Á fréttavefnum ff7.is er margt að finna. Þar á meðal frétt af gengi Play.
„Play tapaði rétt tæpum 2 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi samkvæmt nýju uppgjöri en á sama tímabili í fyrra nam tapið 1,4 milljörðum. Stjórnendur Play vöruðu fjárfesta við auknum taprekstri þann 21. júlí sl. og sögðu lakari afkomu að mestu skrifast á þætti sem „félagið hefur ekki áhrif á.“
Var þar vísað til hækkunar krónunnar, viðgerða á flugvél og lakari eftirspurnar eftir flugi yfir Atlantshafið.
Um leið og tap Play eykst þá hækka viðskiptaskuldir. Þannig námu þær um 72 milljónum dollara í lok júní sl. en sú upphæð jafngildir 8,7 milljörðum. Á sama tíma í fyrra var viðskiptaskuldin 47,5 milljónum dollara og í lok síðasta uppgjörstímabils, 31. mars, sl. var skuldin 61 milljón dollara eða 8 milljarðar króna. Dollarinn veiktist töluvert á síðasta ársfjórðungi.
Play átti óbundið lausafé upp á rétt 400 milljónir króna í lok júní en félagið hyggst gefa út skuldabréf fyrir 2,4 milljarða í ágúst ef hluthafafundur samþykkir síðar í þessum mánuði. Um leið batnar lausafjárstaðan en ekki eiginfjárstaðan en hún er neikvæð um nærri 10 milljarða króna.
Skuldbinding Play gagnvart farþegum sem enn eiga eftir að nýta flugmiðana sína hefur hækkað og stóð í lok júní sl. í 55,8 milljónum dollara eða 6,8 milljörðum kr.“