Deilt er um kosningarnar sem fóru fram í Venesúela þann 28. júlí. Stofnunin sem sér um talningu atkvæða, Consejo Nacional Electoral (CNE), birti niðurstöður eftir að 80% atkvæða höfðu verið talin, sem sýndu að Nicolás Maduro, sitjandi forseti, fékk 51% atkvæða á meðan frambjóðandi stjórnarandstöðunnar, Edmundo González, fékk 44%. Aðrir frambjóðendur fengu samtals 4,6% (en allt í allt voru 10 frambjóðendur á kjörseðlinum í þessum kosningum). Kjörsókn var 59%.
Edmundo González bauð sig fram fyrir hönd stjórnarandstöðunnar (sem er studd af Bandaríkjunum, margir fjölmiðlar tala um US-backed opposition), á meðan leiðtogi stjórnarandstöðunnar er María Corina Machado, en hún leiðir flokkinn Plataforma Unitaria Democrática (PUD), sem González bauð sig fram fyrir.

Þannig að þrátt fyrir að González hafi verið frambjóðandi stjórnarandstöðunnar í kosningunum, þá er það Machado sem er raunverulegur leiðtogi stjórnarandstöðunnar gegn stjórn Maduro.

Stjórnarandstaðan segist hafa unnið kosningarnar og hefur sakað stjórn Maduro um kosningasvindl. Til að rökstyðja þessa fullyrðingu vísar stjórnarandstaðan í eina útgöngukönnun sem var framkvæmd af bandaríska fyrirtækinu Edison Research sem hefur höfuðstöðvar sínar í New Jersey. Samkvæmt þessari útgöngukönnun fékk González 65% á meðan Maduro fékk 31%. Hægt er að sjá þessa könnun Edison Research hér.
Blaðamaðurinn Ben Norton hjá Gepolitical Economy Report greinir frá því að Edison Research hafi áður framkvæmt svipaðar kannanir í Georgíu, öðru ríki þar sem Bandaríkin hafa skipt sér af niðurstöðum kosninga, og að þetta fyrirtæki hafi tengsl við bandarísk stjórnvöld og ríkisfjölmiðla í Bandaríkjunum, eins og Radio Liberty og Voice of America, sem flytja boðskap Bandaríkjanna í útlöndum. Þekkt er að Bandaríkin hafa áður reynt að gera valdaránstilraunir í Venesúela, og hafa frá lokum seinna stríðs framkvæmt valdaránstilraunir í hér um bil öllum löndum Suður-Ameríku.
Þessi eina könnun Edison Research, sem stjórnarandstaðan byggir sínar fullyrðingar á um kosningasvindl, gengur í berhögg við það sem ýmsir alþjóðlegir kosningaeftirlitsaðilar hafa sagt um kosningarnar.
Samtökin National Lawyers Guild (NLG), sem eru samtök alþjóðlegra kosningaeftirlitsaðila í Bandaríkjunum, hafa gefið frá sér tilkynningu þar sem „kosningaferlið í Venesúela er lofað fyrir heiðarleika og gagnsæi“, og „fordæmir tilraunir stjórnarandstöðunnar, sem er studd af Bandaríkjunum, að draga niðurstöður kosninganna í efa“.
Í yfirlýsingu NLG segir meðal annars:
Sendinefnd fimm kosningaeftirlitsmanna frá National Lawyers Guild (NLG) fylgdist með forsetakosningunum í Venesúela sem fóru fram þann 28. júlí 2024. Sendinefndin varð vitni að heiðarlegu kosningaferli sem einkenndist af gagnsæi, þar sem rík áhersla var lögð á lögmæti, aðgang að kjörstöðum, og þar sem sjónarhorn ólíkra hópa í samfélaginu voru virt [pluralism].
Þrátt fyrir heilbrigði kosningaferlisins hefur stjórnarandstaðan, sem er studd af Bandaríkjunum, og með stuðningi vestrænna fjölmiðla sem eru mjög andvígir Maduro, neitað að viðurkenna niðurstöður kosninganna, og þar með grafið undan lýðræðinu í Venesúela.
…
Sendinefndin heimsótti nokkra kjörstaði í Caracas og La Guaira og deildi athugasemdum og upplýsingum með 910 kosningaeftirlitsmönnum frá 95 löndum, og einnig með mörgum samtökum, þ.á m. Carter Center, Sameinuðu þjóðunum, Afríkusambandinu og Latin American Council of Electoral Experts (CEELA).
Í heimsóknum sendinefndarinnar á kjörstaði var rætt frjálslega við kjósendur, bæði þá sem styðja ríkisstjórnina og þá sem styðja stjórnarandstöðuna. Við komumst að því að langflestir kjósendur lýstu yfir miklu trausti á kosningakerfinu, og við tókum ekki eftir neinum vandamálum eða hindrunum við að greiða atkvæði.
Í yfirlýsingu NLG er jafnframt bent á að Jimmy Carter, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hafi kallað kosningakerfið í Venesúela „eitt það besta í heimi“.
Aðrir kosningaeftirlitsaðilar sem töluðu við MintPress News hafa svipaða sögu að segja.
Wyatt Souers, talsmaður fyrir International People’s Assembly (alþjóðleg samtök stéttarfélaga), sagði í viðtali við MintPress News:
Okkur var hleypt inn og við skoðuðum hvernig atkvæðagreiðslan gekk fyrir sig. Allt fór fram samkvæmt reglu. Ég myndi segja að þessar kosningar líta út fyrir að hafa verið lögmætar.
Roger D. Harris, kosningaeftirlitsaðili hjá Task Force on the Americas, sagði í viðtali við MintPress News að andstæðingar Maduro-stjórnarinnar sem mættu á kjörstaði til að kjósa gegn honum hefðu einnig sýnt traust á kosningakerfinu og tekið þátt í kosningunum í þeirri trú að þær færu heiðarlega fram.
Ég talaði við konu sem var að greiða atkvæði gegn Maduro… það var mjög merkilegt að hún taldi kosningaferlið vera frjálst og sanngjarnt… Á heildina litið var tilfinning okkar sú, eftir að hafa farið á hina ýmsu kjörstaði til að fylgjast með, að fólk tók mjög vel á móti okkur og var mjög stolt af því að vera að taka þátt í kosningum fyrir land sitt.
MintPress News greinir frá því að margir eftirlitsaðilar sem þeir töluðu við báru kosningakerfið í Venesúela saman við kosningakerfið heima hjá sér í Bandaríkjunum, og sögðu það vera mun betra: „Það kom mér mjög á óvart hversu háþróað þetta kosningakerfi er, sérstaklega þegar það er borið saman við kosningakerfið í Bandaríkjunum sem er mjög gamaldags“, sagði Jodi Dean, prófessor í stjórnmálafræði.
„Við skoðuðum nokkra kjörstaði og sáum enga óreglu eða neitt sem gæti bent til hvers kyns svindls eða ólögmætis. Kosningaferlið hér er mun strangara heldur en það í Bandaríkjunum, þetta er mjög gott kosningakerfi“, sagði Wyatt Souers við MintPress News.