Þann 10. júlí sendu Bandaríkin og Þýskaland út sameiginlega tilkynningu þar sem segir að Bandaríkin ætla árið 2026 að koma fyrir meðaldrægum eldflaugum í Þýskalandi, þ.á m. Tomahawk stýriflaugum. Ætlunin er að stuðla að svokölluðum fælingarmætti (deterrence).
Tilkynningin var send út á sama tíma og leiðtogafundur NATO var haldinn í Washington.
Ekki er tekið fram hvort að eldflaugarnar muni bera kjarnaodda, en þessar eldflaugar eru fullfærar um að bera kjarnaodda og voru upphaflega hannaðar til þess. Bandaríkin eru þegar með kjarnavopn í Þýskalandi samkvæmt hinni svokölluðu kjarnavopnasamnýtingaráætlun NATO (NATO’s Nuclear Sharing Arrangement).
Þessar eldflaugar voru áður bannaðar samkvæmt samningnum um bann við meðaldrægum eldflaugum (INF Treaty), sem Ronald Reagan undirritaði með Míkhaíl Gorbatsjov árið 1987, en Bandaríkin drógu sig til baka úr samningnum árið 2019.
Ákvörðunin hefur þegar vakið hörð viðbrögð hjá Rússum sem hafa hótað að svara í sömu mynt. Þetta kemur einnig í kjölfar þess að þann 28. júní tilkynnti Vladímír Pútín Rússlandsforseti að Rússland ætlaði að halda áfram að þróa vopn sem áður voru bönnuð samkvæmt INF samningnum. Þetta er vísir að nýju vígbúnaðarkapphlaupi milli stórveldanna, svipað og í kalda stríðinu fyrra. Er sagan að endurtaka sig?
INF samningurinn bannaði öll eldflaugakerfi sem hafa drægni á milli 310 og 3.400 mílur. Tomahawk eldflaugar, sem Bandaríkin segjast núna ætla að koma fyrir í Þýskalandi, drífa um 1.000 mílur, og voru þess vegna bannaðar samkvæmt samningum (þ.e.a.s. ef þeim er skotið á jörðu niðri). En Bandaríkin hafa verið að nota þessar eldflaugar á skipum og kafbátum bandaríska sjóhersins (þar INF samningurinn bannaði ekki notkun sjóhersins á slíkum eldflaugum, heldur aðeins ef þeim er skotið frá landi).
Skýring Bandaríkjanna á að draga sig til baka úr INF samningunum árið 2019 var sú að Rússar hefðu brotið á samningnum með því að þróa 9M729 stýriflaug sem skotið er á jörðu niðri. En Rússar neituðu því að eldflaugin bryti á samningnum og sögðu hana hafa hámarksdrægni upp á 298 mílur.
Rússar sökuðu einnig Bandaríkin um að hafa hugsanlega brotið gegn INF samningnum með því að koma fyrir Aegis Ashore eldflaugavarnakerfum í Rúmeníu og Póllandi. En kerfið notar Mk-41 „vertical launcher“ sem er fær um að skjóta Tomahawk stýriflaug. A leiðtogafundi NATO núna í júlí tilkynntu Bandaríkin að Aegis kerfi þeirra í Póllandi væri nú starfhæft.
Bandaríkin neituðu hinsvegar að semja við Rússa um þessi deilumál og ríkisstjórn Trump dróg sig til baka úr INF samningnum árið 2019.
Raunverulega ástæðan fyrir þessu virðist aftur á móti hafa verið sú að Bandaríkin ætluðu að koma fyrir meðaldrægum eldflaugum í Asíu til að sporna gegn Kína. Bandaríkin hafa nú þegar (í apríl á þessu ári) komið fyrir svokölluðum Typhon „launchers“ á Filippseyjum, sem eru færir um að skjóta Tomahawk stýriflaugum. Þetta er eldflaugakerfi sem var áður bannað samkvæmt INF samningnum. Kína hefur fordæmt þessa ákvörðun harðlega.
Talsmaður kínverska varnarmálaráðuneytisins sagði að þetta „auki verulega hættuna á að stríð brjótist út“ og að þetta „grafi verulega undan friði á svæðinu [í Austur-Asíu]“.
En núna ætla Bandaríkin einnig að koma þessum eldflaugakerfum fyrir í Þýskalandi. Síðast þegar Bandaríkin tóku þessa sömu ákvörðun árið 1979 leiddi það til mikilla mótmæla í Evrópu.
Á 9. áratugnum voru miklar deilar um það að Bandaríkin ætluðu að koma fyrir nákvæmlega sömu eldflaug og nú í Þýskalandi (og öðrum Evrópuríkjum), þ.e.a.s. Tomahawk stýriflaug. En deilurnar á 9. áratugnum snérust bæði um Tomahawk cruise missiles og einnig Pershing II medium-range ballistic missiles.
Á þeim tíma var ákvörðunin (sem hefur verið kölluð NATO Double-Track Decision) kveikjan að mikilli mótmælabylgju sem setti vatn á millu friðarsinna og hreyfingarinnar gegn kjarnavopnum, en sú hreyfing var mjög öflug í Evrópu á 9. áratugnum, eða þangað til að kalda stríðinu lauk.
Þessar miklu deilur um meðaldrægar eldflaugar í Evrópu á 9. áratugnum hafa verið kallaðar Euromissile Crisis. Ætli sama ákvörðunin núna muni leiða til svipaðrar krísu?