Húsnæði á að vera til að búa í, ekki til að safna upp og sitja á

Skoðun Trausti Breiðfjörð Magnússon 6. jún 2023

Í Reykjavík er staðan á leigumarkaði afar slæm, eins og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Frá árinu 2011 hefur húsaleiga hækkað 127% meira en verðlag. Að meðaltali borga leigjendur 44% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu, tæplega helming tekna sinna. Og samkvæmt nýlegri rannsókna Barnaheilla búa um 20% barna á leigumarkaði við fátækt. Þessar og aðrar sláandi staðreyndir blasa við leigjendum og samfélaginu okkar. Er þessi staða ásættanlegt? Alls ekki.

Þöggun um stöðu leigjenda

Líkur fólks á að komast úr þeirri stöðu að vera leigjandur eru sáralitlar. Aðeins 0.5 – 2.4% leigjenda eldri en 34 ára hafa komist af leigumarkaði undanfarin ár. Eins og segir í nýútkominni skýrslu samtaka leigjenda: „Það eru meiri líkur á að læknast af ebólu skæðustu pest náttúrunnar, en að leigjendur eldri en 34 ára að komast af leigumarkaði.”

Hvað finnst kjörnu fulltrúum Reykjavíkurborgar um þessa stöðu? Á að humma hana fram af sér? Gera lítið úr henni og láta sem svo að þessi staða sé ekki alvarleg? Það er ótrúlegt hversu þögult talsfólk meirihlutans hefur verið yfir þessum staðreyndum. Hvers vegna tjáir sig enginn þaðan um þessa grafalvarlegu stöðu? Hvers vegna er þöggunin um stöðu leigjenda svona mikil?

Fjárfestar sópa upp eignir

Í húsnæðissáttmála Reykjavíkurborgar við HMS og innviðaráðuneytið er gert ráð fyrir að hafist verði handa við að byggja 2.000 íbúðir á ári á næstu fimm árum og að á hverjum tíma séu til reiðu byggingarhæfar lóðir fyrir allt að 1.500 – 3.000 íbúðir. Á tíu árum er markmiðið að byggja 16.000 íbúðir en þó alltaf í samhengi við þörf á húsnæðismarkaði. 30% íbúðanna verði hagkvæmar á viðráðanlegu verði og 5% félagslegar í eigu sveitarfélagsins.“

Í yfirliti 4. ársfjórðungs 2022 og ársins í heild kemur fram að á árinu 2022 lauk byggingu 1.034 íbúða og 1.062 fullgerðra íbúða. Hér þarf því verulega að gefa í en á sama tíma ekki nóg að byggja, byggja, það þarf að vera félagslega byggt.  Sérstaklega þegar við sjáum að frá árinu 2005 hafa verið byggðar 39.415 íbúðir, en einungis 33% þeirra eða 13.064 íbúðir hafa endað í höndum þeirra sem eru að kaupa sér heimili, hinar til fjárfesta og fyrirtækja. 2/3 alls íbúðarhúsnæðis frá árinu 2005 hefur því verið keypt af fjárfestum.  Þessar tölur eru ótrúlegar.

Við vitum að margar íbúðir sitja auðar hér í Reykjavík. Íbúðir sem eru í eigu aðila sem eiga margar eignir. Það er ánægjulegt að meirihlutinn hafi tekið undir tillögu Sósíalista um að þetta mál verði kannað betur. Við viljum líka að farið verði í aðgerðir, svo ekki sé í boði að safna þeirri grunnþörf upp sem húsnæði er á hendur fjárfesta, á kostnað þeirra sem vantar húsaskjól. Markaðurinn er ekki að fara að leysa málin, hann hefur aukið vandamálið. Húsnæði á að vera til að búa í, ekki til að safna upp og sitja á.

