Kveður Pírata og segir aðra þurfa að svara því hvort það eigi að halda flokknum gangandi mikið lengur

Halldór Auðar Svansson, fyrrverandi borgarfulltrúi Pírata, virðist ekki telja miklar líkur á því að Píratar verði til sem flokkur mikið lengur eftir áfallið um helgina. Píratar fengu engan mann kjörinn á Alþingi, eftir að hafa verið þar með menn í ríflega áratug. Hann segist kveðja flokkinn fyrir fullt og allt nú og segir þá sem verða eftir þurfa að gera það upp við sig hvort þeir vilji halda þessu gangandi  til næstu kosninga. Þess má geta að Píratar hluti af borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík.

„Píratar eru hreinræktað afsprengi eftirhrunsstjórnmálanna – annað af tveimur framboðum utan fjórflokksins gamla sem komust á þing árið 2013 en samkeppnin var þá hörð. Þarna var hafin mikil upplausn rótgróna flokkakerfisins og mikil gerjun í gangi en það voru Píratar ásamt Bjartri framtíð sem náðu upp úr umrótinu (hér ætla ég mér ekki að skrifa Borgarahreyfinguna út úr sögunni en að mínu mati var umrótið ekki fyllilega hafið 2009, af því það gafst tiltölulega skammur tími frá hruni og fram að kosningum til að mynda nýjar stjórnmálahreyfingar),“ skrifar Halldór Auðar.

Hann segir að það hafi lengi verið nánast hluti af hugmyndafræði Pírata að flokkurinn yrði skammlífur. „Ég held að nákvæmlega engin sem tóku þátt í flokknum hafi þarna gert ráð fyrir að hann myndi endast í rúman áratug á þingi og í raun var það nánast hugmyndafræði sumra að honum væri bókstaflega ekki ætlað að vera til of lengi. En flokkurinn festist í sessi og var orðinn mörgum kær og því er það auðvitað mörgum áfall að hann þurrkist út af þingi. Ég hef mikla samúð með því og skilning á því þó persónulega séu mínar tilfinningar aðeins blendnari,“ segir Halldór Auðar og heldur áfram:

„Þó að reynsla mín af því að hafa setið í borgarstjórn fyrir flokkinn og komið inn á þing sem varamaður hafi almennt verið góð var mín upplifun af innra starfinu almennt alls ekki góð – en ég sagði mig alfarið frá því þegar ég fann hjá mér að ég var bara alls ekki stemmdur fyrir því að taka þátt í kosningabaráttu flokksins. Fyrir mér var niðurstaða kosninganna því fyrst og fremst endurspeglun á löskuðu innra starfi. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þessu eru sum sammála en önnur ekki og ætla ekki að búa til vettvang hérna til að deila um þetta. Þetta er bara mín upplifun og afstaða og að sjálfsögðu er líka í mér ákveðin sorg yfir því að áherslur flokksins hafi horfið af þingi og að þessi saga sé bara búin. En alveg óháð minni persónulegu reynslu þá held ég að það sé til að mynda nokkuð hlutlæg staðreynd að flokkur sem hafði aldrei burði til að byggja upp almennilega starfsemi úti á landi var alltaf í miklu meiri fallhættu en flokkar sem hafa haft slíka burði.“

Sjálfur segist hann nú orðinn pólitískur munaðarleysingi. „Eftir standa síðan spurningar um hvort það eigi að halda flokknum gangandi til að bjóða fram næst, á hvaða forsendum það eigi að vera og hvernig það eigi að að fara fram. Svo eru auðvitað sveitarstjórnarfulltrúar sem eru ekki að fara neitt í bili. Þessi skrif mín eru hins vegar kannski aðallega hugsuð til að árétta að ég verð ekki hluti af þessari vinnu og er þannig orðinn svokallaður pólitískur munaðarleysingi í bili. Þau eru líka til að þakka fyrir góðu stundirnar og fagna þeim árangri sem flokkurinn náði, sem er alveg töluverður. Aftur þá er það kannski mesta afrekið að hafa enst svona lengi og að hafa markað varanleg spor. Það verður ekki af nokkru okkar tekið.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí