Rússneskir hernaðarráðgjafar hafa verið sendir til Vestur-Afríkuríkisins Níger ásamt loftvarnarkerfum og öðrum hergögnum. Koma ráðgjafanna er þáttur í frekari hernaðartengslum milli ríkjanna tveggja að því er nígerska ríkisútvarpið segir.
Herforingjastjórnin í Níger samþykkti í janúar síðastliðnum að auka við hernaðarsamvinnu sína við Rússa. Það gerði hún eftir að hafa vísað frönskum hersveitum úr landi, en þær höfðu verið hersveitum herforingjastjórnarinnar til aðstoðar í bardögum þeirra við uppreisnarhópa á Sahel svæðinu.
Nígerska ríkisútvarpið sýndi myndskeið af rússneskri herflutningaflugvél lenda á Niamey flugvellinum í gærkvöldi og greindi frá því að um borð væru hernaðarráðgjafar og hergögn af nýjustu gerð. Rússar myndu aðstoða við að koma upp loftvarnarkerfi sem tryggja myndi Níger full yfirráð yfir lofthelgi sinni. Hernaðarráðgjafarnir munu vera um eitt hundrað talsins.
Rússar hafa ekki gefið út neinar yfirlýsingar um málið. Rússland hefur unnið að því að auka áhrif sín í Afríku og haldið því á lofti að það sé vinveitt ríki sem ekki hafi komið með neinum hætti að nýlendustefnunni í álfunni.
Níger er eitt fátækasta ríki heims. Það hefur verið í fararbroddi sem bandamaður Vesturlanda við að berjast gegn uppreisnarsveitum á Sahel svæðinu en eftir að herforingjar steyptu kjörnum forseta landsins, Mohamed Bazoum, af stóli í júlí síðastliðnum hefur herforingjastjórnin í meira mæli hallað sér að Rússum.
Níger rifti í mars síðastliðnum hernaðarsamningi sínum við Bandaríkin, en sá samningur hafði heimilað bandaríkjaher að halda úti aðgerðum á nígersku landi frá tveimur herstöðvum. Bandaríkjaher heldur enn úti herliði um eitt þúsund hermanna í Níger en athafnafrelsi þeirra hefur verið verulega skert frá því að valdaránið var framið.
Níger og nágrannarríkin Malí og Búrkína Faso, sem hvoru tveggja eru einnig undir stjórn herforingjastjórna eftir valdarán, hafa myndað sameiginlegan herafla til að takast á við uppreisnarhópana. Ofbeldi og átök hafa aukist verulega á svæðinu eftir valdaránin og ríkir mannúðarkrísa á svæðinu. Í mars síðastliðnum voru yfir þrjár milljónir manna á flótta vegna óaldarinnar.