Af átökum og hungursneyð í Eþíópíu

Skoðun Brynjólfur Þorvarðsson 16. feb 2024

Tilefni þessa pistils er grein sem Freyr Rögnvaldsson birti á Samstöðinni í fyrradag, miðvikudaginn 14. febrúar undir titlinum „Stjórnarhermenn fremja fjöldamorð í Eþíópíu – Hungursneyð yfirvofandi“.

Undirritaður er búsettur í Amhara héraði í Eþíópíu og hefur fylgst vel með gangi mála hér og í stuttu máli er grein Freys að mestu rétt, en þó á köflum furðulega röng. En ekki er við hann að sakast, staðan hér í Eþíópíu (eins og kannski alls staðar?) er hvorki einföld né auðskiljanleg og Freyr getur ekki gert betur en þær heimildir sem hann hefur aðgang að.

Það virðist vera einkennandi fyrir vestræna fjölmiðlun að snúa öllu á versta veg, gera sem mest úr því neikvæða og spá engu nema hörmungum, ófriði og óáran. Ég spjallaði við kunningja minn á dögunum, sem fylgist vel með málefnum hér í Eþíópíu, og það sem hann hafði séð í vestrænum fjölmiðlum var allt á sömu bókina lært – versnandi ástand, aukinn ófriður, spenna eykst í samskiptum milli ríkja, stríð vofir yfir, hungursneyð á næsta leyti ef ekki þegar hafin, of margir íbúar í landi án náttúruauðlinda og þannig mætti lengi telja. Auðvitað ekki stafkrókur um neitt sem jákvætt gæti talist, ekki frekar en í fréttum frá öðrum löndum.

Er hungursneyð í Eþíópíu?

Fyrst af íbúum og auðlindum. Íbúafjöldi í Eþíópíu er líklega að nálgast 130 milljónirnar, þótt enginn viti það með vissu. Fjölgun frá ári til árs er minnst 2.5% en yfir 75% íbúa býr á landsbyggðinni og lifir af landbúnaði. Rúm 60% íbúa hafa ekki aðgang að rafmagni, síma né eru í bílfæru vegasambandi og stunda landbúnað með uxadregnum örðum án vökvunar, en þó í sívaxandi mæli með tilbúnum áburði sem fluttur er til landsins dýrum dómum og dreift um öll fjöll og afdali með öllum tiltækum ráðum, á meðan þurrkur ríkir yfir vetrarmánuði og fram á vor.

Náttúruaðlindir eru hér eru með ólíkindum, og má þar fyrst telja möguleika til matvælaræktunar. Notkun vatnsveitna eykst hröðum skrefum þótt enn sé mjög langt í land með að landbúnaður almennt nýti sér áveitur. Eþíópía er núna sjálfri sér næg í matvælaframleiðslu í fyrsta skipti í marga áratugi, og er farin að flytja út matvæli einkum til Asíulanda og Arabalanda við Persaflóa en þar horfa menn mjög til Afríkuhorns sem framtíðar matarkistu fyrir ört vaxandi stórborgir á borð við Dubai og Abu Dhabi.

En Eþíópía hentar ekki öll jafn vel til akuryrkju, og fátækt fólk sem höktir uppi á fjöllum eða í afdölum á þurrkasvæðum, eða jafnvel í eyðimerkum í austurhluta landsins, er oft á barmi hungurs og vannæringar. Dreifing matvæla er öflug og að mestu á vegum ríkisstjórnarinnar, en vegaleysi gerir dreifingu erfiðari en ella. Engin þau átök eru í landinu sem stöðva matvæladreifingu eða dreifingu á áburði sem núna stendur sem hæst, og því má telja litlar líkur á því að um raunverulega hungursneyð sé að ræða neins staðar.

Mynd tekin af svölunum 15. febrúar, frá Bahir Dar í Amhara fylki. Eldsneytisflutningabíll fyrir miðri mynd. Það er enginn vöruskortur í Bahir Dar og verðlag eðlilegt, sem bendir til þess að vegasamgöngur séu opnar og að átök, ef einhver eru, einskorðist við veglaus svæði. Opinberar innlendar fréttaveitur flytja aldrei raunverulegar fréttir, og sjálfstæðar fréttaveitur (sem og erlendar) byggja að mestu á sögusögnum og bloggfærslum útlendinga sem hafa gaman af að hræra í innanlandsmálum annarra landa af því að foreldrar þeirra eða afar og ömmur komu þaðan.

Tölur sem hafa verið að birtast (og eru endurteknar í grein Freys) eru dæmigerður hræðsluáróður stofnana sem hafa lifibrauð sitt af að sem mestar hörmungar séu sem víðast í sem fátækustum löndum. Fullyrðingar um að 20 milljón manns þurfi neyðaraðstoð en aðeins þriðjungur þeirra sé að fá þá aðstoð eru hlægileg vitleysa, jafnvel þótt virðulegar stofnanir á borð við Samræmingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum, OCHA, haldi því fram. Núverandi matvælakrísa er í fjöllunum í norðanverðu Tígraí héraði þar sem íbúar ná líklega ekki milljón manns (íbúar Tígraí eru 5 milljónir og búa ýmist í borgum eða á betri landbúnaðarsvæðum syðst og austast). En ef allir þeir sem búa á jaðarsvæðum í Eþíópíu þar sem landbúnaður er erfiður og þar sem úrkomubrestur getur leitt af sér matvælaskort eru taldir þá er kannski hægt að komast í 10 milljónir með miklum vilja.

Hvernig þessar stofnanir komast upp í 20 milljónir er umhugsunarefni – fyrir ekki svo löngu sá ég grein í BBC halda því fram að 5 milljónir manna væru að drukkna í Sómalíu vegna óvæntra flóða, og vísað var í aðra grein á BBC sem fjallaði um flóð í Sómalíu á svæði þar sem um 50.000 manns bjuggu. Á svipuðum tíma voru stofanir SÞ að halda því fram að allt að 40 milljónir manna á Afríkuhorni væru að við það að svelta vegna þurka. Sú tala er margfalt meiri en allir íbúar þurrkasvæðanna: Djíbúti og Sómalíu, austuhluta Eþíópíu og aorðurausturhluta Kenýa. Hverjir skálda eiginlega upp þessar tölur?

Bann við innflutningi bensínbíla?

Nýlegar furðufréttir um bann við innflutningi bifreiða annarra en rafmagnsbifreiða geta kannski leitt hugann að þeirri gríðarlegu orkuauðlind sem Eþíópía býr við. Nýja stórvirkjunin GERD við landamærin að Súdan kemst að fullu í gang núna í sumar, og verður tíu sinnum stærri en Kárahnjúkavirkjun. Kínverskir rafmyntanámumenn sem eru landflótta úr eigin heimalandi (Kínastjórn hefur bannað slíka starfsemi þar) eru þegar byrjaðir að senda gáma af tölvubúnaði á framkvæmdasvæðið og ætla sér að kaupa eins mikið rafmagn og hægt er að framleiða fyrstu árin á meðan verið er að koma dreifikerfi í gagnið. Súdanstjórn, sem var væntanlegur stórkaupandi, er óstarfhæf, en ríkisstjórnir Úganda og Kenýa horfa vonaraugum til raforkukaupa og verið er að leggja háspennulínur þangað. Aðrar 5 virkjanir eru fyrirhugaðar í Nílardal ofan við GERD, og líklega að jafnaði hvor um sig svipaðar að stærð og GERD hvað orkuöflun varðar.

Götumynd frá Addis Ababa fyrir um mánuði síðan. Ef vel er að gáð má sjá gamla Lödu blámálaða, með rýmdýnu á þakinu. Lödur eru algengar hér sem leigubílar en nýlega lýstu rússnesk yfirvöld því yfir að fyrsta Ladaverksmiðjan utan Rússlands verði reist í Eþíópíu. Það þarf ekki að bíða lengi eftir að sjá rafmagnsbíla, vinsælastir eru bílar framleiddir í Kína undir merkjum VW – og víst ekki alveg í fullri sátt við þá síðarnefndu.

Vindorka og sólarorka er að ryðja sér til rúms í afskekktari svæðum, en gengur hægt vegna mikils stofnkostnaðar. Jarðvarmi er mikill um miðbik landsins og hafa íslendingar tekið þátt í uppbyggingu jarðvarmavirkjana þar. Olíu og gas er líklega að finna undir austurhluta landsins, nyrst og vestast eru ríkar gullnámur og líklegt talið að aðrir málmar finnist þar, t.d. var nýlega verið að uppgötva mikið magn Líþíums sem notað er í rafhlöður og mjög eftirsótt. Námugröftur er þegar að hefjast. Það er varla hægt að hugsa sér land með meiri náttúruauðlindir en Eþíópíu.

Skógrækt er hér í gríðarlegri uppsveiflu og væri efni í aðra grein. Þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum 2018 í lýðræðisbyltingu sem þá var, hófst mikið skógræktarátak. Ríkisstjórnin heldur því fram að um 4-5 milljarðir trjáplantna séu gróðursettar á ári hverju, og að á þessu ári verði heildartalan komin í 30 milljarða. Um 80% græðlinga lifir að sögn af fyrsta árið, og þessi mikla aukning skóglendis er þegar farin að sjást á gervihnattamyndum. Stór og vaxandi hluti þessara trjáa eru nytjatré (einkum Eukalyptus sem notaður er í hvers kyns byggingarframkvæmdir) og ávaxtatré ýmis konar. Þar ber avókadó og kaffi hæst en hér er hægt að rækta nánast hvað sem er sem á annað borð vex úr jörðu.

Og langstærsta auðlindini er auðvitað fólkið sjálft. Þótt enn sé langt í land þá er menntun hér öflug og mikill fjöldi háskólamenntaðra útskrifast á hverju ári. Sjálfur rek ég hugbúnaðarfyrirtæki hér og gæði starfsmanna eru mjög mikil. Eþíópískir starsfmenn eru vel menntaðir, hugsa sjálfstætt, eru duglegir og áhugasamir og áreiðanlegir. Og ef ég horfi fram af svölunum sé ég aragrúa fólks í alls kyns viðskiptum, alls staðar er verið að byggja hús og leggja vegi og atvinnulífið allt virðist í miklum blóma.

En hvað með þetta bann við bensínbílum? Jarðefnaeldsneyti er innflutt og Eþíópía, eins og nánast öll önnur þróunarlönd og þótt víðar væri leitað, býr við mikinn skort á erlendum gjaldeyri. Samningaviðræður sem nú standa yfir við Alþjóðabankann og aðra erlenda skuldunauta eiga að ljúka í mars og munu mjög líklega leiða til þess að ríkisstjórnin muni neyðast til að aflétta gjaldeyrishömlur sem núna eru við lýði. En þá er bara að finna aðrar hömlur, svo sem að banna einstaklingum innflutning á bifreiðum með jarðefnaeldsneyti, alla vega ef menn vilja fara opinberar leiðir. Svartamarkaðsbraskarar geta áfram gert eins og þeim sýnist. En rafmagnsbílar eru reyndar þegar orðnir algeng sjón hér eins og annars staðar, enda rafmagnsverð með því lægsta sem þekkist.

Átök og fjöldamorð?

Grein Freys fjallar að miklu um dráp stjórnarhersins á fleiri tugum óbreyttra borgara í átökum í Amhara héraði. Það er í sjálfu sér engin ástæða til að efast um sannleiksgildi þeirra frétta, hér í Eþíópíu er víða að finna vopnuð átök og stjórnarherinn er ekki endilega skipaður skátadrengjum eingöngu frekar en aðrir herir annars staðar.

Ríkisstjórnin hefur reyndar mótmælt þessum ásökunum, sem koma frá Ethiopian Human Rights Watch sem er sjálfstætt starfandi stofnun, fjármögnuð af ríkisstjórninni, en þykir mjög áreiðanleg. Þegar óvinurinn er oftar en ekki án einkennisklæðnaðar getur verið erfitt að skera úr um hvort um óbreytta borgara sé að ræða eða ekki, en þetta er langt í frá í fyrsta skipti sem ásakanir um aftökur án dóms og laga hafa sprottið upp í yfirstandandi átökum í Amhara fylki. Sjálfur þekki ég vel til í Lalibela og fæ þaðan fréttir beint. Þar voru einhverjir tugir drepnir fyrir nokkrum mánuðum en rataði ekki í fréttir hvorki innanlands né utan.

Eins og margir muna hófst hér stríð í lok árs 2020, þegar fyrrum stjórnarherrar, forsprakkar TPLF samtakanna, ákváðu að reyna að endurheimta fyrri völd í landinu, með stuðningi afla innan Bandarísks stjórnkerfis og meðal stjórnmálastétta margra annarra vesturlanda, sem og innan Sameinuðu Þjóðanna. TPLF reyndi ítrekað að ráðast á nágrannahéruð og voru lítið að hugsa um mannréttindi, en það fannst vestrænum fjölmiðlum bara flott. Þegar þeir virtust vera að reyna að berja sér leið til höfuðborgarinnar Addis Ababa reyndu ríkisstjórnir BNA og margra NATO landa að æsa upp til flótta úr höfuðborginni, og starfsmenn SÞ í Addis lögðu sitt að mörkum. Framkoma þessara yfirlýstu forsprakka lýðræðs og lögræðis í heiminum hafi hér (sem oft áður) sýnt tvískinnunginn sem býr að baki yfirlætinu.

Stjórnarhernum tókst að lokum að gjörsigra vopnaðar sveitir TPLF manna, en BNA stjórn lagði mikla áherslu a að samið yrði um frið við TPLF og þeim fyrirgefið landráðin. Friðarsamningarnir í Pretoríu voru undirritaðir í árslok 2022 og forsprakkar TPLF sluppu með skrekkinn. Dr. Debretsion Gebremichael, sem af flestum er talinn helsti höfundur stríðsins, er núna aftur orðinn æðsti maður í Tígraí og mætti nýlega á fund með forsætisráðherra Dr. Abiy til að heimta afvopnun vopnaðra sveita í Eþíópíu (sem er kjarna atriði Pretoríusamningsins) og að Tígraí hérað fái aftur yfirráð yfir því sem þeir kalla Vestur Tígraí en aðrir kalla Welkeit og er sem stendur undir yfirrráðum einhverra Amhara sveita sem ekki er ljóst hverjar eru, en með fullþingi ríkisstjórnarinnar að því er virðist. Enda vilja fæstir sjá TPLF komast yfir Vestur Tígraí og fá þar með aðgang að landamærunum að Súdan. Friðarsamkomulagið segir ekkert til um hvað gera skuli.

Tígraí hérað er uppspretta vandræða, og leiðtogar þeirra eru duglegir að komast í erlenda fjölmiðla. Grænu svæðin sýna nokkurn veginn hvar landbúnaður er fýsilegur í þessum heimshluta. Græni vesturhluti Tígraí flkis (rauðu útlínurnar efst til vinstri) er á valdi vopnaðra sveita frá Amhara fylki og hafa verið frá því á fyrstu viku stríðsins 2020. Amhara fylki er nokkurn veginn svæðið sunnan Tígraí en norðan Addis Ababa.

Pretoríusamningurinn og framkvæmd hans

Friðarsamningurinn sem batt enda á stríðið sem TPLF efndi til og gjörtapaði að lokum segir ekki margt haldbært. Nánast allur samningurinn snýr að því hvað TPLF á að gera (viðurkenna ríkisstjórnina, leggja niður vopn osfrv.) en ein klausan sem fór framhjá mörgum í upphafi virðist í raun vera aðal atriðið: Samningurinn lýsir því yfir að Eþíópía eigi einungis að vera með eina stofnun sem sér um varnir landsins – Eþíópíski herinn, EDF (Ethiopian Defence Force). Allar aðrar vopnaðar fylkingar eigi að leggja niður vopn og leysa upp.

Forsaga þessarar klausu er sú að samkvæmt stjórnarskrá og lögum Eþíópíu þá fara fylkin með löggæslu hvert fyrir sig, en ríkisstjórnin sér um að halda úti her og alríkislögreglu. Á meðan á valdatíma TPLF stóð dróg ríkisstjórnin viljandi tennurnar úr hernum (sem var að langmestu leyti staðsettur í Tígraí vegna ófriðar við Eritreu), en TPLF notaði um leið sömu aðferð og Göbbels heitinn þegar hann stofnaði SS sveitirnar innan þýsku lögreglunnar: TPLF byggði upp gríðarlega öfluga „sérsveit lögreglu“, sem var í raun ekkert annað en herlið Tígraí fylkis. Þegar stríðið hófst héldu þeir því sjálfir fram að þeir væru með 270.000 manns undir vopnum, á sama tíma og Eþíópíuher taldi 70.000 manns, og langflestir staðsettir í Tígraí fylki. Fyrstu dagar stríðsins gengu enda út á að ráðast gegn Eþíópíuher í herbúðum í Tígraí.

Uppbygging sérsveita Tígraí héraðs var ekkert leyndarmál. En það sem virðist hafa farið framhjá mönnum var að fylkisstjórn Amhara fylkis var á fullu að leika sama leikinn, enda hefur það lengi verið yfirlýst markmið TPLF að hálft Amhara fylki og hálf Eritrea eigi að heyra undir Tígraí. Bæði fylkisstjórn Amhara og ríkisstjórn Eritreu telja TPLF vera þeirra mesta ógn. Þegar stríðið hófst 2020 kom það verulega á óvart að „sérsveitir lögreglu“ Amhara fylkis, fylkisher Amhara, reyndist bæði verulega fjölmennur og öflugur, og náði undir sig vesturhluta Tígraí strax á fyrstu viku stríðsins.

Hvernig fóru menn að því að fjármagna þessa fylkisheri? TPLF var auðvitað búið að blóðmjólka landið allt frá valdatöku þeirra 1991, talið er að þeir hafi komið minnst 50 milljörðum Bandaríkjadala úr landi, en þær upphæðir sem þeir söfnuðu í gáma heima í héraði í reiðufé hafa ekki verið neinir smáaurar. Fylki sem telur 5% íbúa eins fátækasta lands í heimi fer varla að byggja upp 270.000 manna herlið nema eitthvað gruggugt sé á seyði.

Fylkisher Amhara fylkis var trúlega aldrei eins stór og sá í Tígraí, en líklega vel rúmlega 100.000 manns. Íbúar Amhara fylkis eru fimmfalt fleiri en Tígraí fylkis, en höfðu ekki sama aðgang að peningum. Fjárveitingum frá Alríkisstjórninni, sem nota átti í almenna stjórnsýslu, virðist hafa verið beint í ríkum mæli í þessar sérsveitir, kannski fjórðungur eða þriðjungur tekna fylkisstjórnarinnar var nýttur með þessum hætti, líklega strax frá 2018. Ekki má heldur gleyma að fjöldi fyrrum Eþíópíubúa víðs vegar um heim eru mjög duglegir að skipta sér af innanríkismálum hér, oft á forsendum þjóðernisstefnu, og hafa veitt peningum hingað.

Fano sveitir hvað?

Aðrar fylkisstjórnir höfðu farið svipaðar leiðir en ekki í sama mæli og Amhara og Tígraí fylki. Engu að síður voru fylkisherir út um allar koppagrundir og yfirmaður Eþíópíuhers kvartaði undan því að ef Egyptar myndu ráðast inn í landið myndu þeir ekki geta greint þá frá hinum eða þessum fylkishernum enda takmarkað hversu mikla fjölbreytni er hægt að hafa í felulituðum hermannabúningum.

Vopnaðir menn á vappi í Bahir Dar borg fyrir um tveimur árum, þegar stríðið gegn TPLF stóð sem hæst. Ekki er gott að segja hvaða sveitir þetta eru (og ekki lagði ljósmyndari í að spyrja þá nánar), en líklega eru þetta forsprakkar Fano samtakanna, eða förunautar forsprakka, sem höfðu verið boðaðir til fundar með forsvarsmönnum fylkisstjórnarinnar um þetta leyti. Vopn og vopnaðir menn, í ýmis konar einkennisbúningum eða ekki, eru algeng sjón í Amhara fylki, en hefur þó farið mjög fækkandi síðustu mánuði sem ber vott um batnandi ástand í öryggismálum.

Auk þessara fylkisherja eru ýmsar meira eða minna ólöglegar hersveitir að finna. Helstar þeirra eru OLF skæruliðasveitir í vesturhluta Orómó fylkis, í vestur frá höfuðborginni Addis Ababa, og að mati ríkisstjórnar BNA stærsta ógn við stöðugleika í landinu. Ríkisstjórnin hefur lengi stundað blóðugan hernað gegn þeim, en stuðningur við þá virðist vera lítill sem enginn innanlands, en erlendir aðilar (Egyptar auðvitað, það er sjálfgefið að þeir standi á bak við allt sem illa gengur í Eþíópíu) virðast hafa haldið þeim gangandi, þótt vísbendingar séu um að heldur sé að fjara undan þeim stuðningi.

Bændur í Amhara fylki hafa lengi bundist óformlegum varnarsamtökum sem nefnast Fano. Allir sem vettlingi geta valdið eiga Kalashnikoff hríðskotariffil og eru reiðubúnir að verja heimili sín. Þegar TPLF réðst inn í Amhara fylki 2020 og 2021 lentu þeir illa í Fano liðum þegar þeir reyndu að fara fjallabaksleiðir – en Fano er ekki formlegt herlið og bændur fara sjaldan langt frá bústofni sínum.

Þegar ríkisstjórnin gaf út fyrirskipun um mitt síðasta ár um að leggja ætti niður fylkisheri í landinu (og var auðvitað fyrst og fremst beint gegn fylkisherjum Tígraí og Amhara) þá brugðust margir hér í Amhara fylki illa við og töldu þetta gert til höfuðs Amhara búum. Svo virðist sem allt að þriðjungur fylkishersins hafi neitað fyrirskipun ríkisstjórnarinnar og flúið til fjalla. Stuttu seinna hófu þeir hernaðarátök á nokkrum stöðum og tóku um leið upp merkimiða Fano, hefðbundinna verjenda íbúa Amhara. Þar nýttu þeir sér vinsældir Fano samtakanna, en stjórnarherinn hefur átt í vandræðum með að greina á milli og einhver átök hafa orðið við „hefðbundnar“ Fano sveitir. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ekki fyrirskipað afvopnum Fano enda ekki um samtök með miðstýringu að ræða sem gæti ógnað stöðugleika ríkisins. Fyrr en núna að fyrrum fylkishermenn undir einhverjum ónefndum leiðtogum hefur ákveðið að kalla sig Fano.

Almenningur í Amhara fylki virðist hafa samúð með þessum uppreisnarmönnum (þó erfitt sé um það að segja, engar skoðanakannanir eru haldnar hér), en hernaðarmáttur þessara nýju Fano liða virðist lítill sem enginn. Þeim tókst að trufla samgöngur syðst í Amhara fylki (jafnvel í samvinnu við OLF), og átök urðu í norðurhluta Amhara fylkis, t.d. var barist nokkrum sinnum í kringum Lalibela sem er miðpunktur Amharískrar þjóðernistilfinningar. Einnig urðu átök í borgunum Gondar, Debre Tabor og Debre Markos, en stóð stutt og án mikils mannfalls.

Þessum sveitum virðist aldrei hafa orðið ágengt neins staðar. Undirritaður flúði Bahir Dar borg um miðjan ágúst síðastliðinn, enda voru Fanó liðar að hóta innrás í borgina. Sú innrás mistókst algjörlega og fjaraði út eftir 2-3 daga. Sömu sögu var að segja annars staðar í Amhara fylki. Hér í Bahir Dar borg, höfuðborg Amhara fylkis, hurfu bananar úr búðum í tæpa viku um miðjan ágúst, en bananar er ágætis viðmið – þeir eru allir fluttir landleiðina frá suðurhluta Eþíópíu og birgðir endast ekki nema örfáa daga. Síðan þeir birtust aftur hefur enginn vöruskortur verið hér, allur aðflutningur landleiðina gengur eins og venjulega – en ekki endilega átakalaust, vörubílalestir hafa á stundum þurft að vera með herlið sér til varnar, og almenningssamgöngur milli borga hafa ítrekað lagst niður vegna sögusagna um átök. En einungis tímabundið, og á afmörkuðum svæðum.

Í desember síðastliðnum bauð ríkisstjórnin sakaruppgjöf og bauð öllum vopnuðum sveitum í Amhara fylki að gefa sig fram við yfirvöld. Talsverður fjöldi svaraði kallinu, ekki er alveg ljóst hversu margir en talan 5000 er almennt talin sennileg. Líklega er það um helmingur eða þriðjungur þeirra sem þá voru undir vopnum víðsvegar um fylkið og kölluðu sig Fano en áttu uppruna sinn í fylkishernum, „sérsveitum lögreglu“.

Þessi uppreisn virðist vera að fjara út, enda algjörlega óljóst hvað þessar sveitir vilja eða hverjir séu að fjármagna þær. Allir háskólar í fylkinu hafa hafið starfsemi að nýju þrátt fyrir hótanir Fano um að þeir muni koma í veg fyrir að námsmenn ferðist til borganna. Það veit enginn hver hin endanlega niðurstaða muni verða, sumir gera því skóna að einhverjar samningaviðræður séu í gangi en það er alls ekki víst – forsætisráðherrann Dr. Abiy virðist ekki vera sérlega linur þegar kemur að því semja við menn sem grípa til vopna gegn ríkisstjórn hans.

Af hverju núna?

Eþíópía hefur verið meira í fréttum síðustu vikur en marga mánuðina þar á undan – og samt hefur ekkert verulega breyst hér, engin staða sem fer versnandi, engin átök sem eru verri en það sem á undan hefur gengið. Kannski frekar þvert á móti, rigningar á erfiðustu þurrkasvæðunum austast hafa loksins skilað sér (og þar með dregið verulega úr fjölda þeirra sem voru við hungurmörk), átökin við OLF virðast vera að skila árangri, uppreisnin í Amhara fylki virðast vera að fjara út. Samskipti Eþíópíu við ríkisstjórnir um allan heim hafa aldrei verið betri, Evrópulönd og BNA reyna hvað þau geta að bæta fyrir mistökin að styðja við TPLF, en Kínverjar, Tyrkir, Arabalöndin við Persaflóa og ekki síst Indverjar sækja hingaði í sívaxandi mæli til að taka þátt í því upprennandi efnahagsundri sem Eþíópía virðist ætla að verða.

Hvað hefur þá breyst? Jú, Dr. Debretsion er orðinn yfirmaður TPLF aftur, æðsti maður í fylkisstjórn Tígraí fylkis, og hann vill fá vestur Tígraí undir sig aftur, og sjálfsagt byrja að undirbúa nýtt stríð (hann er nógu vitlaus til þess). Forsprakkar TPLF hafa alltaf verið snillingar þegar kemur að áróðri á vesturlöndum, og núna vilja þeir beita þrýstingi eins og þeir mögulega geta. Debretsion leiddi á dögunum sendinenfd TPLF manna á fund Dr. Abiy Ahmed forsætisráðherra og krafðist þess að afvopnum fylkisherja yrði lokið sem fyrst (aumur punktur vegna stöðunnar í Amhara) og að Vestur Tígraí yrði skilað umsvifalaust. Abiy svaraði því til að afvopnun gengi að fullu eftir áætlun (sem er kannski ekki alveg rétt, en samt ekki svo fjarri lagi) og að staða Vestur Tígraí (Welkeit) yrði ákveðin í almennri atkvæðagreiðslu íbúa í Tígraí og Amhara fylkjum (sem myndi auðvitað ganga Amhara í vil enda fimm sinnum fjölmennari). Síðari staðhæfingin hljómar meira eins og bein hótun til Dr. Debretsion um að hafa sig hægan.

Aukinn fréttaflutningur núna af ástandinu í Eþíópíu eru óskiljanlegar nema sem liður í einhverri áróðursherferð. Og TPLF á sér enn góðvini víða á vesturlöndum, t.d. forsprakka Alþjóða Heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sem er bóksflega meðlimur í TPLF!

Staðan í Eþíópíu mætti auðvitað vera betri, og alvöru átök hafa átt sér stað þar sem fólk hefur í alvöru látið lífið. Einhverjir hafa eflaust látist vegna vannæringar á jaðarsvæðum þar sem samgöngur eru hvað erfiðastar. En allt er þetta á réttri leið, ekki síst sú staðreynd að ungt fólk yfirgefur jaðarsvæðin í stórum stíl og sækir til borganna. Allir starfsmenn hjá mér eru fæddir útí sveit, og foreldrar þeirra eru einir eftir, börnin öll farin á mölina. Eftir örfáa áratugi má reikna með því að fréttir af hungri heyri sögunni til, en jaðarlandbúnaðarsvæðin verði orðin að náttúrsvæðum aftur svipað og gerðist á Hornströndum og á stórum svæðum á Austurlandi og Austfjörðum.

Margir sem fylgjast með utanfrá telja að vænlegasta leiðin til friðsamrar framtíðar sé að breyta stjórnarskrá landsins og leggja niður þjóðernisfylkjafyrirkomulagið („ethnic federalism“) og taka upp hefðbundnari fylkjafyrirkomulag eins og þekkist víða um heim. Menn líta til fordæmis Nígeríu, sem samanstóð af 12 þjóðernisfylkjum eftir að Bretar veittu þeim sjálfstæði. Stjórnarskrárbreyting leiddi til þess að fylkin klofnuðu upp og eru núna nærri 50 talsins, þjóðernisátök minnkuðu verulega og ekkert eitt fylki, eða eitt þjóðerni, getur talist ógn við stöðugleika ríkisins. Næstu tvö til þrjú ár ættu að sýna hvað verður, en ætli slíkar jákvæðar breytingar rati í fjölmiðla á vesturlöndum?

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí