Stefna Sjálfstæðisflokksins virðast vera í andstöðu við vilja þjóðarinnar í mörgum mikilvægum málum og virðist þetta hafa verið viðvarandi ástand lengi. Ástæðan er líklega sú að flokkurinn er fremst rekinn sem hagsmunasamtök fjármagnseigenda og mikið af þeirri vinnu sem fer í að skapa ásýnd flokksins útávið fer í að dylja þessa staðreynd. Með óljósum slagorðum um sjálfstæði, frelsi einstaklingsins og frjáls viðskipti hefur flokknum tekist að sigla fram hjá skerjum raunveruleikans í kosningabaráttu hingað til en nú er held ég komið að uppgjöri. Flokkurinn hefur algjöra sérstöðu í íslenskri pólitík, valdaflokkur sem hefur nýtt sér völdin óspart í eigin þágu og deilt út bitlingum um alla anga þjóðfélagsins og er án efa spilltasti flokkur landsins ásamt Framsóknarflokknum. Bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingasaga, fer vel yfir það hvernig flokkurinn teigir anga sína um allt þjóðfélagið eins og kolkrabbi og heldur því raunar í fjötrum. Hér eru nokkur dæmi um mál þar sem flokkurinn virðist fara gegn almennum vilja þjóðarinnar.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur stutt einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, sem hefur mætt mikilli andstöðu á meðal almennings. Það má færa rök fyrir því að þetta hafi leitt til versnandi aðstöðu á Landspítalanum og annarra heilbrigðisstofnana í opinberum rekstri eins og dæmi eru um erlendis frá þegar aukin einkavæðing kemur niður á gæðum opinberar þjónustu.
Stefna flokksins um frekari virkjanir og nýtingu á íslenskri orku hefur verið í andstöðu við meirihluta þjóðarinnar sem vill frekar að náttúruvernd sé sett í forgang yfir frekari orkuframleiðslu.
Flokkurinn vill draga úr ríkisútgjöldum og auka hlut einkaframtaks í opinberum verkefnum, þrátt fyrir að flestir kjósendur vilji öflugra opinbert velferðarkerfi fjármagnað af sköttum á hærri tekjuhópa.
Utanríkisstefna Sjálfstæðisflokksins hefur mætt mikilli gagnrýni áratugum saman og er nú talin í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar varðandi stríðið á Gaza.
Stefna flokksins um að halda í núverandi kvótakerfi í sjávarútvegi hefur verið gagnrýnd, þar sem margir vilja breyta kerfinu til að tryggja sanngjarnari dreifingu á rentu auðlindarinnar.
Flokkurinn hefur stutt einkarekstur í menntakerfinu, sem hefur ekki verið vinsælt meðal flestra sem vilja halda í sterkt opinbert menntakerfi.
Stefna flokksins um að draga úr útgjöldum til almannatrygginga og félagsþjónustu er í andstöðu við vilja flestra sem vilja auka stuðning við þá sem standa höllum fæti.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur stutt skattalækkanir á fyrirtæki og efnameira fólk, á meðan flestir kjósendur vilja sjá hærri skatta á efnameira fólk til að fjármagna opinbera þjónustu.
Stefna flokksins um að draga úr umhverfisreglum til að auðvelda atvinnustarfsemi er í andstöðu við vilja flestra sem vilja sjá strangari kröfur um umhverfisvernd.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur íhaldssamari afstöðu í innflytjendamálum, sem hefur verið umdeilt og í andstöðu við vilja þeirra sem vilja opnara og fjölmenningarlegt samfélag.
Almennt má segja að Sjálfstæðisflokkurinn sæki sínar hugmyndir fremst til BNA og Bretlands á meðan íslenskur almenningur hallast frekar að Evrópu og hinum Norðurlöndunum hvað varðar hugmyndir um þróun þjóðfélagsins. Það má því teljast furðulegt að flokknum hafi tekist í alla þessa áratugi að hanga við völd þrátt fyrir að hafa skoðanir og stefnu í allt aðra átt en hin almenni kjósandi. Ein skýring, að minnsta kasti sögulega séð, er Morgunblaðið sem hafði gífurleg áhrif á skoðanamyndun í landinu og hin skýringin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf séð til þess að hafa, meira og minna, stjórn á RÚV. Margt bendir til þess nú að þessum kafla í pólitískri sögu þjóðarinnar sé að ljúka og að nýtt tímabil sé tekið við þar sem Samfylkingin, hæfilega hægri áttuð fyrir fjöldann, fer nú himinskautum og skrúfar vonandi fyrir helstu leka spillingar í þjóðfélagslíkamanum.