Skiptar skoðanir í Þýskalandi um bandarískar eldflaugar

Germany-Missiles

Eins og greint var frá á Samstöðinni hafa Bandaríkin tilkynnt að þau ætli að koma fyrir meðaldrægum eldflaugum í Þýskalandi árið 2026. Þetta eru eldflaugar sem voru áður bannaðar samkvæmt INF samningnum (en Bandaríkin drógu sig til baka úr þeim samningi árið 2019). Þessu var lýst yfir í sameiginlegri tilkynningu Bandaríkjanna og Þýskalands sem var gefin út á meðan leiðtogafundur NATO var haldin í Washington 10. júlí.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, ásamt Joe Biden Bandaríkjaforseta og Jens Stolenberg framkvæmdastjóra NATO á leiðtogafundi NATO í Washington 10. júlí.

En í Þýskalandi eru skiptar skoðanir um þessa ákvörðun. Gagnrýni kemur ekki bara frá vinstri og hægri flokkum á jaðri stjórnmálanna, eins og frá AfD flokknum lengst til hægri og flokki Sahra Wagenknecht lengst til vinstri, heldur einnig frá aðilum í sjálfum stjórnarflokkunum: Sósíaldemókrataflokknum (SPD) og Græningjaflokknum.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands og leiðtogi sósíaldemókrata, hefur varið ákvörðunina og sagt hana „nauðsynlega og mikilvæga“ til að „tryggja frið“ og „fælingarmátt [deterrence]“. Varnarmálaráðherra Þýskalands, Boris Pistorius, sagði jafnframt að þetta muni „stoppa í götin“ á varnargetu Þýskalands, sem er greinilega gloppótt að því er hann telur.

Ákvörðunin er einnig studd af stjórnarandstöðuflokki kristilegra demókrata (CDU), þ.e. flokki Angelu Merkel þegar hún var kanslari. Miðað við miklar óvinsældir núverandi ríkisstjórnar – sem samanstendur af flokkum sósíaldemókrata (SPD), græningja og frjálslyndra (FDP), þ.e.a.s. umferðarljósabandalagið svokallaða (þar sem litir flokkana eru rauður, grænn og gulur) – er talið ansi líklegt að kristilegir demókratar (CDU) verði aftur komnir til valda árið 2026, þ.e.a.s. þegar eldflaugunum verður raunverulega komið fyrir í Þýskalandi samkvæmt áætluninni.

Bandaríkin ætla að koma fyrir meðaldrægum eldflaugum í Þýskalandi, m.a. svokölluðum Tomahawk stýriflaugum.

Gagnrýni frá hægri og vinstri

Mesta andstaðan við ákvörðunina hefur komið frá flokkunum sem eru lengst til hægri og vinstri. Það eru flokkarnir Alternative für Deutschland (AfD), sem er gjarnan kallaður öfgahægriflokkur, vinstriflokkurinn Die Linke, og flokkur Sahra Wagenknecht, Bündnis Sahra Wagenknecht (BSW).

Bæði AfD og BSW eru harðlega á móti vopnasendingum til Úkraínu, og þessir flokkar hafa verið mjög gagnrýnir á það sem þeir segja vera mjög herskáa stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart Rússlandi.

Die Linke hefur lýst því yfir að þessi ákvörðun að koma fyrir bandarískum meðaldrægum eldflaugum í Þýskalandi sé „mjög vafasöm“.

„Scholz kanslari hefur ekki hagsmuni Þýskalands að leiðarljósi,“ sagði Tino Chrupalla, einn af leiðtogum AfD. „Hann er valda varanlegum skaða á milliríkjasambandi Þýskalands og Rússlands, og er að færa okkur til baka í átt að kalda stríðinu, þegar heiminum var skipt í tvær andstæðar blokkir í austri og vestri“, sagði Chrupalla. Hann sagði jafnframt að bandarískar eldflaugar í Þýskalandi muni gera landið að „skotmarki“.

Sahra Wagenknecht

Sahra Wagenknecht, leiðtogi nýja BSW flokksins sem er núna að sækja í sig veðrið í Þýskalandi, sagði að ákvörðunin „eykur hættuna á því að Þýskaland verði að vígvelli í komandi stríði“.

Gagnrýni innan stjórnarflokkanna

Þingflokksformaður sósíaldemókrata (SPD), Rolf Mützenich, hefur gagnrýnt ákvörðunina og segir hana „auka hættuna á ósjálfráðri stigmögnun [unintentional military escalation]“. Hann benti jafnframt á að þessar eldflaugar sem Bandaríkin ætla að koma fyrir í Þýskalandi, nánar tiltekið Tomahawk stýriflaugar, „hafa mjög stuttan viðvörunartíma“ (sem eykur verulega hættuna á stigmögnun).

Annar þingmaður SPD, Ralf Stegner, varaði við „nýju vígbúnaðarkapphlaupi“. Hann segir að „þetta muni ekki gera heiminn öruggari. Þvert á móti erum við að ganga inn í vítahring þar sem heimurinn er orðinn mun hættulegri og margt getur farið úr böndunum“.

Meðlimir í Græningjaflokknum (sem er einn af stjórnarflokkunum í bandalagi Scholz kanslara), hafa einnig gagnrýnt þetta, sagt að þýskur almenningur hefur ekki verið nægilega upplýstur um ákvörðunina, og kröfðust frekari skýringa. Sara Nanni, talskona græningja, gagnrýndi réttlætingar Scholz kanslara á ákvörðuninni, sagði hann ekki hafa útskýrt nægilega vel hverskonar hætta það er sem stafar af Rússlandi sem gerir það nauðsynlegt að koma þessum eldflaugum fyrir í Þýskalandi.

Þingflokksformaður græningja, Katharina Dröge, sagði að Scholz þurfi að „svara þessum spurningum og útskýra þetta fyrir almenningi“.

Annalena Baerbock ver ákvörðunina

Annalena Baerbock

Núna á sunnudag (21. júlí) steig Annalena Baerbock fram til að verja ákvörðunina og segir bandarískar eldflaugar „velkomnar í Þýskalandi“. Hún er núverandi utanríkisráðherra í ríkisstjórninni og kemur úr flokki græningja. Þetta segir hún m.a. til að svara gagnrýni úr röðum sinna eigin flokksmanna, og einnig frá meðlimum hinna stjórnarflokkanna.

„Við verðum að verja okkur og samstarfsaðila okkar í Eystrasaltsríkjunum, við gerum það með því að auka fælingarmátt [deterrence] og með auknum vígbúnaði“, sagði hún.

Græningjaflokkurinn var áður mjög andvígur hernaðaruppbyggingu og var í forystu í friðarhreyfingunni og baráttunni gegn kjarnavopnum, þegar sama ákvörðun Bandaríkjanna um að koma fyrir meðaldrægum eldflaugum í Þýskalandi (sem var tekin árið 1979) leiddi til mikilla mótmæla á 9. áratugnum. Um þetta var fjallað í grein Samstöðvarinnar.


Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí