Er það stór spurning hver verði forseti Íslands?

Skoðun Reynir Böðvarsson 22. apr 2024

Auðvitað gæti verið gaman að hafa Jón Gnarr á Bessastöðum þar sem hann gæti jafnvel komið okkur í gott skap af og til með tilsvörum sínum við spurningum blaðamanna. Það liggur við að maður hlakki til við tilhugsunina hvernig hann mun setja sína persónu í þetta embætti og hvernig embættið yrði í hans höndum. Ég yrði ekkert mjög óánægður með þá niðurstöðu ef hann yrði kosinn sem forseti vegna þess að ég er frekar áhættusækinn og hef stundum gaman af pólitískum fáránleika. 

Hvað varðar Baldur Þórhallsson þá er engu slíku að vænta, enginn pólitískur fáránleiki en hins vegar ekkert mikið annað heldur. Röddin hans úr stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands mun bara hljóma í eyru okkar eins og venjulega, hógvær, skynsöm og frekar íhaldssöm þannig að fáir munu hrökkva við þegar hann talar til þjóðarinnar. Röddin verður okkur kunnug og kemur úr átt sem við erum vön að heyra slíkar raddir, einhvers staðar þarna sem allavega við flest höfum ekki verið, þarna að ofan og heldur til hægri. Það gæti bara verið nokkuð fróðlegt að fylgjast með honum í því nýja hlutverki. 

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir væri forseti að mínu skapi, ástríðufull málsvari þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu en samtímis með mikla reynslu og glæsilegan feril í samskiptum við þjóðina þótt hlutverkið hafi hingað til verið frábrugðið því sem hún stæði frammi fyrir sem forseti. Ég er sannfærður um að hún ynni hjarta þjóðarinnar líka í þessu nýja hlutverki og einnig alþjóðlega eins og Vigdís gerði á sínum tíma.

Katrín Jakobsdóttir var forsætisráðherra þar til hún ákvað að bjóða sig fram til forseta og hún lét eftir forsætisráðherra embættið til Bjarna Benediktssonar. Við þekkjum öll vel til Katrínar og mörg okkar, líklega flest, hefðu kosið hana til forseta fyrir átta árum. Nú er staðan hins vegar allt önnur, margir setja spurningarmerki við hopp hennar beint úr embætti forsætisráðherra í stól forseta en ég er ekkert endilega sammála þeirri greiningu. Hins vegar er augljóst öllum hvaðan hún kemur, úr innsta hring íslenskra stjórnmála bæði sem alþingismaður, ráðherra, formaður stjórnmálaflokks og að lokum forsætisráðherra. Þetta er náttúrulega glæsilegur ferill en spurningin er hvort þjóðin sé að leita að forseta með þennan bakgrunn. Vill þjóðin forseta sem kemur beint ú flokkakerfinu og þar af leiðandi með flokkspólitíska sýn á flest mál. Ef svo er þá get ég vel sætt mig við þá niðurstöðu þótt hún sé ekki sú sem ég helst vill sjá.

Ég vill nefnilega Höllu Hrund á Bessastaði. Hún hefur allt til að bera sem talist getur til kosta og fátt ef nokkurt sem mælir í mót. Hún á rætur í íslenskri bænda menningu, sem er okkar allra ef við lítum aðeins til baka, og hún hefur beitt sér á eftirtektarverðan hátt sem orkumálastjóri hvað varðar umhverfisvæna notkun auðlinda landsins. Halla Hrund hefur mikla reynslu af alþjóðlegri samvinnu og hefur einmitt samvinnu sem eitt af kjörorðum sínum. Halla Hrund leggur áherslu á að sameina fólk í verkefni sem gagnast heildinni þar sem réttlæti er leiðarljósið. Hún hefur sem orkumálastjóri bent á nauðsynlegar lagabreytingar til þess að vernda  heimili og minni fyrirtæki gagnvart markaðsvæðingu á orkumarkaði og sem einnig mun gagnast náttúruvernd. Hún hefur bent á skyldur ríkari landa gagnvart þeim fátækari þegar kemur að orkuskiptum alþjóðlega og að fátækari lönd verði að fá að lyfta sínum efnahag og þar hafi ríkari lönd skyldur vegna fortíðarskuldar í loftlagsmálum. Halla Hrund er ein af okkur, komin af alþýðufólki á Íslandi, en hún á líka glæsilega og fjölbreytta reynslu á alþjóða vettvangi. Halla Hrund Logadóttir er minn forseti.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí