Hættum að rukka fólk fyrir að kjósa

Skoðun Trausti Breiðfjörð Magnússon 16. maí 2023

Ræddi tillögur Sósíalista í borgarstjórn um gjaldfrjálsan Strætó og akstursþjónustu á kjördag. Aðgengi allra að kjörstað er einn mikilvægasti þátturinn í því að halda uppi lýðræðislegu samfélagi. Ætla að fara yfir málið og hvernig viðbrögð meirihlutans voru.

Hættum að rukka fólk fyrir að kjósa

Eins og ég segi að þá er aðgengi að kjörstað gríðarlega mikilvægt. Við verðum að sjá til þess að allar hindranir séu fjarlægðar á þeim dögum þegar kosið er, þegar almenningur fær að láta rödd sína heyrast í kjörklefanum.

Gjaldtaka á ekki að fara fram í strætó á leið á kjörstað og rukkanir eiga ekki að standa í vegi fyrir því að fólk komist leiðar sinnar á kjörstað. Þess vegna lögðum við Sósíalistar fram þrjár tillögur til að fjarlægja  ákveðnar hindranir.

Tillögur Sósíalista

Fyrsta tillagan sneri að því að Reykjavíkurborg fyrir sitt leyti sjái til þess að allar þær strætóleiðir sem ganga innan borgarinnar verði gjaldfrjálsar á kjördag. Þetta er vel hægt.

Við sjáum að Reykjavík hefur fyrir sitt leyti komið næturstrætó á laggirnar innan borgarinnar. Það er þá gert án aðkomu hinna sveitarfélaganna. Ef viljinn væri fyrir hendi hjá borgarstjórn þá hefði verið hægt að samþykkja tillöguna á fundinum. Það hefði sýnt í verki þann vilja sem við öll ættum að hafa, að engar efnahagslegar hindranir séu á vegi þess að borgarbúar komist á kjörstað.

Nokkrar strætóleiðir ganga einungis innan borgarinnar. Fyrir utan þær eru einnig margar leiðir sem ganga inn í önnur sveitarfélög og eru því ekki einungis Reykjavíkurleiðir. Því sneri önnur tillagan að því að stjórn strætó samþykki að hafa strætó gjaldfrjálsan um allt höfuðborgarsvæðið á kjördag.

Reykjavík getur hér beint því til stjórnar Strætó, sem samanstendur af fulltrúum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að slíkt verði samþykkt. Það eru nefnilega leiðir sem ganga bæði innan Reykjavíkur og í hin sveitarfélögin. Þetta snýst um að Reykjavík styðji að jafnt gangi yfir alla íbúa á höfuðborgarsvæðinu, að gjaldfrjálst sé á öllum strætóleiðum sem fara um borgina á kjördag. 

Þriðja tillagan sem við settum fram, sneri svo að akstursþjónustu borgarinnar. Fatlað fólk reiðir sig á þessa þjónustu til að komast milli staða. Það er mikilvægt að réttur þeirra til kosninga sé tryggður með öllu og engar hindranir séu þar í vegi.

Hér lögðum við einnig til að ókeypis yrði í  Strætó og akstursþjónustu ef fólk þyrfti að kjósa utan kjörfundar. Þetta gildi þannig um allar atkvæðagreiðslur sem geta átt sér stað. Þá daga sem um væri að ræða eru alþingis-, forseta- og borgarstjórnarkosningar. Líka þegar gengið er til þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið málefni.

Borgir um allan heim bjóða upp á gjaldfrjálsan strætó

Margar borgir hafa farið þá leið að bjóða upp á gjaldfrjálsar almenningssamgöngur á kosningadag. Los Angeles, Houston, Dallas og margar aðrar borgir í Bandaríkjunum tryggðu til að mynda ókeypis neðanjarðarlestarferðir og strætó í forsetakosningum 2022. Það sama átti sér stað í Kuala Lumpur, höfuðborg Malasíu í fyrra þegar kosið var til þings. 

Í forsetakosningum í Brasilíu í fyrra, buðu höfuðborgir allra 26 fylkja í landinu upp á þann kost. Auk þess voru 150 fleiri borgir um allt landið sem fetuðu í þeirra fótspor. Á meðal borga sem buðu upp á gjaldfrjálsar almenningssamgöngur í Brasilíu var Sao Paulo sem er fjölmennasta borg landsins. Borgarstjórinn þar Ricardo Nunez, sagði að með því væru borgaryfirvöld að “kinka kolli í átt að lýðræðinu.”

Þarna var borgarstjórinn að taka undir mikilvægi þess að borgaryfirvöld greiði leiðina að kjörstöðum. Að með því að veita gjaldfrjálsar almenningssamgöngur sé borgin að leggja sitt af mörkum til lýðræðisins. 

Andstæðingar lýðræðis á móti gjaldfrjálsum strætó

Það voru þó ekki allir ánægðir með þessi áform í Brasilíu. Úr röðum þáverandi forseta Jair Bolsonaro og stuðningsfólks hans var mikil andstaða við málið. Í fyrstu voru rök þeirra m.a. þau að þetta myndi kosta sveitarfélögin alltof miklar fjárhæðir. En þegar á leið var ljóst að tilgangurinn með andstöðunni var að koma í veg fyrir að stuðningsfólk mótframbjóðandans Lula, skiluðu sér á kjörstað.

Stuðningsfólk hans var nefnilega að stórum hluta til frá tekjulægri hópum og voru því miklar áhyggjur uppi um að ókeypis strætó myndi skera úr um úrslitin. Framboð Bolsonaro krafðist þess aðgerðirnar skyldu dæmdar ólöglegar. En það fór ekki í gegn. 

Við sjáum hér að þau sem treysta ekki vilja fólksins, vilja almennings, hafa sett sig upp á móti því að aðgengi allra sé tryggt að kjörstað. Þetta er einnig þekkt aðferð í Bandaríkjunum þar sem allt er gert til að takmarka aðgengi tiltekinna þjóðfélagshópa að kjörstað.

Meirihlutinn beitir sömu mótrökum og Bolsonaro

Viðbrögð meirihlutans við tillögum Sósíalista komu raunverulega á óvart. Í samtölum fyrir fund fengum við jákvæðar athugasemdir frá borgarfulltrúum innan þeirra raða. En þegar kveikt hafði verið á myndavélunum og málið var komið á dagskrá kvað við annan tón. Flokkar sem gjarnan auglýsa sig sem lýðræðislega og vini mannréttinda töldu aðgerðirnar ekki nauðsynlegar.

Farið var um víðan völl við að afvegaleiða umræðuna. Meðal annars veltu sumir fulltrúar fyrir sér kostnaðinum og töldu ekki tækt að eyða fjármunum borgarinnar í þessar tillögur. Þannig var verið að beita sömu rökum og Jair Bolsonaro gegn gjaldfrjálsum almenningssamgöngum á kjördag.

Pawel Bartoszek steig meðal annars upp til að andmæla sérstaklega öllum almennum hugmyndum um gjaldfrjálsan almennt. Tillagan fjallaði þó ekki á neinn hátt um það, heldur að taka hindranir í burtu á kjördag með því að hafa strætó gjaldfrjálsan þá.

Samantekt

Ef við viljum að Reykjavík geti titlað sig sem borg mannréttinda og lýðræðis, þá ætti hún að stilla sér upp með þeim sem bæta aðgengi að kjörstöðum og sjá til þess að engar hindranir séu á veginum. Það er mikilvægt að öllum íbúum með kosningarétt sé tryggt aðgengi að kjörstað. Fólk á ekki að vera rukkað til að komast leiðar sinnar á kjörstað. Um stjórnarskrárvarinn rétt er að ræða.

Það eru margar borgir um allan heim sem hafa gert þetta, og Reykjavík ætti að vera ein af þeim. Að vera mannréttindaborg, lýðræðisborg og það sem við köllum frjálslynda borg á einmitt að fela í sér aðgerðir til að auðvelda öllum aðgengi að kjörstöðum.       

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí