Af hverju ertu ekki duglegri að spara?

Skoðun Sanna Magdalena Mörtudóttir 4. jún 2024

Rödd einstaklingshyggjunnar segir okkur að bæta aðlögunarhæfni okkar í krefjandi aðstæðum í stað þess að berjast gegn kúgandi samfélagsgerð. Einstaklingshyggjan gefur þér náðarsamlega tvo valkosti þegar erfiðleikar bjáta á. Annaðhvort getur þú verið duglegri að vinna þig upp úr erfiðleikunum. Ef ekki, þá verður þú að sætta þig við minna en þú þarft á að halda. Fylgjum einstaklingshyggjunni í gegnum daginn og sjáum hvort hún nái að leysa vandann og gera lífið bærilegra.

„Góðan dag“ heyrist í einstaklingshyggjunni þegar hún hvetur mig til þess að drífa mig á klóið, ná að pissa áður en hinir leigjendurnir sem ég þekki ekki neitt æða fram og inn á sameiginlega baðherbergið. Þegar ég kem til baka inn í herbergi, er ég fegin að hafa munað eftir klósettpappírsrúllunni minni. Ekki séns að ég skilji hana eftir fyrir hin.

„Þú biður um of mikið“ eru viðbrögð einstaklingshyggjunnar gagnvart löngun minni í eigin íbúð. Löngun í sérbaðherbergi og löngun í eldhús sem er meira en örbylgjuofn og hraðsuðuketill. Áfram heldur þessi viskubrunnur að kenna mér á lífið: Hér er nú hægt að elda og hita mat, hvað meira þarf fólk? Svo eru ýmis ráð til staðar um hvernig megi elda örbylgjuvænarétti. Bera sig eftir björginni, hætta þessu væli. „Þú ert ekki nógu úrræðagóð“ bætir einstaklingshyggjan við og heldur áfram að draga fram galla mína. Hún er ansi flink í því.

„Þú ert vandamálið“ kallar einstaklingshyggjan, þegar ég dæsi yfir því að vera ekki komin með mína eigin íbúð. Já það hlýtur að vera eitthvað að mér fyrst ég er að leigja svona lítið herbergi fyrir allt of marga tíuþúsundkalla. „Af hverju byrjaðir þú ekki fyrr með viðbótarlífeyrissparnaðinn?“ Ásökunartónninn í einstaklingshyggjunni er greinilegur. Þessi hyggja er ekkert svo hugguleg og skilur greinilega ekki að það var ekki í boði að skerða lágu launin mín enn frekar, þó það væri „bara“ 2%.

Ráðleggingarnar halda áfram yfir morgunbollanum og láta mig vita að ég hefði nú getað sleppt því að fara út á lífið og fjárfest frekar í hlutabréfum. Fjárfest í mér. Þá ætti ég kannski fasteign í dag. Ef ég hefði verið súperdugleg og sparað extra mikið, ætti ég kannski fasteign með auka íbúð sem ég gæti leigt út, fjárfestingu sem gefur af sér. Draumaeignina.

„Sparnaður er greinilega ekki þín sterka hlið“ öskrar einstaklingshyggjan á mig og þar með er ég farin að skima í kringum herbergið mitt. Hvað er verðmætt hér? Hvað get ég selt? Ég hlýt að fá slatta fyrir kommóðuna sem langamma átti. Tilfinningalegt gildi er fyrir aumingja. Gengur ekki að vera fúl yfir húsgögnum. Áfram gakk, ég er komin inn á brask og brall.

„Gríptu daginn, hættu að klúðra og sjáðu tækifærin í kringum þig“ eru hvatningarorð einstaklingshyggjunnar sem neitar að horfast í augu við þann efnahagslega veruleika sem við búum við. Veruleika þar sem húsnæðisuppbygging fer fram á forsendum fjármagnseigenda í stað fólksins sem er í leit að heimili. Veruleika þar sem almenningur er látinn greiða fyrir verðbólgu. Veruleika þar sem ríkir verða ríkari á kostnað þeirra fátæku. Veruleika þar sem lúxusíbúðir með tveimur svölum per íbúð eru reistar í nágrenni við gistiskýli fyrir þá sem eru heimilislausir.

Einstaklingshyggjan neitar að viðurkenna að hún hefur rangt fyrir sér. Þegar ég leggst á koddann eftir annasaman dag hvíslar hún því að mér að ég hefði örugglega gott af því að vinna með markþjálfa til að ná markmiðum mínum og verða besta útgáfan af sjálfri mér. Útgáfan sem klúðrar ekki málunum. Útgáfan sem stendur sig. Útgáfan sem sparar markvisst í hverjum einasta mánuði á lokuðum reikningi með góða innlánsvexti

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí