Elías Pétursson, sjálfstæðismaður og fyrrum bæjarstjóri, segir að auglýsingaherferð SDS gegn hærri veiðigjöldum misbjóði honum. Hann óttist að félagar hans inni á Alþingi sé að hlaða í málþóf þegar frumvarp um leiðréttingu veiðigjalda kemst á dagskrá.
Á Samstöðinni hefur í vikunni farið fram umræða um auglýsingaherferð SFS sem mörgum finnst einkar ósvífin og að sannleikanum sé snúið á haus. Sjá meðal annars hér:
Rauða borðið 22. apríl – Ósögð daga
Elías segir í færslu á facebook um tímann fyrir kvótakerfið:
„Lífið í þorpunum var skapandi; þar ríkti heilbrigð samkeppni; tækifærin voru óteljandi vegna nálægðar við fiskimiðin; hvert þorp var heilbrigt og skapaði jöfn tækifæri þrátt fyrir að vera ekki fullkomið samfélag. Upp úr því umhverfi spruttu nánast allir þeir sem hafa markað einhver spor í íslenskan sjávarútveg. Kvótahafar dagsins er fyrst og fremst aðilar sem fá notið afraksturs þeirra sem á undan hafa gengið. Þetta eru aðeins staðreyndir úr sögu þorpanna og áhrifa þeirra. Ekki fullkomið fyrirbæri en sjaldnast kóngar og/eða drottningar sem drottnuðu yfir samfélaginu.“
Hann bætir við:
„Tíminn er breyttur. Þorpin töpuðu. Þorpin urðu undir. Tækifærin hurfu. Verðmæti eigna þorpanna urðu lítil sem engin. Sem betur fer er þetta að breytast. Ferðaþjónusta og tækniframfarir hafa skapað ný tækifæri í þorpunum. Þorpin, sem töpuðu, eru mörg hver að taka við sér eftir hrylling kvótakerfisins.
Það er af þessum ástæðum sem auglýsingar SFS hreinlega misbjóða mér. Auglýsingarnar bera vitni um ævintýralegan hroka þeirra sem tóku lífsbjörgina frá þorpunum en kalla nú eftir ásjá þeirra og aðstoð þegar sanngjörn krafa er gerð um eðlilegt afgjald kvótahafanna til samfélagsins. Sorglegt.“
Elías segir að hann taki sérlega næsrri sér að í herferð SFS hafi „verið vélað ungt fólk sem mun ekki geta útskýrt aðkomu sína að þeim eftir nokkur ár. Þetta má kalla misnotkun á ungu fólki. Það er rangt að ekkert líf hafi verið til staðar áður en kvótaverðmætin voru færð til útvalinna eins og haldið er fram í auglýsingunum. Það er ákaflega slæmt að vera á þeim stað í lífinu að telja sig þurfa að selja sálu sína stórfyrirtæki þorpsins til að komast af; að telja að allt líf í þorpinu sé afleiða starfsemi stórfyrirtækisins sem auðveldlega getur ákveðið að flytja öll verðmætin burt á einni nóttu. Það er afleitt að staða þorpsins sé sú að verkstjórinn í fyrirtækinu sé miðja samfélagsins. Þá er rétt að flytja. Við þessar aðstæður er ágætt að rifja upp að íþróttahús þorpsins var gefið af Dönum, en ekki kvótahöfum. Annað er sögufölsun“.
Einnig segir Elías: „Ég vil taka fram að ég hef verið Sjálfstæðismaður allt mitt líf. Nú líður senn að því að þing komi saman að nýju eftir gott páskafrí og ræði hið sanngjarna afgjald kvótahafa til þjóðarinnar. Mig grunar að þingmenn Sjálfstæðisflokks séu nú að hlaða í málþóf í þágu kvótahafanna og aðra viðlíka vanvirðu við lýðræðið. Mér þætti miður ef grunur minn reynist réttur, en óttast það. Ef svo reynist þá sannast enn að lífið er endalaus uppspretta reynslu sem kallar reglulega á endurskoðun eldri sjónarmiða.
Hvað sem öðru líður bið ég um vinsamlegast um að mér verði hlíft við þessum makalausa áróðri SFS því hann er fullkominn vanvirða við þorpin, fullkominn vanvirða við heilbrigða skynsemi, fullkomin vanvirða við samfélagið sem við byggjum og fullkomin vanvirða við söguna – en segir afar mikið um þá sem bera áróðurinn fram og fjármagna.“