Ég held að flestum sé ljóst að öll þau sem mælast hæst í skoðunarkönnunum geta öll sinnt embætti forseta Íslands sómasamlega og verið þjóðinni til sæmdar innanlands sem og utan. Öll eru þau ólík og mundu setja sitt mark á embættið sem væri fróðlegt og gaman að fylgjast með en við eigum bara kost á að fylgjast með einu þeirra í næstu fjögur ár að minnsta kosti. Öll þau sem sinnt hafa starfinu hingað til hafa gert það á sinn persónulega hátt og ég held að þjóðin sé bara nokkuð sátt við hvernig til hefur til tekist. Þó eiga líklega allir sér uppáhalds forseta og við eldri sem munum marga eigum kannski í erfiðleikum með að gera upp á milli einhverra tveggja eða þriggja en ég held að við séum að mestu sátt við alla. Ég ætla hér að velta aðeins vöngum yfir framboði þeirra fimm sem hæst skora í skoðunarkönnunum nú, en ég vil minna á að þetta eru mínar persónulegu vangaveltur og hafa náttúrulega ekkert meira vægi en persónulegar skoðanir hvers og eins sem les þetta. Ég viðurkenni strax hér í upphafi að ég styð Höllu Hrund Logadóttur í þessum kosningum af ástæðum sem ég kem að síðar.
Jón Gnarr væri líklega mest spennandi persónan af þessum fimm á Bessastöðum. Hann sýndi það sem borgarstjóri Reykjavíkur að hann getur allt og getur gert það á skemmtilegan hátt. Ef eitthvað væri í vændum þar sem forsetinn er með hlutverk verða held ég margir sem láta það ekki fram hjá sér fara í von um eitthvað óvenjulegt og kannski skemmtilegt. Hann mundi líklega finna sér einhvern til þess að hjálpa til við leiðinlega hluta starfsins og hver veit nema Dagur B Eggertsson hreinlega yrði varaforseti, sá fyrsti á Íslandi (sumir frambjóðenda, reyndar ekki sem eru hér til umfjöllunar telja embættið mjög valdamikið).
Halla Tómasdóttir er ekki líkleg að vera með mikið sprell á Bessastöðum, tekur starfinu alvarlega og með þeirri virðingu sem margir telja að eigi við. Halla Tómasardóttir er “buisiness person” eins og segir á Wikipedia, sem sagt kemur úr viðskiptalífinu og hefur skapað sér nafn á þeim vettvangi. Hún var ásamt Kristínu Pétursdóttur stofnandi fjárfestingarfyrirtækisins Auður Capital sem að mér skilst að fjárfestir aðallega í fyrirtækjum sem eru í eigu kvenna og hefur sem takmark að efla hlut kvenna í efnahagslífinu. Halla Tómasdóttir hefur kemur vel fyrir í viðtölum og kann sig eflaust vel í þeim hluta starfsins. Ástæðan fyrir því að Halla Tómasdóttir er ekki minn kandídat er einfaldlega sú að mér finnst hennar bakgrunnur og áherslur vera of mikið “buisness”, ég er komin með nóg af markaðsvæðingu á öllum hlutum og bara yfirleitt nýfrjálshyggjunni allri sem slíkri. Ég treysti ekki almennilega einstaklingi í þetta embætti sem kemur úr slíku umhverfi.
Baldur Þórhallsson er náttúrulega mjög frambærilegur kandídat og hefur óvenju góðan og nýtanlegan bakgrunn í þetta embætti. Prófessor í stjórnmálafræði og í sínum rannsóknum með áherslur á hlut og hlutverk smáþjóða og ekki minnst staða Íslands í Evrópskri samvinnu. Baldur kæmi ekki til með að gera byltingu á Bessastöðum nema að einu leiti, hann tæki með sér maka sinn sem er af sama kyni. Það væri náttúrulega stórkostlegt fyrir Ísland og ásýnd þess erlendis að vera fyrst þjóða með opinberlega samkynja par í svona stöðu. Ég held að það væri ekkert nema jákvætt við það og það væri spennandi að fylgjast með þeim í þeirri vegferð. Það sem gerir að Baldur er ekki minn kandídat er fyrst og fremst það hvernig hann hefur nánast verið talsmaður aukinnar viðveru hers á Íslandi og svo er hann einfaldlega of hægri sinnaður fyrir minn smekk þótt hann hafi verið þingmaður Samfylkingarinnar. Já það er fullt af hægri í Samfylkingunni því miður.
Katrín Jakobsdóttir er náttúrulega framúrskarandi hæf sem forseti Íslands, á allan hátt, bæði hvað varðar menntun, reynslu og alla framkomu. Katrín er fluggáfuð, sjarmerandi og sérlega dugmikil manneskja að öllu leiti. Hún hefur verið forsætisráðherra í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum í sjö ár, flokki með gjörólík sjónarmið á nánast allt sem þjóðfélaginu við kemur en samt tekist að halda þessu saman í gegnum súrt og sætt. Það er náttúrulega með ólíkindum þegar horft er á stefnumál þessara tveggja flokka. Það sem gerir að ég kýs ekki Katrínu sem í þessum forsetakosningum er að hún og flokkur hennar sveik okkur kjósendur flokksins svo gróflega í kosningunum 2017. Við vorum nánast örugg um að atkvæði til VG væri atkvæði gegn stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins. Ég er ekki langrækinn en þegar annað betra býðst þá þarf ég ekki að krypa till korset og fyrirgefa, ég hef annan kandídat.
Halla Hrund Logadóttir er minn frambjóðandi og ætla ég nú að reyna að skýra frá hvers vegna. Hún er náttúrulega framúrskarandi frambærileg á allan hátt, sjarmerandi, jákvæð og óvenju afkastamikil í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún er ímynd íslenskrar náttúru í öllu sínu atgervi, brosandi glöð og björt í allri ásýnd og töfrar okkur sem á hana líta. Þetta er auðvitað allt saman einhver lýsing á því hvernig áhrif hún hefur haft á mig í gegnum tölvuskjáinn og í útvarpi. Ég hef aldrei hitt hana eða talað við persónulega þannig að þið skuluð láta ofangreint sem vind um eyrun þjóta. Halla Hrund hefur mjög góða menntun sem kemur að gagni í þessu starfi, hefur reynslu í alþjóðlegri samvinnu og getið sér orð í því samhengi en hún er fyrst og fremst íslensk kona sem stendur á sínu og hefur augljóslega almannahag í huga þegar kemur til hagsmunaárekstra. Það hefur hún sýnt sem orkumálastjóri og ég vil meina að hún hafi rutt braut þar sem forstöðumenn ríkisstofnana á Íslandi geta fetað í hennar fótspor. Halla Hrund hefur sem enginn annar orkumálastjóri sett almannahagsmuni og fjárhag heimila í forgrunn í ákvarðanatöku, jafnvel í trássi við ráðherra málaflokksins. Það er þessi einbeitti vilji hennar að standa vörð um almannahagsmuni sem gerir að ég vil hafa hana sem næsta forseta Íslands. Ég hef ekki hugmynd um stjórnmálaskoðanir Höllu Hrundar en þetta nægir mér til þess að styðja hana heilshugar.