Félagsleg uppbygging er hin sanna lausn

Þannig við sjáum að uppbygging á félagslegum forsendum er sú leið sem myndi bæta stöðu leigjenda og þeirra sem vantar þak yfir höfuðið. Það verður að byggja meira félagslegt, til að fleiri komist inn og skilyrðin fyrir inntöku sé víðari. Það þurfi ekki að komast í gegnum nálarauga í umsóknum, heldur verði staðan með tíð og tíma sú að þau sem séu í þörf komist inn.

Sósíalistar hafa oft nefnt að eiginfjárhlutfall Félagsbústaða sé gríðarlega hátt. Langt umfram það sem gengur og gerist hjá leigufélögum almennt. Það fé má nýta til að hefja stórfellda uppbyggingu félagslegra íbúða. Við getum hafist handa á þúsundum íbúða sem myndu koma gríðarlegum fjölda fólks í öruggt skjól. 

„En hin sveitarfélögin eru að standa sig verr“

Þegar við höfum bent á þessa stöðu, að Reykjavík geti staðið sig betur í húsnæðismálunum, og hlutfall félagslegs húsnæðis sé alltof lágt (5%), þá hefur verið bent á að hin sveitarfélögin séu að standa sig verr en borgin. ÞAU verði að gera betur. Og þess vegna séum við bara sátt og glöð með okkur. Þarna er verið að láta önnur sveitarfélög draga úr væntingum og aðgerðum borgarinnar. 

En spurningarnar er þá þessi: Hvernig er það að hin sveitarfélögin fari að byggja meir að fara að leysa vanda Reykvíkinga? Eiga þau sem hafa búið hér alla tíð að flytja í önnur sveitarfélög? Eiga þau sem búa hér ekki rétt á góðu húsnæði sem þau hafa efni á? 

Stafrænar áætlanir leysa ekki vandann

Þó að það sé gott að hafa hlutina á stafrænu formi, þá er það eitt og sér ekki að fara leysa húsnæðiskreppuna. Við sjáum að stofnanir sem eiga að halda utan um stöðuna gefa upp óraunsanna mynd af stöðunni. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur ítrekað gerst sek um að birta tölur og staðhæfingar um leigumarkaðinn sem stangast á við þeirra eigin mælingar.. 

Dæmi um þetta er þegar stofnunin talaði um að “fleiri vildu vera á leigumarkaði”. Og rataði sú yfirlýsing á forsíður fjölmiðla. Staðreyndin er hins vegar sú að 88% leigjenda vilja ekki vera þarna, en hlutfall þeirra sem vildu vera á leigumarkaði hafði reyndar aukist úr 8% í 11%. Á þennan hátt geta yfirvöld og hinar svokölluðu “óháðu stofnanir” hagrætt sannleikanum á þann hátt að myndin birtist almenningi gífurlega villandi. Áhyggjurnar hér eru að borgin fari að spila sama leikinn. Birta ekki beinlínis ósannindi, heldur skekkja myndina svo mikið að hún verður villandi og skaðleg. 

Stöndum með leigjendum

Okkur ber skylda til að standa með íbúum í húsnæðisþörf. Því leggja Sósíalistar fram aðgerðir leigjendum til hagsbóta. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykki þannig að leita til Samtaka leigjenda og bjóða fram stuðning sinn við markmið þeirra um kaup á íbúðum Heimstaden og útleigu þeirra á kostnaðarverði. Lagt er til að eitt af því sem verði skoðað og rætt sé stuðningur sem gæti t.a.m. verið í formi fjárhagslegs stuðnings vegna kaupa á íbúðum í Reykjavík.

Snemma í maí sl. birtust fregnir þess efnis að leigufélagið Heimstaden ætli sér að hörfa frá Íslandi og muni selja um 1700 íbúðir. Þetta er mikið reiðarslag fyrir leigjendur þar sem fyrirséð er að fjöldi íbúða hverfi af leigumarkaði. Samtök leigjenda brugðust við með því að óska eftir viðræðum við stjórn Heimstaden um kaup á íbúðum félagsins svo þau geti áfram verið í útleigu. Leigjendasamtökin tala fyrir því að íbúðirnar verði leigðar út á kostnaðarverði.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí