Réttsýnan og röskan alþýðumann á Bessastaði

Skoðun Haraldur Ólafsson 30. apr 2024

Einn er sá frambjóðandi til embættis forseta Íslands sem hefur sýnt í verki að hann mun standa vörð
um hagsmuni alþýðu landsins. Hann hefur á ótalmörgum fundum og í greinum í blöðum og á bloggi
sínu dregið fram í dagsljósið mál, sem varða alla alþýðu og vert er að staldra við.

Arnar Þór Jónsson hefur margsinnis varað við samkrulli löggjafarvalds og auðvalds, bæði á Íslandi og í
alþjóðlegu samhengi. Hann hefur, einn fárra, barist harkalega gegn framsali á valdi í farsóttarmálum
til erlendrar stofnunar, ekki síst á þeim forsendum að henni er beint eða óbeint stjórnað af alþjóðlegu
auðmagni og lýtur litlu lýðræðislegu aðhaldi.

Arnar Þór Jónsson hefur ítrekað mótmælt stríðsrekstri í útlöndum og sérstaklega stuðningi Íslendinga
við þann rekstur sem gengur nú yfir allan þjófabálk. Það fer ekkert á milli mála að Arnar Þór sér að
þar er sonum fátækrar alþýðu fórnað í þúsundatali á altari hagsmuna auðmagns.
Arnar Þór Jónsson hefur barist harðar en flestir aðrir gegn tilfærslu á valdi í orkumálum til ókjörinna
manna í útlöndum. Hann gerir sér augljóslega grein fyrir því að það er forspil að tónverki þar sem
lokastefið er að ein helsta auðlind Íslendinga, raforkan, lendi í vasa vandalausra. Hann er algerlega
andsnúinn því í orði og á borði.

Eflaust hafa aðrir frambjóðendur svipaðar skoðanir á málum og Arnar Þór í einhverjum góðum
málum. En Arnar Þór hefur þekkingu, þor og kraft til að fylgja þeim eftir. Enginn skyldi svo halda að
Arnar Þór geti ekki látið hendur standa fram úr ermum þótt hann fari í sparifötin þegar teknar eru
myndir.

Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí