„Fjármagnsöflin ásælast auðlindir þjóðarinnar og hyggjast sem fyrr beita einkavæðingu til að komast yfir þær. Þetta á við um raforkuna, landið, vindinn og vatnið. Já, það á að hlunnfara þjóðina eina ferðina enn.“
Þetta skrifaði Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, í 1. maí kveðju sinni sem birtist á vef Alþýðusambandsins í gær. Finnbjörn sagði þar að verkalýðshreyfingin hefði öðrum fremur mótað Ísland sem velferðarsamfélag, barátta launafólks byggði nú sem fyrr á grunni hugsjóna um réttlátt samfélag, samhygð og bætt kjör.
Verkalýðshreyfingin væri sterkasta afl framfara og breytinga í landinu. Nú væri hins vegar sótt að réttindum okkar og kjörum, með því að fjármagnsöflin ásældust auðlindir þjóðarinnar. Þá hyggðust stjórnvöld hefja „einkavæðingu ellinnar“ með grundvallarbreytingu á rekstri hjúkrunarheimila. „Þetta eru stórhættuleg áform og bein ógn við velferðarríkið. Ég hvet ykkur öll að styðja verkalýðshreyfinguna í varðstöðu um hagsmuni og velferð almennings í landinu. Ég hvet ykkur til að taka beinan þátt í henni til dæmis með virkri þátttöku í stéttarfélögunum sem ÞIÐ eigið og ÞIÐ ráðið.“