferðist um landið og láti skömmum rigna yfir HDZ. Sem aftur hefur valdið sitjandi forsætisráðherra HDZ flokksins, Andrej Plenkovic, nokkrum vandræðum. Hann hefur þurft að bregðast við ásökunum og yfirlýsingum Milanovic, þó sá síðarnefndi sé í raun ekki í framboði. Plenkovic hefur lýst stöðunni sem furðlegri, sitjandi forseti fari um og brjóti stjórnarskrá landsins, dag hvern að segja má. 

Milanovic hefur þó ekki látið sitja við að ausa HDZ flokkinn skömmum heldur skýtur hann í allar áttir. Þannig hefur hann hellt úr skálum reiði sinnar yfir nágrannaríkið Bosníu, yfir ólöglega innflytjendur í landinu og gagnrýnt hernaðaraðstoð við Úkraínu harðlega. Á sama tíma hefur hann farið fögrum orðum um hernaðargetu Rússa. 

Allt eru þettu fremur óvenjulegar áherslur fyrir stjórnmálamann sem teljast á að vera staðsettur á mið-vinstri skala stjórnmálanna. Málflutningur Milanovic er því áhyggjuefni fyrir alla sem eru ekki sérstakir stuðningsmenn þess að populistar hafi sérstök áhrif í ríkisstjórn Króatíu. 

Þó eru þeir til, vinstra megin í króatískum stjórnmálum, sem eru að vonast eftir því að forsetinn sé þarna að spila blekkingarleik, en sé ekki að sýna á eigin spil og afhjúpa sig sem þjóðernispopúlista. Þannig sé hann að stela þrumunni af HDZ flokknum sem alla jafna setji varnar- og hernaðarmál á oddinn, innflytjendamál og samskipti við Bosníu einnig.

Ef SDP hefur sigur í kosningunum næstkomandi miðvikudag er talið að Milanovic muni segja af sér forsetaembætti og setjast í stól forsætisráðherra. Ef ekki, þá er Króatía samt sem áður í þeirri ankannalegu stöðu að forsetinn hefur stóru hlutverki að gegna við að mynda ríkisstjórn í landinu. Svo Milanovic mun verða í aðalhlutverki í króatískum stjórnmálum á næstunni, hver svo sem úrslit kosninganna verða. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí