Áfangasigur fyrir Julian Assange – Dómstóll telur rök fyrir að veita áfrýjunarleyfi

Breskur dómstóll úrskurðaði í dag að rök væru fyrir því að Julian Assange, stofnandi Wikileaks, fengi áfrýjað framsalsdómi sínum til Bandaríkjanna. Í úrskurði dómsins segir að í þremur liðum séu líkur til þess að áfrýjun Assange gæti leitt til þess að úrskurðað yrði honum í hag. Úrskurðurinn er stórsigur í áralangri baráttu Assange gegn framsali til Bandaríkjanna.

Bresk stjórnvöld heimiluðu framsal Assange til Bandaríkjanna árið 2022, þar sem hann er ákærður fyrir njósnir, og hefur hann síðan barist fyrir dómstólum gegn því að af framsalinu verði. Dómstóllinn fer fram á að fá fullnægjandi svör frá Bandaríkjunum um hvaða afleiðingar það myndi hafa fyrir Assange yrði hann framseldur. Fáist þau svör ekki verður honum veitt áfrýjunarleyfi. 

„Af þessum sökum verður herra Assange því ekki framseldur á þessari stundu,“ segir í úrskurði dómstólsins. Bandarísk stjórnvöld hafa nú þrjár vikur til að veita fullnægjandi tryggingu fyrir því að Assange njóti verndar fyrsta viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar líkt og bandarískir ríkisborgarar, að hann njóti málfrelsis, að honum verði ekki mismunað á grundvelli þjóðernis síns, og að tryggt verði að ekki verði hægt að dæma hann til dauða. 

Setji bandarísk stjórnvöld fram tryggingar fyrir þessu verður báðum aðilum heimilt að flytja mál sitt að nýju 20. maí fyrir dómstólnum. Lokaákvörðun um áfrýjunarleyfi verður tekin eftir þann málflutning, séu tryggingar Bandaríkjamanna fullnægjandi. 

Saksóknarar í Bandaríkjunum vilja sækja Assange til saka í tengslum við birtingu Wikileaks á leyniskjölum árið 2010. Þó á ekki að sækja hann til saka fyrir birtingu skjalanna heldur fyrir meinta aðstoð við Chelsea Manning, og samsæri með henni, við öflun þeirra með ólögmætum hætti. Manning var dæmd í 35 ára fangelsi vegna málsins en Barack Obama Bandaríkjaforseti náðaði hana á loka dögum sínum í embætti árið 2017, eftir að hún hafði setið í fangelsi í sjö ár. 

Saksóknarar vestra, og gagnrýnendur Assange, halda því fram að með því að leyniskjölunum var lekið hafi lífum Bandaríkjamanna verið teflt í hættu. Stuðningsmenn Assange halda því hins vegar fram að hann sé ofsóttur fyrir að hafa afhjúpað glæpsamlegt atferli Bandaríkjamanna, en í gögnunum sem lekið var mátti meðal annars finna myndbönd af morðum bandarískra hermanna á óbreyttum borgurum í Afganistan og Írak. 

Assange var handtekinn í apríl árið 2019, eftir að Ekvador batt enda á diplómatíska vernd hans í sendiráði sínu í London. Þar hafði hann dvalið í sjö ár, en hann leitaði fyrst á náðir sendiráðsins árið 2012, þá til að forðast framsal til Svíþjóðar þar sem hann var eftirlýstur fyrir kynferðisofbeldi. Hann hefur setið í Belmarsh fangelsinu síðan hann var handtekinn og að sögn vina og fjölskyldu hefur heilsu hans farið mjög hrakandi upp á síðkastið. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí