Öllum að óvörum sneru franskir kjósendur sér í gær að bandalagi vinstri flokka í stað þess að kjósa öfgaflokk Marine Le Pen, National Rally. Stórsigur vinstrisins kom flestum álitsgjöfum á óvart þar sem öfgahægrið hafði unnið fyrstu umferð kosninganna með yfirburðum.
Vinstri bandalagið New Popular Front er því hér með stærsti flokkurinn á franska þinginu með 188 sæti og 32,6% atkvæða. Næst á eftir kemur flokkur Macrons, Frakklandsforseta, með 161 sæti og 27,9% atkvæða. Af stóru þremur rekur öfgaflokkur Le Pen lestina með 142 sæti og 24,6% atkvæða. Hefðbundni hægriflokkur Frakklands, Repúblikanir, halda áfram að minnka og hnigna og fengu aðeins 8,3% atkvæða og 48 sæti á þingi.
Staðan er sú sama og eftir síðustu kosningar að enginn einn flokkur er með meirihluta á þingi, en flokkur Macrons missti sinn meirihluta árið 2022. Nú er þinginu hins vegar að mestu skipt í þrjár blokkir; vinstrið, hægri-miðju og öfgahægrið.
Forsætisráðherra Frakklands, Gabriel Attal, er úr röðum flokks Macrons, Ensemble og eftir að niðurstöðurnar lágu fyrir sagði hann af sér. Macron hefur þó beðið hann um að halda áfram um tíma á meðan að staðan skýrist með ríkisstjórnarmyndun.
Macron er ennþá sitjandi forseti og hefur bæði mikil völd og ítök í frönskum stjórnmálum sem og að hann getur skipað ríkisstjórnir og ráðherra. Flokkur hans hefur þó ekki marga möguleika. Annaðhvort myndar hann samsteypustjórn með sigurvegurunum, vinstrinu, eða biður um þeirra stuðning eða þá að hann hoppar í baneitraða vegferð með öfgaflokk Le Pen, sem hlýtur að teljast ólíklegt miðað við hvernig Macron hefur skilgreint sig hingað til í stjórnmálum sem valkost lýðræðis gegn valdboðshyggju Le Pen.
Bandalag vinstri flokkanna er svo annað mögulegt vandamál, en bandalagið var myndað núna rétt fyrir kosningar, stuttu eftir að þær voru tilkynntar. Innan þess bandalags er Jean-Luc Melenchon einna atkvæðamestur, en hann er stofnandi og leiðtogi eins stærsta flokksins í bandalaginu og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, ásamt því að vera með langan feril að baki í frönskum stjórnmálum. Hann er þó ekki einn um hituna því flokkarnir sem sameinuðust eru æði margir. Þar koma saman kommúnistar, sósíalistar, græningjar, sósíal demókratar og fleiri.
Þeirra markmið voru þó skýr. Fyrst og fremst var bandalagið sett fram til höfuðs öfgahægrinu enda er nafnið vísun í bandalag vinstri flokka gegn fasismanum á milli heimsstyrjaldanna tveggja, sem hét Popular Front. Um kosningamál er bandalagið sameinað um að vilja afnema ellilífeyrislögin frá 2023, þar sem aldur lífeyrisþega var hækkaður úr 62 ára í 64 ára ásamt öðrum breytingum. Þá vill bandalagin hækka laun opinberra starfsmanna og bætur velferðarkerfisins, stórhækka lágmarkslaun um 14% og frysta verð á nauðsynjavörum. Þetta hyggjast þau fjármagna með því að setja aftur á auðvaldsskatt og taka þannig aftur margar skattalækkanir á hina ríku á undanförnum árum. Einnig með því að hækka tekjuskatt á hina tekjuhæstu.
Óvíst er um getu Macrons og hans flokksmanna til að kyngja slíkum málum enda gæti flokkur hans helst samsamað sig við flokk eins og Viðreisn hér á Íslandi. Flokkur sem trúir á markaðinn og kapítalisma. Macron gæti þó einfaldlega neyðst til að kyngja stoltinu enda eini valkosturinn annar að taka höndum saman með fasistum Le Pen.