Aðförin að íslenskunni


Skoðun Finnur Guðmundarson Olguson 28. maí 2024

Ýmsir hafa farið hátt í umræðunni nýlega í tengslum við svokallaða hnignun íslensks máls. Er þá verið að einblína á notkun sumra á kynhlutlausum fornöfnum á borð við „öll“ í stað fornafnsins í karlkyni: „allir“. Einhverjir vilja meina að þarna sé á ferðinni nokkurs konar samsæri jafnréttissinna sem hafi slík ítök á RÚV að fréttamenn hafi verið skikkaðir af yfirstjórninni til að tala og rita á ákveðinn hátt. Eru slíkar hugleiðingar eftirlæti formanns Miðflokksins sem og ritstjóra Morgunblaðsins, enda aðallega til þess fallnar að þétta raðir íhaldsmanna sem virðast helst geta sameinast um það sem fer hvað mest í taugarnar á þeim hverju sinni. Ef Ríkisútvarpið, hinsegin samfélagið og femínistar koma að kokteilnum er hann auðvitað bestur til framreiðslu, þ.e.a.s. ef ekki er hægt að bendla góða fólkið, ESB og Dag B. Eggertsson einhvern veginn við málið. Hefur kveðið svo rammt að þessum málflutningi að nú virðist ráðherra menningarmála, fyrir kaldhæðni örlaganna, ætla að skikka starfsmenn RÚV til að hætta að tala á þann hátt sem samsærissmiðir hafa ímyndað sér að RÚV hafi skikkað starfsmenn sína til að nota, þar eð talsmáti þeirra hugnast formanni Miðflokksins og hans kjósendum illa. Á ég að hafa samband við Kafka eða Orwell? Það er erfitt að segja.

Að því sögðu er ótrúlega upplífgandi að taka þátt í lifandi samræðu um tungumálið. Mætti það vera sem oftast. Gallinn er hins vegar sá að sjónarhorn og viðfang þessa tiltekna umræðuefnis er þröngt og byggist gjarnan á upphrópunum og fordómum, frekar en einlægri löngun til að kynnast hinni hlið málsins. Ekki er hægt að segja að slíkt sé einsdæmi hér á eyjunni. Stærsti ljóður á málflutningi íhaldssinna þegar kemur að málbreytingum, er þó sá hvað hann hundsar algjörlega miklu stærri áhrifavalda sem hafa, að mínu mati og margra, haft mun meiri og afdrifaríkari hnignunaráhrif á það hvernig við tölum íslensku. Á meðan Miðflokks„fólk“ grætur beiskum tárum í heitum pottum landsins yfir því að „öll“ séu boðin velkomin að viðtækjunum af hálfu RÚV, hefur lestri og lesskilningi íslenskra barna til dæmis farið stöðugt aftur svo eftir er tekið. Merkja má varanlegar breytingar og einföldun á íslenskri málfræði í átt til þeirrar engilsaxnesku. Fréttum á netinu er dælt út á slíkum hraða að prófarkalestur, síðasta vörn lesandans gagnvart óskrifandi blaðamönnum, er talinn mega missa sín og við fáum fyrirsagnir á borð við þessa, borna á borð óbreytta úr talmáli: „Þegar við skorum að þá er gaman“. Hvar er Sigmundur?

Hverju er að þakka það hversu berskjaldað íslenskt samfélag er fyrir þessari þróun? Ég hef ekki heyrt formann Miðflokksins eða ritstjóra Morgunblaðsins velta því fyrir sér í mörgum orðum enda svarið eflaust ekki þeim að skapi, hafandi verið við stjórnvölinn meira og minna síðustu áratugi beint og óbeint. Ég gæti í fljótu bragði bent á eftirfarandi: Í fyrsta lagi hefur hömlulaus innflutningur bandarískrar menningar vafalaust haft gríðarleg áhrif. Ennfremur hafa samfélagslegar breytingar sem hafa orðið til þess að yngri kynslóðir eiga í litlum eða engum samskiptum við þær elstu komið í veg fyrir að þær geti numið af þeim orðaforða, orðtök og máltæki sem fyrir vikið glatast. Að auki er sú menningar- og menntaandúð sem má bera kennsl á meðal lægstu sem hæstu stétta landsins (og popúlískir stjórnmálamenn hafa reynt að nýta sér af fullkomnu ábyrgðarleysi til að skora stig meðal ákveðinna kjósenda) mein sem Íslendingar ætla seint að kveða í kútinn, gerir lítið úr bóklestri og meðfæddri unun barna og unglinga af menningu og lærdómi. Síðast en ekki síst hefur ítrekað verið bent á gapandi gloppurnar í menntakerfinu; illa launaða vinnu undir miklu álagi, skort á stuðningi fyrir nemendur, fáa móttökubekki fyrir börn innflytjenda, litla íslenskukennslu o.s.fr.v., gloppur sem starfsfólk reynir að fylla upp í af bestu getu en stjórnmálamenn hafa helst vakið máls á til þess að geta fengið að kasta rýrð á innflytjendur, enda fá tækifæri vannýtt í þeim tilgangi.

Hættan er sú, þegar allar þessar breytur koma saman, að við hættum hreinlega að skilja hvort annað og neyðumst því til að tjá okkur á síeinfaldara og litlausara máli til að tryggja að viðmælandi okkar hafi möguleika á að ná utan um það sem við viljum koma á framfæri. Ólæs og óskrifandi börn verða ólæst og óskrifandi fullorðið fólk sem er ófært um að koma leyndardómum og margræðni tungumálsins áfram til næstu kynslóðar og svo koll af kolli þar til við stöndum uppi með beinagrindarorðaforða, rétt nóg til að panta kaffi og afþakka kvittun.

Vafalaust eru margar og flóknar ástæður fyrir því að íslenskan á að ýmsu leyti undir högg að sækja og það er ekki ætlun mín hér að bókfæra hverja og eina eða leggja dóm á vægi þeirra. Ég vil hins vegar benda á að við ættum að gera það og bregðast við á viðeigandi hátt. Á þeirri vegferð er allt upphlaupsjarm um að femínistar og hinsegin samfélagið ætli sér að eyðileggja íslenskuna steinn í götu raunverulegrar og einlægrar rannsóknar á hinu veigameira. Ef Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og skoðanasystkinum hans er í raun og veru annt um íslenskuna þurfa þau að fara að einbeita sér að allt öðrum atriðum en tilraunum í átt að kynhlutleysi afmarkaðra orðasambanda. En það er auðvitað kjarni málsins, þeim er sama um allt þetta hitt, því það býður ekki upp á að koma höggi á ímyndaða óvini þeirra heldur gerir kröfu um samstillt átak, þrotlausa vinnu, forgangsröðun fjármuna, uppbyggingarstarfsemi og samstarf frekar en niðurrif og sundrung. Þá er auðvitað þægilegra að pota í RÚV án þess að standa upp úr stólnum.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí