Ég er stoltur sósíalisti

Skoðun Trausti Breiðfjörð Magnússon 13. jan 2023

Mig langar að endurbirta færslu sem ég skrifaði fyrir nokkru síðan um ástæður þess að ég kalla mig sósíalista. Það fylgdi því mikill léttir að birta hana opinberlega á sínum tíma. Að tilkynna fyrir umheiminum að maður sé sósíalisti getur verið erfitt á síðkapítalískum tímum. En þegar því hefur verið aflétt er vegurinn bara upp á við. Maður hefur engu lengur að tapa. Hér að neðan er lesturinn.

Ég er sósíalisti. Tel mig heppinn að gera mér grein fyrir því svona ungur. Það er í raun mesta furða miðað við áróðurinn og þrælslundina í garð auðvaldsins hér á landi. Kannski er ástæðan sú að ég hef alltaf verið mjög næmur fyrir óréttlæti. Held það sé í eðli mannsins að vilja réttlæti og sanngirni.

Sósíalismi er í raun það fyrirkomulag sem gerði mannfólki kleift að komast af. Án samvinnu og hjálpsemi í garð annarra værum við útdauð tegund. Það er magnað að vitleysan um einstaklingshyggjuna ráði enn ríkjum. Það er í andstöðu við allar þær hvatir sem gerðu okkur kleift að komast af. Þetta er jafn mikil vitleysa og að segja fólki að hætta að hreyfa sig, sofa bara 4 tíma á sólarhring eða neita sér um mat. Þú segir fólki ekki að slökkva á eðli sínu.

Sósíalismi snýst um að veita þörf okkar fyrir umhyggju, samstöðu og samhjálp farveg. Við eigum erfitt með að sjá aðra þjást og viljum að þeir hafi það betur. Þótt velviljinn sé til staðar er það því miður ekki nóg. Samfélagið hefur verið mótað af hinni úrkynjuðu einstaklingshyggju og þ.a.l. eru margar hindranir í vegi þess að fólk komist úr bágum aðstæðum.

Til þess að skapa réttlátt samfélag þarf að ráðast á meinið sem viðheldur ójöfnuði og óréttlæti. Það eru þeir sem eru haldnir fíknisjúkdómnum græðgi. Þeir eru í raun ekkert öðruvísi en aðrir fíklar. Svífast einskis til þess að fá meir og meir af sínum skammti. Það kemur niður á öðrum og margir sitja eftir sviðnir og án alls í kjölfarið.

Skattkerfið, regluverkin og þjóðfélagsumræðan hvetur þar að auki þessa hegðun áfram. Upphefur hana og gerir þetta fólk að hetjum. Ímyndið ykkur samfélag þar sem hinn áfengissjúki væri uppklappaður alla daga og fengi sérstakar ívilnanir fyrir að drekka meir og meir. Þetta er þannig samfélag sem við lifum í nema efnið sem um ræðir eru peningar.

Ég vil að fólk vakni upp og hlusti á sinn innri kærleik og réttlætiskennd. Stigi fram og skammist sín ekki fyrir að segja nei við því samfélagi sem hefur verið skapað á tímum nýfrjálshyggjunar. Hvet alla til þess að standa saman og fá fleiri með okkur í lið. Keisarinn er nakinn. Það hafa bara ekki allir séð það ennþá.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí