Strandveiðivertíðinni lauk formlega í vikunni hvað varðar þorskafla en veiðar voru stöðvar í fyrradag. Fimm bátar veiddu meira en 26 tonn af fiski en aflakóngur reyndist Nökkvi Ár. Nökkvi Ár veiddi samtals 40 tonn af fiski, þar af tæpur helmingur ufsi.
Auðlindin, fjölmiðill sem sérhæfir sig í sjávarútvegsmál, greinir frá þessu. Þó Nökkvi hafi veitt mest þá var það Kári sem var aflahæstur í þorski, að frátöldum umframafl. Á vertíðinni voru 116 bátar sem lönduðu að jafnaði 750 kg af þorski eða meira. Allur flotinn landaði samtals tæplega 12 þúsund tonnum af þorski.
Varla er hægt að segja annað en að veiðar hafi gengið vel hjá flestum. Best var að landa í Norðurfirði en þar var meðalvigtin 762 kg af þorski í löndun. Samkvæmt samantekt Auðlindarinnar á bráðabirgðatölum Fiskistofu þá var Habbý aflahæstur á eftir Kára í þorski. Í þriðja sæti var Kolga, í fjórða Mardöll og í fimmta Lóa. Mjög mjótt var á munum þó hjá þessum fimm bátum en allir veiddu rétt ríflega 26 tonn af þorski að frátöldum umframafla.
Strandveiðikerfið
Rétt er að útskýra strandveiðikerfið fyrir hinum almenna lesanda. Ákveðið er fyrir trillukarla og konur hvaða daga vikunnar má veiða og hversu miklu má landa hvern dag sem er 774 kg af óslægðum þorski. Óslægður þorskur þýðir að ekki er búið að rista á kviðinn og taka út inneflin heldur er bara búið að blóðga fiskinn. Það er ekki nóg með að það sé hámark á afla fyrir hvern dag heldur er líka heildaraflahámark fyrir alla þá sem stunda veiðar innan þessa kerfis.
Strandveiðitímabilið hefst hvert ár annan maí og er einungis leyfilegt að fara út fjóra daga vikunnar. Strandveiðisjómenn mega ekki velja hvaða daga vikunnar þeir fara út á sjó heldur er það ákveðið fyrir þá. Þeir dagar sem eru leyfilegir eru mánudagur, þriðjudagur, miðvikudagur og fimmtudagur. Þetta fyrirkomulag hefur verið harðlega gagnrýnt af strandveiðisjómönnum sem segja með réttu að þetta hvetji þá til að taka óþarfa áhættur ef veður er vont. Það getur til dæmis alveg komið fyrir að það sé gott veður á föstudegi til sunnudags en bræla á mánudegi til fimmtudags.
Í upphafi strandveiðitímabilsins í ár var aflamarkið fyrir alla þessa báta, sem eru nú um átta hundruð talsins (756), tíu þúsund tonn en seinna þegar sjávarútvegsráðherra sá að strandveiðarnar myndu stöðvast óvenjulega snemma í ár ákvað hann að bæta við tvö þúsund tonnum. Mikið harmakvein heyrðist í lobbýistum stórútgerðarinnar við þessi tíðindi eins og við mátti búast.