Inga Sæland í Alþingi:
„Nýjungin í frumvarpinu felst í því að mælingar á launavísitölu munu liggja til grundvallar hækkununum vegna sögulegrar þróunar í stað launaþróunar eins og verið hefur og eins og ég áður hef sagt. Það verður áfram stuðst við hækkanir vegna vísitölu neysluverðs ef sú vísitala hækkar meira en launavísitalan þannig að hér er enn þá þessi öryggisgaffall á ferðinni að sú vísitalan sem hækkar meira, hvort heldur sem það er vísitala launa eða neyslu — við munum tryggja að það verði stuðst við þá vísitölu þegar kemur að útreikningum almannatrygginga og leiðréttingu þeirra 1. janúar ár hvert. Þessi breyting mun skila mikilvægri kjarabót til allra lífeyrisþega almannatrygginga en um síðustu mánaðamót voru það um 65.000 einstaklingar. Það verða 65.000 einstaklingar sem munu njóta þessa góða frumvarps þegar það hefur náð fram að ganga. Vonir mínar standa til þess að með þessari aðgerð ásamt gildistöku nýs örorkulífeyriskerfis muni stærstur hluti þjóðarinnar upplifa það að hafa meira en 450.000 kr. á mánuði í ráðstöfunartekjur og það áður en langt um líður.“
Hér var hún að mæla fyrir frumvarpi sínu um um almannatryggingar og endurskoðun örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.
Síðar í ræðu sinni sagði húsnæðis- og félagsmálaráðherra:
„Önnur mikilvæg breyting sem hér er lögð til er að aldursviðbót þeirra örorkulífeyrisþega sem hafa uppfyllt skilyrði fyrir henni falli ekki niður á því tímamarki þegar örorkulífeyrisþegi nær ellilífeyrisaldri heldur fylgi ellilífeyrinum út ævina. Hvað erum við að segja hér? Þetta þýðir að þau sem eiga engin eða mjög takmörkuðu atvinnutengd réttindi til ellilífeyris vegna þess að þau voru ung metin til örorku munu áfram njóta stuðnings með viðbótargreiðslu nái þetta frumvarp fram að ganga. Um er að ræða ívilnandi ákvæði sem bætir fjárhagslega stöðu þeirra sem uppfylla skilyrði fyrir því að fá greidda aldursviðbót í því nýja greiðslukerfi örorkulífeyris sem tekur gildi þann 1. september næstkomandi. Þetta er stórkostleg kjarabót. Staðreyndin er sú að framkvæmdin hefur verið með þeim hætti að á afmælisdaginn 67 ára, akkúrat á þeirri mínútu, þá ekki bara hættum við að vera öryrkjar heldur í rauninni verðum við ellilífeyrisþegar og ég var oft að gantast með það hér að það væri kannski tilhlökkunarefni fyrir mig þegar ég yrði 67 ára að geta fleygt gleraugunum og væri komin með fulla sjón og færi bara að keyra bíl eða að hendur og fætur færu að vaxa á fólk sem hefði missti útlimi og annað slíkt vegna þess að slík var framkvæmdin. Það var engu líkara en að öryrkinn, um leið og hann varð 67 ára, þá var bara ekki að marka það lengur. Halló, þú ert ekki lengur öryrki, þú ert ellilífeyrisþegi og með því ætlum við bara að taka aldurstengdu örorkuuppbótina þína, sem gat skipt þúsundum og aftur þúsundum á mánuði, það var verið að skerða framfærslu þessara einstaklinga um það. Þetta, forseti, er algerlega síðasta sort. Þess vegna er mér mikil gleði að vera með það inni í þessu frumvarpi að við erum að stöðva þetta óréttlæti.“