„Ritstjórn Morgunblaðsins telur gagnsæi greinilega svo mikla ógn við fjársterka aðila að bregðast þurfi af afli við áformum stjórnvalda um að varpa skýru ljósi á sjávarútveginn,“ skrifar Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra í Mogga dagsins. „Eigendur blaðsins, að stærstum hluta stórfyrirtæki í sjávarútvegi, þétta raðirnar og pólitísk öfl úr þeim ranni láta til sín taka. Engu að síður er mitt mat að aukið gagnsæi hljóti að vera til góðs. Tortryggni þrífst í leyndarhyggju og vantraust almennings í garð atvinnugreinar á borð við sjávarútveg er óásættanlegt fyrir stjórnvöld og greinina sjálfa. Varðstöðu greinarinnar, stjórnmálafólks og Morgunblaðsins um leynd verður að linna til þess að sjávarútvegurinn fái að njóta sannmælis og forsendur skapist fyrir aukinni sátt.“
Og heldur áfram: „Sum halda því fram að lítið sé að marka skoðanir almennings á sjávarútvegi. Fólk viti einfaldlega ekki nóg. Slík kenningasmíð skilar umræðunni ekki áfram og leggur ekkert til. Almenningur er samfélagið og gæta þarf hagsmuna heildarinnar í hverju skrefi. Ótal atriði í umgjörð um sjávarútveg eru til fyrirmyndar og við þeim þarf ekki að hrófla. Í frumvarpi því sem er í smíðum í mínu ráðuneyti beinum við athygli að því sem þarf að lagfæra en áformum engar kollsteypur. Gagnsæi er þar grundvallarforsenda samfélagslegrar sáttar um sjávarútvegsmál. Sérhagsmunir einstakra útgerðaraðila eða talsmanna þeirra ættu aldrei að yfirskyggja hagsmuni almennings, hvorki á síðum Morgunblaðsins né í almennri umræðu. Stöndum saman um góða vinnu að gagnsæi og látum ekki gamalt afturhald slá okkur út af laginu.“
Umræðugreinar í Morgunblaðinu eru ekki aðgengilegar á vefnum. En svona er grein Svandísar í heild:
Varðstaða um leynd
Sjávarútvegurinn hefur lengi verið bitbein átaka og ljóst er að umtalsvert vantraust ríkir í garð greinarinnar. Besta leiðin til þess að auka traust til hennar en um leið að treysta samkeppnishæfni, verðmætasköpun og réttlæti í kerfinu er að kveikja ljósin.
Nú þegar rúmur mánuður er frá því að stefnumótunarverkefninu Auðlindin okkar lauk með skýrsluskilum hafa línur í umræðunni tekið að skýrast. Bent hefur verið á að íslenskur sjávarútvegur gengur vel á efnahagslega mælikvarða og í samanburði við útveg annarra þjóða. Síðasta ár var eitt það farsælasta í nútímasögu sjávarútvegsins að þessu leyti. Þrátt fyrir gott gengi greindust líka ótal tækifæri og leiðir til meiri árangurs í stefnumótuninni. Eitt felst í ímynd greinarinnar gagnvart almenningi en liður í skýrslugerðinni var stærsta viðhorfskönnun sem gerð hefur verið um álit almennings á ýmsum þáttum stjórnkerfis í sjávarútvegi. Þar kom í ljós að sex sinnum fleiri telja sjávarútveg spilltan en telja hann heiðarlegan. Það er alvarlegt. Til að bregðast við þessu og stuðla að sátt verður ráðist í gerð frumvarps að heildarlögum um sjávarútveg og einn kaflinn látinn fjalla sérstaklega um gagnsæi í greininni. Með lögum verði sköpuð skilyrði til að bæta skráningu og tryggja að stjórnunar- og eignatengsl í greininni liggi fyrir jafnharðan og þau verða til.
Ritstjórn Morgunblaðsins telur gagnsæi greinilega svo mikla ógn við fjársterka aðila að bregðast þurfi af afli við áformum stjórnvalda um að varpa skýru ljósi á sjávarútveginn. Eigendur blaðsins, að stærstum hluta stórfyrirtæki í sjávarútvegi, þétta raðirnar og pólitísk öfl úr þeim ranni láta til sín taka. Engu að síður er mitt mat að aukið gagnsæi hljóti að vera til góðs. Tortryggni þrífst í leyndarhyggju og vantraust almennings í garð atvinnugreinar á borð við sjávarútveg er óásættanlegt fyrir stjórnvöld og greinina sjálfa. Varðstöðu greinarinnar, stjórnmálafólks og Morgunblaðsins um leynd verður að linna til þess að sjávarútvegurinn fái að njóta sannmælis og forsendur skapist fyrir aukinni sátt.
Sum halda því fram að lítið sé að marka skoðanir almennings á sjávarútvegi. Fólk viti einfaldlega ekki nóg. Slík kenningasmíð skilar umræðunni ekki áfram og leggur ekkert til. Almenningur er samfélagið og gæta þarf hagsmuna heildarinnar í hverju skrefi. Ótal atriði í umgjörð um sjávarútveg eru til fyrirmyndar og við þeim þarf ekki að hrófla. Í frumvarpi því sem er í smíðum í mínu ráðuneyti beinum við athygli að því sem þarf að lagfæra en áformum engar kollsteypur. Gagnsæi er þar grundvallarforsenda samfélagslegrar sáttar um sjávarútvegsmál. Sérhagsmunir einstakra útgerðaraðila eða talsmanna þeirra ættu aldrei að yfirskyggja hagsmuni almennings, hvorki á síðum Morgunblaðsins né í almennri umræðu. Stöndum saman um góða vinnu að gagnsæi og látum ekki gamalt afturhald slá okkur út af laginu.