Sumir starfsmanna Ríkisútvarpsins gætu átt á hættu að missa vinnuna sína, gangi hugmyndir Vilhjálms Birgissonar, verkalýðsleiðtoga á Akranesi eftir. Hluta þeirra yrði þó ekki saknað, að því er kemur fram á facebook.
Vilhjálmur sem er formaður Verkalýðsfélags Akraness veltir á faecebook-síðu sinni upp efasemdum um hvort skattgreiðendur eigi að reka Ríkisútvarpið og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Er óhætt að segja að mikill kurr hafi skapast vegna orða verkalýðsleiðtogans.
„En þegar ríkissjóður er rekinn með halla ár eftir ár og brýn og aðkallandi velferðamál sitja á hakanum þá er þetta eitthvað sem sannarlega má skoða!“ Segir Villi Birgis.
Nokkrir hafa á orði í athugasemdum við færslu Vilhjálms hve óábyrgt það sé fyrir mann í leiðtogastöðu hjá launþegasamtökum að setja mál svona fram, þótt Valkyrkjustjórnin auglýsi þessa dagana eftir sparnaðartillögum frá almenningi.
Einn bendir á að niðurgreidd menningarstarfsemi sé einmitt það sem láglaunafólki kæmi best að yrði sett á oddinn.
Annar telur nær að brýna starfsfólk Rúv til að vinna vinnuna sína betur en að einkavæða almannaútvarpið, enda minni Rúv fremur á „duglítinn einkaklúbb tengdra vildarvina en nokkuð annað“ eins og það er orðað.
Þór Saari, fyrrverandi þingmaður, segir um málflutning Vilhjálms:
„Svona tillögur koma náttúrulega frá algjörlega menningarsnauðum hellisbúum og engum öðrum. Ríkissjóður er rekinn með halla vegna þessa að nýfrjálshyggjan vill ekki skattleggja kapítalistana, ekki vegna öryrkja og veiks fólks,“ segir Þór Saari.