Ólafur Haukur Símonarson tekur hér nokkur sundtök á mótu straumnum. Og er svo sem ekki óvanur því. Lesum:
Ég heyri í heita pottinum klifað á ýmsum nýjum en aðallega þó gömlum sparnaðarráðum til að svara ákalli ríkisstjórnarinnar. Eitt það vinsælasta er að taka fyrir þá ósvinnu að ráðherrar fái sér til fulltingis aðstoðarmenn. Þetta er þó eitt að því skynsamlega sem fyrri stjórnvöld hafa gert að tryggja að ráðherrar hafi sér við hlið fólk með sérfræðiþekkingu sem skákað getur hinum íhaldssömu og oft kulnuðu starfsmönnum ráðuneytanna. Enginn ráðherra sem vill rækja skyldur sínar vel getur verið með augun á öllum þeim atriðum sem máli skipta varðandi upplýsingaöflun, stefnumótun og eftirfylgni. Ég sé ekki betur en ráðherrar vandi sig yfirleitt við val á aðstoðarmönnum; oftast er um að ræða vel menntaða, reynda og kjarkaða einstaklinga sem bæta allt starf og framgöngu ráðherra – og halda ráðuneytisfólki við efnið – sem ekki veitir af. Góðir hálsar, hneykslumst á einhverju öðru.